Hvalveiðar hefjast á ný: „Maður er ekki ráðherra til að fá útrás fyrir sína villtustu drauma“

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra setur í dag nýja reglugerð til að „bæta umgjörð veiða á langreyðum“. Þetta kom fram í fréttatilkynningu á vef Stjórnarráðsins undir hádegi í dag, fimmtudag. Þar með er ljóst að hvalveiðibann sumarsins verður ekki framlengt. Vertíðin hefst þegar á morgun, 1. september.

Ríkisstjórnarfundi á Egilsstöðum lauk skömmu síðar. Matvælaráðherra ræddi við fjölmiðla að honum loknum. Hún sagði að flokkur Vinstri grænna væri mótfallinn hvalveiðum. „Við erum síðasta þjóðin í heiminum sem er að stunda veiðar á stórhvelum með þessum hætti, það er einn aðili að stunda þessar veiðar. Spurningin sem ég hef verið spurð er hvort það sé sú framtíðarsýn sem við viljum sjá, sú spurning er ennþá gild,“ sagði hún. Hún hafi þó ekki heimild til að taka þá ákvörðun að binda endi á hvalveiðar upp á sitt einsdæmi. „Ég veit ekki hvernig samfélag það væri þar sem ráðherrar færu á svig við lög á hverjum degi og gerðu bara það sem þá langaði helst til,“ hefur RÚV eftir ráðherranum.

Aðeins brugðist við fyrirliggjandi gögnum

Fréttatilkynning ráðuneytisins ber yfirskriftina „Hert skilyrði og aukið eftirlit forsenda áframhaldandi veiða á langreyðum“ og er þar sagt að í dag muni matvælaráðherra setja reglugerð sem „ætlað er að bæta umgjörð veiða á langreyðum“. Reglugerðin mun fela í sér „ítarlegar og hertari kröfur til veiðibúnaðar, veiðiaðferða og aukið eftirlit. Skilyrðin snúa m.a. að þjálfun, fræðslu, veiðibúnaði og veiðiaðferðum.“

Allur texti fréttatilkynningarinnar snýst um kröfur reglugerðarinnar en stóru tíðindin, í augum flestra, munu vitanlega ekki snúast um það nákvæmlega með hvaða hætti skepnurnar eru drepnar, heldur hvort.

Á texta tilkynningarinnar má ætla að langvarandi bann hafi aldrei verið ætlun stjórnvalda í þetta sinn, heldur hafi „sú leið að fresta fyrirhuguðu upphafi veiðitímabilsins til 1. september“ aðeins verið farin til að bregðast við „fyrirliggjandi gögnum frá Matvælastofnun og fagráði um velferð dýra“. Þá hafi tímarammi frestunar verið „eins þröngur og unnt var“ með „tilliti til hagsmuna veiðileyfishafa“.

Þá var skipaður starfshópur með fulltrúum ráðuneytisins, Matvælastofnunar og Fiskistofu, og falið að leggja mat á leiðir til að fækka „frávikum við veiðarnar“. Starfshópurinn skilaði skýrslu sinni í upphafi þessarar viku, kemur fram í tilkynningunni. Og það sé mat hópsins að „mögulegt sé að bæta veiðiaðferðir við veiðar á stórhvelum.“

Með vísan til skýrslunnar tekur Matvælaráðuneytið undir þetta, samkvæmt fréttatilkynningunni: „að forsendur séu til að gera breytingar á veiðiaðferðinni sem geti stuðlað að fækkun frávika við veiðarnar og þar með aukinni dýravelferð.“

Ráðherra ánægð að hafa komið málinu á dagskrá

„Ég held að það sé mikilvægt að okkur tókst að setja málið svona kyrfilega á dagskrá,“ sagði ráðherrann í samtali við fjölmiðla, „með því að gera kröfur um stíft eftirlit, sem var í fyrrasumar. Það hafði ekki verið gert áður. Nú erum við með gögnin, við sjáum hvernig þetta fer fram. Við erum komin með skýrslu um efnahagsleg áhrif, skýrslu um umhverfisáhrif, skýrslu um dýraverndunarsjónarmið, sem eru komin það ofarlega á dagskrá í íslenskri stjórnmálaumræðu í dag að við höfum ekki séð það áður. Ég er mjög ánægð með það.“

Aðspurð hvort hún væri ánægð með þessa ákvörðun svaraði Svandis: „Ég er ekki fædd í gær og ég veit að maður er ekki ráðherra til að fá útrás fyrir sína villtustu drauma.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí