Flokksráðsþing Sjálfstæðisflokks fagnar „einföldum boðskap“ í útlendingamálum með dynjandi lófataki

Í annars heldur rólyndislegri setningarræðu Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra við upphaf flokksráðsþings Sjálfstæðisflokksins í dag, laugardag, talaði hann af nokkrum hita og með ýktu handapati þegar hann vék talinu að málaflokki hælisleitenda og þeirri mannúðarkrísu sem breytingar síðasta þings á Útlendingalögum hafa leitt til.

„Yfir í allt aðra, myrkari sálma,“ sagði hann í upphafi þess hluta ræðunnar. „Ég sé það í fréttum síðustu daga að þingmaðurinn Helga Vala, hún er mjög óánægð með dómsmálaráðherrann okkar. Það eru mikil meðmæli,“ sagði hann svo. Þá var fyrst hlegið í salnum. Síðan klappað.

„Já, það er nú þannig,“ hélt ráðherrann áfram, „að það eru margir sem eru háværir og fyrirferðarmiklir í fjölmiðlum, taka dálítið sviðið, oft með vondan málstað, eins og þarna á við. Þeir sjá enga þörf fyrir umbætur í útlendingamálum. Og þegar ég tala um útlendingamál í þessu sambandi, við skulum hafa það á hreinu, ég er að tala sérstaklega um hælisleitendamálin.

Þeir sjá enga þörf fyrir það að lögin séu virt. Markmið um að hafa stjórn á landamærunum og reglu á því hverjir ávinna sér rétt til búsetu á Íslandi og þjónustu á Íslandi, þetta er ekki regla sem þeir leggja mikið upp úr að virða, sem tala svona.“

Lét ráðherrann þannig að því liggja að það að gagnrýna lög sem flokkur hans ber ábyrgð á að voru sett til að byrja með, í ljósi fyrirséðra afleiðinga þeirra, feli í sér að vera andsúinn lögum yfirleitt.

Að gera flókin mál einföld – og klappa

„Þegar við höfum fylgt löngu og alltof kostnaðarsömu ferli til að meta umsóknir um vernd á Íslandi, og niðurstaðan er neitun, nú þá er það bara niðurstaðan hjá þér. Og þá niðurstöðu ber að virða. Það eru lögin. Þetta er ekki flóknara.“

Öllum sem þekkja til á sviðinu ber saman um að málið sé einmitt flóknara, að því leyti að meðal þeirra sem er synjað um vernd er fólk sem er ekki hægt að brottvísa og á í engin örugg hús að venda. En í hinum einfalda hugarheimi sem ráðherrann annað hvort býr við sjálfur eða er aðeins umhugað um að boða öðrum, er ekkert ósagt um málið, ekkert ógert nema að klappa. Hann sagði:

„Ég ætla nú bara að leggja það til að við hér sýnum þakklæti okkar og stuðning í verki við þá tvo dómsmálaráðherra sem hafa starfað á þessu kjörtímabili fyrir Sjálfstæðisflokkinn, í þessum málaflokki, Jón Gunnarsson og Guðrúnu Hafsteinsdóttur, sem nú er nýtekin við. Við stöndum með ykkur í þessum baráttumálum og munum sýna það hér almennilega í verki. Takk fyrir ykkar störf.“

Fulltrúar flokksráðsþings klappa – flestir – fyrir mannúðarkrísunni sem nýbreytt útlendingalög hafa valdið.

Að því sögðu tók við dynjandi lófatak í salnum. Og þó mátti ljóslega sjá á streymi frá þessari sérkennilegu samkomu að einhverjir í salnum sátu hjá, tóku ekki þátt í þeim vanstilltu fagnaðarlátum.

„Ég heyri ykkur stundum tala um það á fundum að það eina sem þurfi að gera er að vera skýr,“ sagði Bjarni þegar látunum linnti. „Tala hreint út. Segja það sem maður meinar og meina það sem maður segir. Og ef maður bara gefst ekki upp á þessu, þá munum við ná í gegn. Ég held að þetta sé nú kannski eitt helsta dæmið, nýlega, sem við höfum um það. Að jafnvel þótt að á móti blási og fjölmiðlar séu okkur andsnúnir, og andstæðingarnir reyni að snúa út úr hverju orði sem sagt er. Ef menn bara gefast ekki upp á að flytja einfaldan boðskap þá kemst hann til skila. Og við finnum það öll að þjóðin er með okkur í því sem við erum að vinna að í þessum málaflokki.“

Síðar á flokksráðsþinginu tók utanríkisráðherra í sama streng, við hliðstæðar undirtektir.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí