Aðeins einn ráðherra mætti á sögulegan fund um mannúðarkrísu fólks án skilríkja

Opinn fundur 23ja mannúðarsamtaka og trúfélaga, hófst í húsi Hjálpræðishersins klukkan 17 í dag, miðvikudag. Óhætt er að segja að fjölmennt hafi verið á fundinum, en þangað hélt fólk áfram að streyma þrátt fyrir húsfylli, eftir að hann hófst. Fulltrúum ríkisstjórnarinnar var boðið á fundinn, enda beinist gagnrýni samtakanna að stjórnvöldum. Aðeins einn ráðherra virðist þó hafa séð sér fært að mæta, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumálaráðherra.

Þau félög og aðilar sem standa að baki fundinum, ásamt yfirlýsingu og áskorun til stjórnvalda vegna málsins, ná frá Biskupi Íslands, Hjálparstarfi kirkjunnar Barnaheill og Amnesty International til Rétts barna á flótta, Solaris, Stígamóta og samtakanna No Borders. Fjölmennt er á fundinum.

Sögulegur fundur, segir Drífa Snædal

Drífa Snædal, talskona Stígamóta, tók fyrst til máls. Hún sagði fundinn vera sögulega stund, enda hefði það líklega ekki áður gerst að þau 23 samtök sem að honum standa tækju saman með þessum hætti.

Drífa Snædal, talskona Stígamóta, setur fundinn. Félags- og vinnumálaráðherra situr í fremstu röð, lengst til vinstri.

Næstur tók til máls Jón Sigurðsson, formaður Félags talsmanna umsækjenda um alþjóðlega vernd. Jón sagði stöðuna sem upp er komin vera eina af fyrirsjáanlegum afleiðingum breytinganna sem Alþingi samþykkti á Útlendingalögum síðastliðið vor, án þess að tryggja réttindi fólksins sem um ræðir. Hann sagði dómsmálaráðherra nú tala um „búsetuúrræði“ sem hún segði sjálf að nefndist á ensku „detention centre“ án þess að virðast tilbúin til að horfast í augu við eða gangast við því fullum fetum hvað væri þar um að ræða. Hann minnti á að skv. 77. grein Stjórnarskrárinnar beri að tryggja með lögum rétt þess fólks sem leitar sér aðstoðar vegna örbirgðar eða sambærilegra aðstæðna. „Hvað ætla yfirvöld að gera,“ spurði Jón, „ef sú staða kemur upp að verulega stór hópur fólks fær lokasynjun?“ Hann sagði það vel geta gerst á næstu vikum. Er þá hugmyndin, spurði hann, að mörg hundruð einstaklinga verði hér heimilislaus?

Jón Sigurðsson, formaður Félags talsmanna umsækjenda um alþjóðlega vernd.

Samtökin bera fram hvassa gagnrýni og spurningar

Þá tók til máls Hjördís Kristinsdóttir frá Hjálpræðishernum. Hún sagði brýna þörf á að þjóðir sem geta taki saman til að mæta þörfum fólks á flótta og spurði hvernig íslensk stjórnvöld hyggist standa vörð um það fólk sem hér hefur leitað verndar.

Nína Helgadóttir flutti næstu tölu, fyrir hönd Rauða krossins, og spurði hvaða lausnir væru í sjónmáli í málefnum flóttafólks.

Fyrir hönd No Borders steig Elí Hörpu Önundar í pontu og flutti ræðu sem rituð var af umsækjanda um alþjóðlega vernd. Höfundur ræðunnar vildi að sögn Elí ekki flytja ræðuna sjálfur, af ótta við að þar með lenti hann í sigti Útlendingastofnunar. Í ræðunni sem hán flutti fyrir hans hönd sagði hann framkomu stjórnvalda í garð þess hóps sem ný ákvæði laganna beinast að ómannúðlega og grimmilega.

Albert Björn Lúðvígsson kom fram fyrir hönd Amnesty International og sagði Íslandsdeild samtakanna harma þá fyrirsjáanlegu stöðu sem komin er upp. Hann sagði meðferð yfirvalda á umsækjendum um alþjóðlega vernd jafnast á við refsingu.

Fundargestir fylltu sal Hjálpræðishersins ríflega.

Næstur tók til máls séra Toshiki Toma, prestur innflytjenda í Þjóðkirkjunni, og sagði nýbreytt lög ekki í samræmi við gildi um virði fólks og mannréttindi.

Ellen Calmon frá Kvenréttindafélagi Íslands greindi frá stöðu kvenna á flótta eftir lagabreytinguna, sem orðið hafa fyrir mansali og kynferðisofbeldi. Hún sagði stefnu stjórnvalda í málum þeirra nú ekki í miklu samræmi við þá hugmynd sem haldið er á lofti um kynjajafnrétti á Íslandi.

Fyrir hönd Hjálparstarfs kirkjunnar tók til máls Sólveig, félagsráðgjafi. Hún sagði að konum úr hópi umsækjenda um alþjóðlega vernd þætti þeim mismunað í ferlinu. Löng og erfið bið eftir niðurstöðu hafi iðulega leitt til veikinda meðal þeirra.

Síðust fyrir hönd baráttuhópanna tók til máls Morgane Priet-Mahéo, á vegum samtakanna Réttur barna á flótta. Hún spurði hvenær mætti vænta þess að stjórnvöld fylgi Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem þegar hefur verið lögfestur, þegar kemur að málefnum barna á flótta.

Fjölmennt var á fundinum og virtust helstu fjölmiðlar allir viðstaddir.

Viðbrögð ráðherra

Eftir að fulltrúar félagasamtakanna luku erindum sínum tók Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumálaráðherra til máls. Hann sagði þetta samtal vera mikilvægt. Sér þætti óásættanlegt að fólk sem hefur verið synjað um vernd skuli „enda á þeim stað að hafa ekki húsaskjól og ekki mat“.

Þó virtist ráðherrann taka undir orðfæri annarra stjórnarliða og ekki fallast á að í þeim hópi sem um ræðir væri nokkur beinlínis nauðstaddur, ef ráða má af orðum hans er hann talaði um fólk er „lokið hefur þessum 30 dögum og kýs ekki að vinna með stjórnvöldum til að komast til síns heima“. Fram hefur komið í máli fjölda þeirra sem best þekkja til á sviðinu, að meðal hinna réttindasviptu er fólk sem er í besta falli blekkjandi að segja að kjósi að vinna ekki með stjórnvöldum í þessu samhengi.

Dómsmálaráðherra þáði ekki boð á fundinn, enda hefur hún ekki sýnt vilja til að hlýða á tal um hag eða réttindi þeirra hópa sem krísan varðar. Þá mætti forsætisráðherra ekki til fundarins. Hún sagði í nýlegu viðtali við Heimildina að hún hafi aldrei verið „í No Borders-liðinu“.

Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, mætti hins vegar á fundinn og tók til máls áður en honum lauk. Málflutningur hennar þótti kunnuglegur en hún hefur víða komið fram nýverið, breyttum Útlendingalögum til varnar.

Fundurinn stóð í tæpan einn og hálfan tíma og var slitið um klukkan 18:30.

24.8.2023: Fréttin hefur verið leiðrétt en rangt var farið með nafn talsmanns Íslandsdeildar Amnesty International á fundinum.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí