Möguleg bylting er í aðsigi í skilningi okkar á alheiminum, en niðurstöður rannsókna eðlisfræðinga við Fermilab í Bandaríkjunum gefa sterklega til kynna að til sé fimmti grunnkrafturinn
Samkvæmt núverandi skilningi okkar á alheiminum þá eru til fjórir grunnkraftar: þyngdaraflið, rafsegulkraftur, veiki kjarnakrafturinn og sterki kjarnakrafturinn.
Fyrsti grunnkrafturinn var uppgötvaður og útskýrður árið 1687 af Isaac Newton. Rafsegulkrafturinn, sem sami krafturinn, var fyrst útskýrður árið 1820 af danska vísindamanninum Hans Christian Ørsted, en fram að uppgötvun hans var litið svo á að rafmagn og segulkraftur væri tvö ólík fyrirbæri. Eðlisfræðingurinn Enrico Fermi á heiðurinn á að hafa fyrst útskýrt veika kjarnakraftinn, árið 1933, og japanski eðlisfræðingurinn Hideki Yukawa uppgötvaði sterka kjarnakraftinn árið 1935.
Tekið skal fram að allar þessar uppgötvanir, ekki síst síðustu tvær eru þó byggðar á rannsóknum margra annarra vísindamanna, og því ekki hægt að gefa einum manni heiðurinn af uppgötvuninni. Skilningur okkar á síðustu tveimur grunnkröftunum kemur í kjölfar mikilla rannsókna á vegum þess sem kallað er skammtafræði, en sú undirgrein eðlisfræðinnar varð til við upphaf 20.aldarinnar og snýr að rannsóknum á öreindum – því smæsta sem fyrirfinnst í alheiminum. Þær rannsóknir leiddu auðvitað meðal annars til þróun kjarnorkusprengjunnar.
Eðlisfræðingar hafa þó átt í sífellt meiri vandræðum með að láta niðurstöður rannsókna þeirra koma heim og saman við einungis fjóra grunnkrafta – en þar er það einkum skilningur okkar á þyngdaraflinu sem hefur valdið þeim miklum heilabrotum.
Sumir eðlisfræðingar hafa því reitt fram þá tilgátu að til sé fimmti grunnkrafturinn, og sú tilgáta fékk mikinn byr undir báða vængi nú eftir að eðlisfræðingar við Fermilab í Chicago í Bandaríkjunum tilkynntu niðurstöður rannsókna sinna á því hvernig öreindir að nafni mýeindir hegða sér í segulsviði.
Í sem stystu máli, þá hegða þær sér ekki í samræmi við núverandi heimsmynd eðlisfræðinga, og því rennur það sterkum stoðum undir að um áður óþekktan fimmta grunnkraft sé að ræða.
Þetta er einungis nýjasta tilraunin sem styrkir tilgátuna um fimmta grunnkraftinn, en Fermilab hafði áður tilkynnt um svipaðar niðurstöður úr rannsóknum sínum árið 2021. Þar fyrir utan þá hafa rannsóknir sem framkvæmdar hafa verið af Stóra sterkeindahraðlinum í CERN gefið til kynna svipaðar niðurstöður, en þær rannsóknir voru einnig á mýeindum.
Ekki er hægt að slá neinu á fast ennþá, en sönnunargögnin um að núverandi skilningur okkar á heiminum sé ófullnægjandi hrannast þó upp í sífellt meiri mæli. Uppgötvun fimmta grunnkraftarins yrði ekkert minna en bylting í þeim skilningi.