Heimildin birti á þriðjudag hluta úr viðtali við Katrínu Jakobsdóttir forsætisráðherra um stöðu flóttafólks og hælisleitenda á landinu, þá ekki síst þess skilríkjalausa fólks sem lagabreytingar síðasta þings krefja stjórnvöld um að svipta viðurværi og réttindum, óháð því hvort þeim er kleift að komast frá landinu.
„Ég held við getum gert hlutina vel,“ segir Katrín í viðtalinu. Síðan gerir hún því skóna að ótilgreindur fjöldi vinstrimanna vilji ekki hafa „kerfi í kringum það hver fái vernd“ og „annað kerfi um þau sem koma hingað að vinna“. Það er því samhengi sem hún bætir við: „Þannig að ég er ekki í No Borders-liðinu og hef aldrei verið.“
Samtökin No Borders voru fyrst til að vekja athygli á stöðu hælisleitenda á landinu, árið 2008. Á tuttugu ára tímabili fram að því, frá 1988 til 2008, hafði alls einn umsækjandi um vernd fengið stöðu flóttamanns á Íslandi.
23 mannúðarsamtök í No Borders-liðinu
Um síðustu helgi létu 23 félagasamtök, hjálparsamtök og trúfélög, frá sér sameiginlega yfirlýsingu til að mótmæla réttindasviptingu skilríkjalausra hópa á landinu og þeirri mannúðarkrísu sem nýtt fyrirkomulag á sviðinu veldur. Í tilkynningunni lýstu samtökin „þungum áhyggjum af mjög alvarlegri stöðu sem komin er upp“, enda væru „afdrif … öryggi og mannleg reisn“ þess hóps sem um ræðir í hættu. Samtökin 23 sögðust „harma að ekki skuli hafa verið tekið tillit til ítrekaðra varnaðarorða varðandi afleiðingar nýrra lagaákvæða, enda leiki „mikill vafi á að framkvæmdin standist þær mannréttindaskuldbindingar sem íslensk stjórnvöld hafa undirgengist.“ Þá segja þau að margt sem ráðamenn hafi sagt í umræðunni sé „villandi, óljóst og byggir á skorti á upplýsingum um raunverulega stöðu fólksins,“ og skora á yfirvöld að „tryggja öryggi þessa hóps, mannréttindi og grunnaðstoð með virku samráði við hjálpar- og mannréttindasamtök“.
Yfirlýsinguna í heild má lesa á vef Þjóðkirkjunnar, en hópurinn að baki yfirlýsingunni nær allt frá Biskupi Íslands, Hjálparstarfi kirkjunnar Barnaheill og Amnesty International til Rétts barna á flótta, Solaris, Stígamóta og samtakanna No Borders. Með öðrum orðum er ljóst að í því samhengi sem nú er til umræðu er jafnvel biskup Íslands ófeiminn við að standa í No Borders-liðinu sem forsætisráðherra virðist þykja brýnna að fjarlægja sig frá.
„Ekkert skrýtið að umræða um útlendingamál harðni“
Í viðtalinu segir Katrín ekki skrítið að umræða um útlendingamál harðni, í ljósi aukins fjölda innflytjenda. „Við getum búist við því hér á landi eins og alls staðar annars staðar“. Þá virðist hún leggja að jöfnu þá hópa sem berjast fyrir réttindum útlendinga og þá sem berjast gegn þeim, þegar hún segist hafa verið „gagnrýnd fyrir af mörgum“ fyrir það sem hún vilji standa fyrir í pólitík, „sem er að vera ekki í þessum djúpu skotgröfum heldur að reyna að tækla málin eins og þau eru.“ Skáletrun blaðamanns. Í viðtalinu kemur þó ekki nánar fram hvernig málin eru.
Aðspurð hvort ríkisstjórnina skorti mannúð í þessu samhengi segir ráðherrann: „Mannúðin, já, en líka praktíkin. Af því að við getum ekki bara verið góð án þess að ræða hvernig við ætlum að vera það. Mér finnst stundum vanta að við ræðum hvernig við ætlum að styðja við skólana okkar, hvernig við ætlum að styðja við fólkið okkar, þannig að það geti tekist á við þessar breytingar, sem eru ofboðslega miklar á mjög skömmum tíma.“
„Flokkarnir hafa ólíka sýn á þessi mál“
Katrín er loks spurð hvort hún hafi áhyggjur af málflutningi þeirra Sjálfstæðismanna sem gengið hafa harðast fram í að ala á útlendingaótta. Blaðamaður nefnir þau ummæli Ásmundar Friðrikssonar að „ástandið á Suðurnesjum“ væri að verða „ógnvænlegt og óbærilegt vegna fjölda hælisleitenda, hræðslu og ógnandi umhverfis … Til dæmis í götu sem ég bý rétt hjá, þar koma hópar karlmanna dökkir á brá og brún og ganga þar um og það hræðir fólk. … Í verslunarmiðstöðinni sitja hópar karla líka og mæna á kvenfólk.“ Í því samhengi tekur ráðherrann ekki jafn djúpt í árinni og þegar hún gat þess að fyrra bragði að hún hefði aldrei verið í No Borders-liðinu. Andspænis útlendingastyggð innan samstarfsflokks hennar lætur forsætisráðherra nægja að segja: „Já, flokkarnir hafa ólíka sýn á þessi mál. Það er bara þannig.“
Þegar blaðamaður spyr hvort stjórnarflokkarnir muni komast að samkomulagi um hvernig beri að nálgast málaflokkinn í heild sinni svarar Katrín því einu til, efnislega, að það sé „risamál“ og það skipti máli hvernig tekist er á við það:
„Já, það er mjög stórt og því miður finnst mér það hafa lent í alltof miklum skotgröfum. Við stefnum í umræðu sem er sambærileg mjög víða annars staðar á Norðurlöndum og í Evrópu. Ég bara segi, þetta er risamál og það skiptir öllu máli hvernig við tökumst á við það. Það er sá tónn sem ég vil slá í þessari umræðu.“
Mannúðarsamtökin 23 funda með fulltrúum ríkisstjórnarinnar um aðsteðjandi mannúðarkrísu klukkan 17 í dag, miðvikudag.