Í Bandaríkjunum hefur stórum fyrirtækjum reynst erfitt að fá starfsfólk til að snúa aftur á skrifstofurnar eftir að það vandist því að vinna heima hjá sér þegar heimsfaraldurinn stóð sem hæst. Fyrir því hafa verið tilgreindar margar ástæður, allt frá tímanum sem tekur að ferðast til og frá vinnu, hentugri starfsaðstæðum og þeim áhyggjum sem sumir hafa enn af því að smitast eða endursmitast af veirunni, sem í sumum tilfellum dregur langan dilk á eftir sér.
Til að bregðast við fyrstu ástæðunni, tímanum sem ferðalögin taka, hefur Google tekið upp þau nýmæli að bjóða starfsfólki hótelgistingu í grennd við vinnustað sinn, fyrir 99 dali nóttina, eða um 13.000 krónur íslenskar. Boðinu er sagt ætlað að hjálpa starfsfólki að „snúa aftur í blandaðar vinnustöðvar“ – það er blandaðar milli heimilis og skrifstofu, þar sem margir taka alls ekki í mál að vinna að öllu leyti á skrifstofunni eftir reynslu síðustu ára.
Í umfjöllun Engadget um málið kemur fram að vegna staðsetningar gistirýmanna nýtist þessi möguleiki í raun aðeins starfsfólki í tilteknu húsnæði fyrirtækisins, „kampusnum“ Bay View, sem opnaði árið 2022.
Sama ár tók fyrirtækið upp þau nýmæli að krefja starfsfólk um að verja minnst þremur dögum á viku á skrifstofunni. Þrátt fyrir andmæli starfsmanna, sem sögðust skilvirkari við eigin vinnuaðstöðu, heima fyrir, hélt Google þessari kröfu til streitu og tekur nú viðveru á skrifstofunni með í reikninginn þegar farið er yfir frammistöðu starfsmanna.
Þó að sá möguleiki að verja nóttinni í grennd við skrifstofurnar sé lagður fram sem boð þykir mörgum það heldur kaldranalegt: að greiða viðbótarleigu fyrir að búa að hluta til á vinnustaðnum, eða svo gott sem.