Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttur ávarpaði flokksráðsþing Sjálfstæðisflokksins síðdegis á laugardag. Hún færði þinginu góðar fréttir, hún sagðist vera stolt og Sjálfstæðismenn ættu að vera stoltir, þau væru „félagsskapur fólks sem ákveður að standa saman til að láta gott af sér leiða fyrir samfélagið sitt“. Helsti efnahagsvandi landsins sagði hún að væri helst til of mikill hagvöxtur, umgjörð nýsköpunar á landinu væri líklega sú besta í heimi, og svo framvegis.
Þá vék hún tali sínu að útlendingamálum. Með augljósri skírskotun til þeirrar mannúðarkrísu sem nýbreytt Útlendingalög hafa leitt af sér og fjöldi mannúðarsamtaka krefst nú viðbragða við sagði hún málaflokkinn í góðum höndum og loks á réttri leið: Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra hefur, sagði hún, „allan þingflokkinn og allan Sjálfstæðisflokkin á bakvið sig.“
Svona hljómaði sá hluti ræðunnar:
„Guðrún Hafsteinsdóttir hefur allan þingflokkinn og allan Sjálfstæðisflokkinn á bakvið sig“
„En kæru vinir, Ísland leysir ekki vanda heimsins. Við stöndum okkar pligt, en lengra nær það ekki. Og það er einfaldlega firra að halda öðru fram. Það er nefnilega hluti af því að vera ábyrgt stjórnmálaafl að gæta að eðlilegu jafnvægi og standa vörð um þá stefnu að lög og réttur gildi líka í viðkvæmum málaflokkum. Síðustu misseri hafa dómsmálaráðherrar úr okkar röðum, síðast Jón Gunnarsson og nú Guðrún Hafsteinsdóttir, staðið í stafni og tekið mikilvæg, nauðsynleg, skynsamleg og ábyrg skref í erfiðum málefnum hælisleitenda. Og í þeim málaflokki hefur lengi stefnt í óefni. Og við höfum varað við nákvæmlega því. Nú verður einfaldlega ekki hjá því komist að taka erfiðar en ábyrgar ákvarðanir. Og þessar ákvarðanir hafa verið pólitískt vandasamar og valdið hvassviðri. Við höfum hópa á báðum köntum sem vilja frekar gera sér mat úr vandamálinu en að leysa það. Ég hafna slíkri nálgun algjörlega. Sjálfstæðisflokkurinn er flokkur ábyrgs fólks. Og ábyrgt fólk leggur sig fram um að leysa vandamál en reynir ekki að gera sér mat úr þeim. Og það er algjörlega skýrt og ég hefði getað sleppt þessari setningu úr ræðunni eftir viðbrögðin áðan. Að Guðrún Hafsteinsdóttir hefur allan þingflokkinn og allan Sjálfstæðisflokkinn á bakvið sig í sínum störfum.“
Við þessu uppskar ráðherrann dynjandi lófaklapp. Þó mátti sjá á streymi frá þinginu ein og ein manneskja kaus heldur að fletta í símanum sínum en taka undir þær drunur.
Fjármálaráðherra hlaut fyrr um daginn ekki síðri viðtökur þegar hann bar lof á dómsmálaráðherra flokksins og hvatti flokksmeðlimi til að halda til streitu „einföldum boðskap“ í málaflokknum.