Veðurstofa Spánar (AEMET) gaf fyrir liðna helgi út rauða viðvörun vegna hitabylgju á Kanaríeyjunum Fuerteventura, Lanzarote og hluta af La Palma þar sem spáð var hita yfir 40 gráðum að degi til og 30 gráða næturhita. Heilbrigðisráð Kanaríeyja gaf út viðvaranir um hættu sem hitanum fylgir fyrir heilsufar. Þá varaði embætti sóttvarnalæknis á Írlandi ferðalanga við hitabylgju á eyjunum: búast mætti við mikilli svifriksmengun frá Sahara-eyðimörkinni ásamt öfgafullu hitastigi.
Það stóð heima, í þorpinu La Aldea de San Nicolás á eynni Gran Canaria mældist lofthiti 41,9 gráður klukkan níu á föstudagsmorgun. Þar reis hitinn enn í 44,8 gráður um hádegisbil. Hæsta staðfesta hitatalan á eyjunum þessa helgi var 45,1 gráða, óstaðfestar eru tölur allt að 46,6 gráðum.
Um miðjan dag fundu neyðarliðar eyjanna 36 ára gamlan karlmann liggjandi óvarinn fyrir sól í þorpinu San Bartolome de Tirajana. Gerð var tilraun til endurlífgunar með hjartahnoði sem dugði ekki til, maðurinn var látinn. Canarian Weekly greindi frá.
Á sunnudag tilkynntu neyðarliðar um andlát tveggja kvenna, sem hafði borið að þegar þær reyndu að iðka íþróttir í hitanum. Önnur konan, breskur ferðalangur, lést í Fuertaventura. Hún hafði verið á hlaupum og fannst lík hennar við malarslóða nálægt Morro Jable, sunnarlega á eynni. Hún var tæplega fertug. Hin konan er sögð hafa verið hollensk, um fimmtugt. Hún varð fyrir yfirliði á göngu í Guía de Isora, sunnarlega á Tenerife, þar sem veðurviðvörun var í gildi. Þyrla var send á vettvang og færði konuna um borð í sjúkrabíl, þar sem björgunaraðgerðir voru reyndar en tókust ekki. Canarian Weekly greindi frá andlátunum.
Hitamet hafa verið slegin um víða veröld þetta sumar, en júlímánuður var heitasti mánuður sem mælst hefur. Meginþorri sérfræðinga í loftslagsmálum er á einu máli um að undirliggjandi orsök, það sem geri svona frávik líklegri en þau annars væru, sé yfirstandandi hnatthlýnun af mannavöldum.