Indverska geimfarið Chandrayaan-3 lenti heilu og höldnu á suðurpól tunglsins

„Indland er á tunglinu“ sagði S. Somanath, yfirmaður indversku geimrannsóknarstöðvarinnar á miðvikudag, þegar ómannaða geimfarið Chandrayaan-3 lenti á suðurpól tunglsins, fyrst allra geimfara. Chandrayaan þýðir tunglfar.

Leiðangurinn er annars vegar sagður veigamikill fyrir áframhaldandi könnun tunglsins en hins vegar fyrir Indland, sem þar með er komið í hóp þeirra fjögurra ríkja heims sem tekist hefur að lenda geimfari mjúkri lendingu á tunglingu. Hin þrjú eru Bandaríkin, Kína og Sovétríkin.

Meðal þess sem er mikilvægt við lendingu á suðurpólnum eru athuganir á því hvort vatn, eða öllu heldur ís, finnist í verulegu magni á tunglinu.

Áhorfendur fylgjast með útsendingu úr stjórnstöð leiðangursins, þar sem lendingin er sýnd með líkani.

Chandrayaan 1, 2 og nú 3

Leiðin til tunglsins er ekki einföld. Aðeins nokkrir dagar eru liðnir frá því að Rússar freistuðu lendingar á tunglingu sem misheppnaðist er geimfarið brotlenti þar og eyðilagðist. Lendingin á miðvikudag var raunar önnur tilraun Indlands til slíks leiðangurs, en fyrri tilraun landsins til að lenda geimfari á suðurpól tunglsins misheppnaðist árið 2019.

Leiðangur fyrsta indverska tunglfarsins, Chandrayaan-1, árið 2008, heppnaðist, en var af öðrum toga þar sem því var ætluð mjúk lending heldur brotlenti á tunglinu, að yfirlögðu ráði. Sá leiðangur bar einnig vísindalegan árangur, þar sem vatnssameindir uppgötvuðust á tunglinu, auk þess sem ljóst varð að í sólskini er þar að finna andrúmsloft.

Siguróp nýs Indlands

„Þessi stund er ógleymanleg. Hún er ótrúleg. Þetta er siguróp nýs Indlands,“ sagði Narendra Modi forsætisráðherra landsins, sem veifaði indversku flaggi á meðan hann fylgdist með útsendingu frá stjórnstöð leiðangursins. Sjálfur var hann staddur í Suður-Afríku á ráðstefnu BRICS-ríkjanna fimm, Brasilíu, Rússlands, Indlands, Kína og Suður-Afríku.

Modi fagnar í beinni útsendingu.

Vísindamenn og embættismenn klöppuðu, hrópuðu og föðmuðu hver annan eftir að lendingin tókst. Um allt Indland braust út fögnuður meðal almennings, sem fylgdist með sjónvarpsútsendingu frá viðburðinum. Flugeldum var skotið á loft og fólk dansaði á götum úti, að sögn Reuters fréttaveitunnar.

Kostnaður á við eina Hollywood-mynd

Gert er ráð fyrir að Chandrayaan-3 starfi í tvær vikur, geri jarðfræðilegar athuganir á yfirborði tunglsins og sendi myndir til jarðar. Tunglfarið sjálft verður þar ekki eitt á ferð, því innanborðs var könnunarfar, fjarstýrt fjórhjól, sem mun ferðast um yfirborð suðurpólsins við rannsóknirnar.

Könnunarfarið á suðurpól tunglsins.

Indversk stjórnvöld hafa lýst yfir ásetningi um geimferðir til reikistjarna, bæði Mars og Venus. Í nálægri framtíð liggja fyrir áform um að senda mannað geimfar til tunglsins. Þá er talið líklegt að þessi árangursríki leiðangur muni auka hróður landsins fyrir hagkvæmar lausnir í geimverkfræði, sem er ört vaxandi svið. Heildarkostnaður við ferð Chandrayann-3 er sagður um 6,15 milljarðar rúpía eða um 10 milljarðar íslenskra króna. Til eru dýrari kvikmyndir en það.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí