Launabil kynjanna á Íslandi er nálægt meðaltali OECD-ríkja. Mismunurinn á unnum vinnustundum kynjanna er hins vegar hvergi meiri, innan bandalagsins, en hér. Þetta kemur fram í skýrslu OECD um stöðu og horfur efnahagsmála á Íslandi, sem birt var í sumar. Í ríkjum bandalagsins eru vinnustundir karla að jafnaði rúmlega 4 prósentum fleiri en vinnustundir kvenna. Á Íslandi munar nær 11 prósentum.
Frá aldamótum hefur dregið saman með vinnustundafjölda karla og kvenna á Íslandi, segir í skýrslunni. Þó er enn algengt, samkvæmt skýrslunni, að karlar vinni fleiri en eitt starf og vinni langa vinnudag til að bæta upp fyrir lélegt tímakaup, á meðan umönnun barna og heimilisstörf lenda enn í dag frekar í verkahring kvenna. Þá eru konur líklegri til að vinna hlutastörf, en það gera 36% kvenna á móti 13% karla.
Óbreytt skatta- og bótakerfi hvetur ekki
Þá segir í skýrslunni að konur starfi oftar í opinbera geiranum eða við félagsþjónustu, en sjaldnar í stjórnunarstöðum eða störfum sem krefjast menntunar á þeim sviðum sem nú eru víðast hvar nefnd STEM: það er innan raunvísinda, tækni, verkfræði og stærfræði.
Skatta- og bótakerfið veitir að sögn skýrslunnar fáa hvata fyrir þann maka sem er með lægri tekjur, oftast konur, til að skipta úr hlutastarfi í fullt starf. Þrátt fyrir að atvinnuþátttaka beggja kynja sé hér um bil jöfn er fyrir vikið launabilið milli karla og kvenna, eins og fyrr segir, nálægt meðaltali OECD-ríkja.
Í skýrslunni er mælt með að menntakerfi landsins verði lagað að því markmiði að jafna hlutdeild kynjanna milli faggreina og efnahagssviða, en skattlagningu og bótum breytt í þágu þess að draga úr kynbundnum mun á fjölda vinnustunda og launamun.