120 krónur á tímann – Ísland á ekki lög gegn þrælahaldi

Mörgum var illa brugðið yfir frétt sem Vísir birti á fimmtudag, undir fyrirsögninni „Þrjú þúsund krónur útborgaðar fyrir 35 tíma vinnu: „Þetta er ekki sanngjarnt““.

Í fréttinni greinir frá 29 ára gömlum fötluðum manni, Atla Má Haraldssyni, sem starfaði hjá vinnustofunni Ás í um níu ár, þar til í byrjun þessa árs. Styrktarfélagið Ás rekur vinnustofur þar sem fatlað fólk sinnir meðal annars framleiðslu á trévörum, vefnaði, keramikvarningi og kertum, eins og sjá má á vefverslun vinnustofunnar. Fréttinni fylgir mynd af launaseðli Atla frá árinu 2022, þar sem honum eru reiknaðar 119,93 krónur í tímakaup fyrir störf sín eða tæpar 120 krónur. Fyrir 35 unnar stundir eru honum greidd 4.197 króna laun en af þeim dragast skattar og gjöld. Þau útborguðu laun sem standa eftir eru 2.762 krónur. Atli segir að sér þætti í lagi að borga meira en þetta, enda sé bæði matarverð og húsaleiga orðin há. Þá er haft eftir Atla að Ás sé „eins og geymsla fyrir fatlað fólk“.

Margir lesendur hafa líkt þessum launakjörum við þrælahald. Þannig spyr Tómas Viðarsson á Facebook: „Mér þætti gaman að vita hver rekur þessa sjálfseignarstofnun og hvort það er ekki hægt að kæra hann fyrir þrælahald, enda er þetta ekkert annað.“ Bergljót Tul Gunnlaugsdóttir skrifar: „Jú þetta er íslenskt þrælahald og misnotkun á fólki sem ekki getur borið hönd yfir höfuð sér. Oj.“ „Þrælahald. 2022 og er enn. Hvar eru verkalýðsfélögin núna?“ spyr Páll Sverrisson, og svo framvegis.

En ef þetta er þrælahald, þá er þó ekki ljóst að auðvelt væri að kæra það, þar sem Ísland hefur enn ekki bannað þrælahald með lögum.

Ekki auðvelt fyrir skjólstæðinga að hætta

Daginn eftir að fréttin birtist ræddi Vísir við forstöðumann Áss, Halldóru Þ. Jónsdóttur. Halldóra segist hafa beðið eftir því að frétt sem þessi birtist. „Þetta er ekki sanngjarnt,“ sagði hún, „auðvitað ekki.“ Draumurinn væri að allir væru á launum samkvæmt kjarasamningi „en þá er þetta spurning um hver ætlar að borga það.“ Sumir starfsmenn vinnustofanna eru á kjarasamningum, að sögn forstöðumannsins, það eru þau sem framleiða vöru sem stendur undir slíkum launagreiðslum.

Innifalið virðist að þau sem ekki framleiði jafn eftirsóttan söluvarning fái ekki laun í samræmi við kjarasamninga, heldur einhvers konar hlutfall af söluverðmæti afurðanna. „Ég er hérna með 160 manns,“ segir hún, „sem ég þarf að deila nokkrum milljónum með yfir árið.“ Hún bætti því við að horfa þyrfti til stærra samhengis, meðal annars að það sé erfitt fyrir fatlað fólk að hætta í þessari vinnu, enda hafi það þá ekki endilega í önnur hús að venda: „Þó þau kannski vilji hætta þá er bara mikið batterí í kring. Þau kannski búa einhvers staðar sem kallar á einhverja mönnun.“ Þá sé fólki almennt mikilvægt að vakna á morgnana, hafa rútinu, mæta í vinnu og hafa eitthvað fyrir stafni. „Fyrir mér er þetta það mikilvægasta í lífinu,“ sagði hún, „að hafa vinnu og hafa eitthvert að fara.“

„Getur hann farið úr aðstæðunum sjálfviljugur?“

Það eru þannig ekki aðeins launakjörin sem virðist mega jafna við nauðungarvinnu heldur um leið hitt að einhverjir í hópi fyrrnefndra 160 skjólstæðinga styrktarfélagsins gætu ekki auðveldlega hætt störfum.

Á Íslandi hafa á undanförnum árum komið upp nokkur mál þar sem grunur hefur leikið á um þrælahald, nauðungarvinnu og/eða mansal. Oftast hefur þar verið um erlent starfsfólk að ræða. Árið 2016 var tekið til rannsóknar mál tveggja erlendra kvenna sem talið var að hefði verið haldið í þrælkun á saumastofu í Vík í Mýrdal. Saksóknari mat það þó sem svo að þar sem konurnar hefðu fengið fæði og húsnæði væri þar ekki um mansal að ræða. Fréttastofa RÚV spurði þá Snorra Birgisson lögreglufulltrúa hvar þau mörk lægju, hvenær rétt sé að tala um mansal og þrælkun. Snorri svaraði: „Nauðungarvinna er í raun ekki skilgreind nægilega hér á Íslandi að okkar mati. Hvað telst til nauðungarvinnu í raun og veru? Er það tólf tíma vinnustund án launa? Eru það fjórtán tímar? Eru það sextán tímar?“ Hann sagði þó eitt lykilatriði vera þá spurningu hvort einstaklingurinn sem ætti í hlut kæmist úr aðstæðunum ef hann vildi: „Getur hann farið úr aðstæðunum sjálfviljugur eða ekki? Er hann beittur hótunum, líkamlegum eða andlegum hótunum, þess efnis að hann komist beinlínis ekki út úr aðstæðunum?“ Í fréttinni er einnig haft eftir Snorra að það sé „óumdeilt“ að á Íslandi séu þrælar. Hann lét þann sögulega fróðleik fylgja að „nauðungarvinna eða þrælahald er ekki eitthvað nýtt, þetta hefur verið til staðar frá örófi alda.“

Engin íslensk lög gegn þrælahaldi

En þrælahald er þó væntanlega ólöglegt? Var ekki séð til þess víðast hvar á síðustu öldum? Víðast hvar jú. En á Íslandi eru engin lög sem banna þrælahald. Ekki, að minnsta kosti, að frumkvæði heimamanna, ekki í svo mörgum orðum. Mannréttindasáttmáli Evrópu var þó lögfestur hér árið 1994 og þar má finna skilyrðislaust bann við þrældómi: „Engum manni skal haldið í þrældómi eða þrælkun“ segir þar. Ekki virðist enn hafa reynt á þessa lagagrein fyrir dómstóli, né hefur ákvæðið verið útfært nánar, með skilgreiningum sem nægja myndu til sakfellingar, eins og lögreglufulltrúinn benti á hér að framan. Í landinu eru ekki heldur lög um lágmarkslaun, aðeins lagagrein sem segir að þau skuli ákveðin með kjarasamningum milli aðila vinnumarkaðarins. Utan kjarasamninga eru laun því í frjálsu falli. Og þrælahald ekki alfarið ólöglegt.

Nokkrum sinnum hefur verið vakin athygli á þessari undarlegu stöðu, að á landinu hafi ekki verið sett lög til að banna þrælahald eða nauðungarvinnu. Víða hefur þá verið vísað til greinar Gunnars heitins Karlssonar, prófessors í sagnfræði við HÍ, á Vísindavefnum, þar sem segir einfaldlega: „Þrælahald var aldrei bannað á Íslandi.“ Ári eftir að Mannréttindasáttmáli Evrópu var lögfestur voru gerðar breytingar á stjórnarskránni til að uppfylla viðmið sáttmálans og innleiða í stjórnarskrá ákvæði um mannréttindi. Mannréttindaskrifstofa Íslands hefur bent á að við þessa endurskoðun stjórnarskrárinnar hafi ekki þótt „ástæða til að banna þrælahald sérstaklega“. Við það tilefni var bætt við stjórnarskrána ákvæði um nauðungarvinnu: „Nauðungarvinnu skal engum gert að leysa af hendi.“ Mannréttindaskrifstofan segir eftir sem áður „athyglivert að ekki er kveðið á um bann við þrældómi og þrælkun í íslensku stjórnarskránni“.

Hvort vinnan á Ási telst þrælahald væri … afleiðingalaust

Árið 2020 skrifaði Sighvatur Björgvinsson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra, grein í Kjarnann, þar sem hann manar íbúa landsins til að banna þrælahald með lögum: „Íslend­ingar eru lík­lega eina sið­mennt­aða vest­ræna þjóð­in, sem ekki hefur séð ástæðu til þess að banna þræla­hald. Er ekki kom­inn tími til þess að afnema þá sér­stöðu.“

Sem stendur virðist staðan vera sú að það væri lögfræðilegt álitamál hvort það telst til þrælahalds að fatlað fólk sinni framleiðslustörfum fyrir 120 krónur á tímann. En svarið við þeirri spurningu væri hugsanlega afleiðingalaust, þar sem viðurlög við þrælahaldi er ekki að finna í íslenskum lögum.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí