Erum við kristin þjóð? spyr prestur í tilefni af meðferð á hælisleitendum

„Það er í tísku – einkum meðal þeirra sem minnsta samúð vilja sýna okkar minnstu bræðrum og systrum – að básuna það að Íslendingar séu kristin þjóð. Er það svo? Erum við kristin þjóð?“ spurði Davíð Þór Jónsson, sem starfar sem prestur í Háteigskirkju í haust, í predikun sinni á sunnudaginn þar sem hann fjallaði um aðgerðir stjórnvalda gegn hælisleitendum.

„Aðhyllumst við í raun kristna trú eða skreytum við okkur bara með kristnum trúarbrögðum?“ spurði Davíð Þór í lok predikunarinnar. Og svaraði sjálfum sér með því að minna á það sem Kristur sagði: „Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá.“

Davíð Þór lagði út frá guðspjalli dagsins sem sagði frá því þegar farísei fann að því að að Jesús lét bersynduga konu lauga fætur sínar. Jesús fyrirgefur henni syndir hennar og segir að trú hennar hafi frelsað hana. Davíð fjallaði síðan um trú og trúarbrögð.

„Við vitum ekkert um trúariðkun bersyndugu konunnar í guðspjalli dagsins. Hve dugleg var hún að fara með bænirnar sínar? Hve oft fór hún í musterið?“ spurði hann síðar.

„Það eina sem við vitum með vissu er að hún játaði ekki kristna trú, enda ekki búið að stofna kristindóminn. Hún gekk ekki til altaris eða kunni postullegu trúarjátninguna. En hún er samt fyrirmynd okkar kristinna manna um einlægan trúarhita. Takið eftir því að frásögnin endar ekki á því að Jesús segir við konuna: „Trúarbrögð þín hafa frelsað þig.“ Hvað þá: „Trúfélagsaðild þín hefur frelsað þig.“ Nei, hann segir: „Trú þín hefur frelsað þig.““

En hvað með faríseann?

„Við vitum öllu meira um hann,“ sagði Davíð Þór. „Farísear voru trúarhópur manna sem höfðu einsett sér að fara í einu og öllu eftir öllum hinum smásmyglislegustu fyrirmælum lögmáls gyðinga. Þeir beinlínis litu þannig á að þeir væru yfir aðra hafnir, ekki bara í laumi eða innra með sjálfum sér heldur var það opinber sannfæring þeirra og sjálfsmynd. Orðið „farísei“ merkir beinlínis „aðskilinn“. Farísear litu ekki svo á að þeir væri hluti af almenningi, af þýðinu þarna úti, þeir voru aðskildir frá því vegna þess að þeir kunnu allar reglurnar og helgisiðina, fyrirmælin og etíketturnar og fóru eftir þeim í einu og öllu niður í smæstu smáatriði. Þeir voru opinberlega yfir aðra hafnir.“

„En það er ekki faríseinn sem er fyrirmynd okkar,“ sagði Davíð Þór. „Faríseinn kemur ekkert sérstaklega vel út úr þessari frásögn. Það gerir aftur á móti smælinginn, hinn útskúfaði og fótum troðni. Enn og aftur segja guðspjöllin okkur því frá því hvernig Jesús valdeflir smælingjann gegn þeim sem smættar hann niður í synd sína og sviptir hann mannlegri reisn … og þannig hluta mennsku sinnar.

Þetta myndum við aldrei gera í dag, er það? Að sjá ekki manneskjuna heldur bara stimpilinn sem samfélagið setur á hana og svipta hana mannlegri reisn og möguleikanum á að eiga sér mannsæmandi líf. Þetta gerum við ekki sem samfélag … nema náttúrlega þegar stimpillinn er „hælisleitandi“. Þá má liðið vera á götunni eða hírast í gjótum úti í hrauni eins og refir.“

„Enn og aftur segja guðspjöllin okkur nefnilega ekki bara frá því hvernig Jesús valdeflir smælingann gegn sálar- og samúðarlausu yfirvaldi, heldur kallast boðskapur þeirra enn og aftur á við siðferðileg úrlausnarefni samtíma okkar, hér í öðrum heimshluta 2000 árum eftir að þau voru fyrst færð í letur,“ sagði Davíð Þór.

„Hverjir eru það sem fara eftir lögum og reglum í einu og öllu … ekki síst ólögum … óháð því hvaða áhrif það hefur á lifandi og líðandi meðbræður og systur?

Það eru ekki þeir sem Jesús styður og hjálpar, læknar og reisir við. Það eru ekki góðu gæjarnir í guðspjöllunum. Jesús tekur alltaf málstað hinna jaðarsettu og þjáðu gegn broddborgurunum sem álíta sig yfir þá hafna af því þeir fara eftir reglunum.

Nei, það eru farísearnir. Og þeir eru enn mitt á meðal okkar. Þeir kalla sig ekki farísea, þeir básúna ekki í heyranda hljóði að þeir séu yfir aðra hafnir og Guði þóknanlegri af því að þeir eru svo duglegir að fara eftir reglunum. En af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá.“

Davíð Þór kemur að Rauða borðinu í kvöld og ræðir um hælisleitendur og aðgerðir stjórnvalda gegn þeim frá sjónarhóli kristinnar trúar.

Lesa má predikun hans frá síðasta sunnudegi hér: Farísearnir meðal okkar

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí