„Bandaríkin eru að missa tökin“

Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks, segir að það skipti nánast engu máli hvert er horft, allsstaðar sjást merki þess að Bandaríkin séu að missa stöðu sína í heiminum. Í pistli sem hann birtir á Facebook segir hann þó talsverða hættu felast í því að Bandríska heimsveldið sé í hnignun, því þrátt fyrir allt þá hefur það enn yfirburðastöðu hernaðarlega. Hættan felst í því að menn vestanhafs reyni að beita hernum til að koma í veg fyrir enn meiri hnignun. Kristinn spyr því hvort hagsmunum Íslendinga sé best borgið í faðmi þessa heimsveldis.

Hér fyrir neðan má lesa pistil Kristins í heild sinni.

Þó að það sé dálítið þreytt að grípa til jarðsögulegra líkinga um flekahreyfingar þegar rætt er um afstæður í alþjóðasamskiptum hefur líkingin líklegast ekki átt betur við en núna. Hreyfiafl þessara risabreytinga er ólögleg innrás Rússa í Úkraínu en afleiðingarnar eru djúpstæðari en ætla má af oft þröngsýninum greiningum vestrænna meginstraumsmiðla.

Gríðarlegur áhugi á BRICS klúbbnum endurspeglar að hluta þessar flekahreyfingar en nú stendur yfir leiðtogafundur ríkjanna fimm sem standa að sambandinu (Brasilía, Rússland, Indland, Kína og Suður-Afríka). Um 40% af íbúum Jarðar tilheyra þessum 5 ríkjum og um fjórðungur af landsframleiðslu heimsins er í þessum löndum. Þessi ríkjahópur er rísandi og ef fram fer sem horfir stækkar hópurinn á næstu árum. Alls hafa 40 ríki lýst áhuga á að verða meðlimir BRICS og hafa 23 lönd þegar sótt um aðild.

Þó að Úkraínudeilan sé hreyfiaflið er ekki þar með sagt að BRICS löndin styðji við bakið á Pútín þó að vissulega hafi samband Kína og Rússlands orðið sterkara. Leiðtogar Brasilíu, Indlands og Suður-Afríku neita að taka afstöðu til stríðsins (nema einfaldlega gegn átökunum) og hafa einnig hafnað því að taka þátt í refisaðgerðum gegn Rússlandi. Þó að þetta sé túlkað útfrá Bush kenningunni („ef þið eruð ekki með okkur eruð þið óvinir“) er grunnhyggið að ætla að aðdáun á Pútín ráði ferð eða andúð á Vesturlöndum öllum eða NATO.

Það er þó engin goðgá að ætla að hluti skýringar á áhuga á BRICS sé undirkraumandi andúð á yfirgangsstefnu Bandaríska heimsveldisins sem hefur ráðið lögum og lofum frá lokum Kalda stríðsins og á þessari öld beitt afli og ofbeldi í vaxandi mæli til að fá sínu framgengt. Það hefur ítrekað komið fram í könnunum utan þeirrar bólu sem við tilheyrum að meirihluti heimsins hefur litið á Bandaríkin sem mestu ógn við heimsfrið á síðari tímum. Miðað við samtímasöguna ætti það ekki að koma á óvart.

Hvað sem mönnum kann að finnast tilfinningalega um þessar hraðbreytingar að nýrri skautun í heiminum er þetta staðreynd sem ekki er hægt að umflýja. Bandaríkin eru að missa tökin og hvert sem litið er, til Rómönsku Ameríku, Afríku og rísandi ríkja í Asíu sprettur fram einhver feginleiki við að losna undan þeim ofurtökum.

Það varð vendipunktur á liðnum vordögum þegar Sádí-Arabía og Íran sömdu um frið, með milligöngu Pekingstjórnarinnar og án vitundar Bandaríkjastjórnar. Afstæður í Mið-Asuturlöndum breyttust í einu vettvangi og hafa þessi ríki nú tekið upp vinsamleg samskipti sem hefðu verið óhugsandi fyrir ári síðan.

Það er einnig hafin flótti frá bandaríkjadal sem ráðandi gjaldmiðill milliríkjaviðskipta og hefur uppgjör í Yuan (Kína) tvöfalldast á einu ári (þó aðeins í 14%) og vísbendingar eru um að önnur ríki vilji hverfa frá dollaranum. Um leið tapar heimsveldið einu öflugasta vopni sínu til yfirráða.

Þó að Bandaríska heimveldið sé í hnignun er það með yfirburðastöðu hernaðarlega og í því andrúmi felst hætta. Bandaríkjastórn sér efnahagslegt ris Kína sem ógn við þjóðaröryggi sitt og er texta þar um beinlínis að finna í opinberum stefnuyfirlýsingum.  Sem stendur er afar lítil  hernaðarógn af Kína  (þó annað sé iðulega gefið í skyn). Það er greinilega kraumandi vilji víða innan bandaríska kerfisins að jafna um Kínverja með hernaðarlegum hætti og gera það fyrr en seinna áður en landið fær tækifæri til að efla sinn hefðbundna hernaðarmátt.

Örríkið Ísland flöktir með í þessum miklu breytingum sem standa yfir og ekki verður séð að það fari fram mikil umræða um hvernig hagsmunum landsins sé best borgið í breyttum heimi. Það er einfaldlega hangið á því sem fyrir er. Grunnstefnan er að treysta á NATO og varnarsamninginn í öryggis og varnarmálum og á USA og ESB í viðskiptum.

Í forsögu hefur smáríkinu Íslandi tekist stundum þokkalega að hámarka stöðu sína með með nokkuð klóknu spili. Í seinni tíð ber meira á innistæðulausum frösum og dogmatískri afstöðu sem virkar illa ígrunduð þegar horft er fram á veg. Sem stendur erum við sitjandi á smáskektu í togi öslandi en leks herskips og erum neydd til að ríghalda í tóftirnar á meðan stórskipið gefur í og aldan verður brattari.

Íslensk umræða um utanríkismál er í skötulíki þrátt fyrir að hér á landi séu margir sem hafa margt gott til málana að leggja en láta lítið fyrir sér fara. Það skýrist að einhverju leyti af heiftarlegri og forpokaðri umræðuhefð þar sem tröll ráðast af offorsi á þá sem leyfa sér að stíga út fyrir þröngan ramma hinnar „leyfðu“ umræðu. Staðan er svo vond að ekki aðeins er hispurslausri umræðu svarað með stórskotaliði og klasasprengjum heldur má varla taka umræðu um umræðuna án þess að tipla beint inn á jarðsprengjusvæði. Á meðan tapast upplýsingin og forheimskan blómstrar

 

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí