Stjórnvöld skima ekki lengur fyrir Covid-19 í samfélaginu eins og tíðkaðist þegar sóttvarnir stóðu hæst. Gögn um útbreiðslu smita eru því ekki aðgengileg. Vísbending um fjölgun smita birtist hins vegar í því hvert hlutfall jákvæðra greininga er af þeim sýnum sem þó berast gögn um, innan heilbrigðiskerfisins. Á þessu ári fækkaði hlutfalli jákvæðra sýna úr tæpum 30 prósentum í byrjun árs niður undir 10 prósent um mitt sumar, en hefur hækkað á ný og sveiflast nú milil 15 og 20 prósent.
Þetta er í samræmi við þróun annarra landa, bæði í Evrópu og Ameríku, eins og vænta má þegar landamæri standa opin ferðamönnum.
Áhættuhópar skuli sýna varkárni
Í liðinni viku beindi blaðamaður fyrirspurn til embættis Sóttvarnalæknis um hvernig megi nú gæta að öryggi viðkvæmra hópa, þegar sameiginlegar sóttvarnir hafa verið felldar niður. Sóttvarnalæknir svaraði með tilvísun á leiðbeiningar sem gefnar voru út sumarið 2022. Þar er einstaklingum í áhættuhópum ráðlagt að sýna varkárni.
Meðal áhættuhópa eru þar sagðir aldraðir, barnshafandi konur, fólk með fíknsjúkdóma, geðraskanir, hjartasjúkdóma, krabbamein, langvinna lifrarsjúkdóma, langvinna lungnasjúkdóma, langvinna vöðva- og taugasjúkdóma, offitu, ónæmisbælingu, gigtar- og sjálfsónæmissjúkdóma, líffæraþegar, fólk með meðfædda ónæmisgalla, skerta nýrnastarfsemi eða sykursýki, ásamt börnum með langvinna lungnasjúkdóma, alvarlega hjartasjúkdóma, eða langvinna taugasjúkdóma.
Ofantaldir eru hvattir til að sýna varkárni, sem fyrr segir, án þess að forðast samneyti við annað fólk, viðhafa smitvarnir „sem felast í að viðhafa 1 metra nándarmörk og forðast fjölmenni eins og kostur er“. Þá er sagt að andlitsgrímur eigi við „í ákveðnum kringumstæðum“ og „tíður og góður handþvottur/handsprittun“ eigi alltaf við. Loks er þeim sem umgangast einstaklinga í áhættuhópum bent á sömu atriði og áhersla lögð á að „þeir haldi sig fjarri þeim ef þeir hafa einkenni sjúkdóms eða greinast með COVID-19.“