„Uppgjör boða bjartari tíma í háloftunum“ er fyrirsögn fréttar sem RÚV flutti á laugardagskvöld, þar sem segir frá batnandi afkomu flugfélaganna, eftir þá lægð sem varð í alþjóðasamgöngum á meðan ríki heims héldu heimsfaraldrinum í skefjum með sóttvörnum. Samkvæmt fréttinni sýna bæði Icelandair og Play nú mikinn viðsnúning, Icelandair skilaði 1,9 milljarða hagnaði á öðrum ársfjórðungi þessa árs, á meðan yngra flugfélagið Play skilaði umtalsvert minna tapi en fyrir ári síðan. Í fréttinni var haft eftir forstjóra Play að félagið væri „hætt að brenna peningum“. Fréttamaður endurtekur þetta orðalag í fréttinni: „Flugfélög um allan heim brenndu peningum í faraldrinum og Icelandair er þar engin undantekning.“
Þetta er forvitnilegt orðalag, sumarið sem yfirstandandi hnatthlýnun virðist virkilega tekin að brenna, og stærsta sameiginlega áskorun mannkyns er sögð vera sú að draga úr notkun jarðefnaeldsneyta, sem flugsamgöngur reiða sig á. Það er ekki bara á Íslandi sem ferðaiðnaðurinn hefur náð sér aftur á strik, eins og fram kemur í fréttinni, heldur um allan heim. Í meðfylgjandi línuriti frá gagnaveitunni Our World in Data má sjá hina hliðina á þeim viðsnúningi: losun koltvísýrings vegna flugsamgangna frá janúar 2019 til mars 2023. Á línuritinu má sjá hvernig sú losun nánast stöðvaðist þegar heimsfaraldurinn skall á, en hófst síðan að nýju, hægt og bítandi. Á fyrsta ársfjórðungi þessa árs var hún enn ekki að fullu leyti komin í fyrra horf, en þó á góðri leið.
Hlutdeild flugsamgangna í útblæstri koltvísýrings er metin á bilinu 2–3,5% af heildarlosun mannlegra athafna. Varanlegur samdráttur á við þann sem varð þegar sóttvarnir stóðu hæst fæli í sér afar veigamikið framlag til loftslagsaðgerða.
Þannig birtist í jákvæðu fréttinni um afkomu flugfyrirtækjanna, andspænis þessari skuggahlið á sömu þróun, sú mótsögn sem allar fyrirhugaðar aðgerðir í þágu loftslagsins standa nú frammi fyrir: hvert og eitt ríki, hvert samfélag, hver hluthafi, fagnar dag frá degi góðri afkomu alls þess reksturs sem reiðir sig á útblástur koltvísýrings, á milli þess sem fulltrúar þeirra mætast á ráðstefnum og ræða mikilvægi þess að einmitt slíkur rekstur dragist saman, sem mest og sem hraðast.