„Indland er á tunglinu“ sagði S. Somanath, yfirmaður indversku geimrannsóknarstöðvarinnar á miðvikudag, þegar ómannaða geimfarið Chandrayaan-3 lenti á suðurpól tunglsins, fyrst allra geimfara. Chandrayaan þýðir tunglfar.
Leiðangurinn er annars vegar sagður veigamikill fyrir áframhaldandi könnun tunglsins en hins vegar fyrir Indland, sem þar með er komið í hóp þeirra fjögurra ríkja heims sem tekist hefur að lenda geimfari mjúkri lendingu á tunglingu. Hin þrjú eru Bandaríkin, Kína og Sovétríkin.
Meðal þess sem er mikilvægt við lendingu á suðurpólnum eru athuganir á því hvort vatn, eða öllu heldur ís, finnist í verulegu magni á tunglinu.
Chandrayaan 1, 2 og nú 3
Leiðin til tunglsins er ekki einföld. Aðeins nokkrir dagar eru liðnir frá því að Rússar freistuðu lendingar á tunglingu sem misheppnaðist er geimfarið brotlenti þar og eyðilagðist. Lendingin á miðvikudag var raunar önnur tilraun Indlands til slíks leiðangurs, en fyrri tilraun landsins til að lenda geimfari á suðurpól tunglsins misheppnaðist árið 2019.
Leiðangur fyrsta indverska tunglfarsins, Chandrayaan-1, árið 2008, heppnaðist, en var af öðrum toga þar sem því var ætluð mjúk lending heldur brotlenti á tunglinu, að yfirlögðu ráði. Sá leiðangur bar einnig vísindalegan árangur, þar sem vatnssameindir uppgötvuðust á tunglinu, auk þess sem ljóst varð að í sólskini er þar að finna andrúmsloft.
Siguróp nýs Indlands
„Þessi stund er ógleymanleg. Hún er ótrúleg. Þetta er siguróp nýs Indlands,“ sagði Narendra Modi forsætisráðherra landsins, sem veifaði indversku flaggi á meðan hann fylgdist með útsendingu frá stjórnstöð leiðangursins. Sjálfur var hann staddur í Suður-Afríku á ráðstefnu BRICS-ríkjanna fimm, Brasilíu, Rússlands, Indlands, Kína og Suður-Afríku.
Vísindamenn og embættismenn klöppuðu, hrópuðu og föðmuðu hver annan eftir að lendingin tókst. Um allt Indland braust út fögnuður meðal almennings, sem fylgdist með sjónvarpsútsendingu frá viðburðinum. Flugeldum var skotið á loft og fólk dansaði á götum úti, að sögn Reuters fréttaveitunnar.
Kostnaður á við eina Hollywood-mynd
Gert er ráð fyrir að Chandrayaan-3 starfi í tvær vikur, geri jarðfræðilegar athuganir á yfirborði tunglsins og sendi myndir til jarðar. Tunglfarið sjálft verður þar ekki eitt á ferð, því innanborðs var könnunarfar, fjarstýrt fjórhjól, sem mun ferðast um yfirborð suðurpólsins við rannsóknirnar.
Indversk stjórnvöld hafa lýst yfir ásetningi um geimferðir til reikistjarna, bæði Mars og Venus. Í nálægri framtíð liggja fyrir áform um að senda mannað geimfar til tunglsins. Þá er talið líklegt að þessi árangursríki leiðangur muni auka hróður landsins fyrir hagkvæmar lausnir í geimverkfræði, sem er ört vaxandi svið. Heildarkostnaður við ferð Chandrayann-3 er sagður um 6,15 milljarðar rúpía eða um 10 milljarðar íslenskra króna. Til eru dýrari kvikmyndir en það.