Á Íslandi gildir lakasta regluverk í þágu umhverfisverndar af öllum ríkjum OECD, svo miklu munar. Ísland losar einnig meira af gróðurhúsalofttegundum en aðildarríki OECD gera að meðaltali, miðað við íbúafjölda, og munar þar langmest um iðnað: Iðnaðarstarfsemi á Íslandi á nær sexfalt stærri hlutdeild í losun gróðurhúsalofttegunda á landinu en iðnaðarstarfsemi í ríkjum OECD gerir að meðaltali. Þar nemur losun iðnaðar að meðaltali tæplega 7,5% heildarlosunar, en hér nær 43%.
Þetta kemur fram í skýrslu OECD um stöðu og horfur efnahagsmála á Íslandi, sem birt var í sumar.
Linasta umhverfisstefna OECD-ríkja
Í skýrslunni birtist mat á hversu stranga stefnu stjórnvöld aðildarríkjanna reka í umhverfismálum. Góðu fréttirnar má segja að séu þær að einkunn Íslands á því sviði er ekki lengur núll eins og hún var um aldamót. Eftir sem áður reka íslensk stjórnvöld, að mati OECD, linustu stefnu allra aðildarríkjanna í umhverfisvernd.
Í skýrslunni birtist þetta mat í einfaldri vísitölu, en að baki býr samantekt á fjölþættum gögnum og athugunum. Heildareinkunn Íslands á þessum kvarða er 1, en næsta land á eftir er Spánn með einkunnina 2,5. Meðaleinkunn aðildarríkjanna er 3,33, en hæst rísa umhverfisvarnir í Frakklandi, með einkunnina 4,9.
Þessari vísitölu er skipt í þrjá undirliði: markaðslausnir, lausnir ótengdar markaði og stuðningur við tækniþróun. Markaðslausnir á sviðinu teljast þær sem auka beinlínis kostnað við umhverfisspjöll og mengun, til dæmis með skattlagningu eða öðrum gjöldum, með framseljanlegum umhverfisvottunum, eða draga úr kostnaði við umhverfsvænar framkvæmdir, til dæmis með skattaívilnunum og styrkjum. Ómarkaðsbundnar lausnir eru aftur á móti þær sem felast í regluverki, fyrirmælum og stöðlum. Loks er stuðningur við tækniþróun í tengslum við umhverfisvarnir sérliður.
Um tækniþróunina þarf ekki að fjölyrða: að mati OECD er hún hér engin, Ísland er eina aðildarríkið sem fær núll stig á þeim kvarða.
Landið beitir nær eingöngu markaðslausnum
Í markaðslausnum til umhverfisverndar stendur Ísland ekki ýkja langt að baki meðaltali OECD-ríkja: það er mat stofnunarinnar að hér hafi verið virkjaðar slíkar lausnir sem nema 0,5 stigum, þegar meðaltal aðildarríkjanna eru rúm 0,7 stig. Önnur Norðurlönd virðast þó hafa virkjað slíkar lausnir í umtalsvert ríkari mæli en Ísland: markaðsaðgerðir Danmerku, Noregs og Svíþjóðar í þágu umhverfisverndar eru metnar á 1,2 til 1,3 stig, aðeins Frakkland stendur þeim framar í þeim flokki aðgerða, með tæp 1,4 stig.
Forvitnilegast er þó að líta til þess þáttar sem er veigamestur í öðrum OECD-ríkjum, að mati sambandsins, en hverfandi hér: Á Íslandi hljóða aðrar lausnir en markaðslausnir, að mati OECD, upp á 0,5 stig í þessari samsettu vísitölu. Í öllum öðrum aðildarríkjum eru slík úrræði metin upp á 1,6 til 2 stig. Það er að segja: í þágu umhverfisverndar beita íslensk stjórnvöld öðrum lausnum en markaðslausnum í þrefjórfalt til fjórfalt minni mæli en öll önnur ríki innan OECD, frá Ástralíu til Ítalíu.
Rafbílar dýrasta leiðin til að draga úr losun
Í skýrslu OECD birtast þessi gögn og eru tekin saman með frásögn í rituðu máli, þar sem lykilstærðir eru reifaðar, en þeim fylgir ekki í öllum tilfellum ítarleg greining. Þannig er ekki tekið til athugunar í skýrslunni hvort eða hvaða orsakasamhengi liggur milli mikillar mengunar frá iðnaði á landinu og allra linasta regluverks OECD-ríkja í þágu umhverfisverndar.
Þess er hins vegar getið, í sama kafla skýrslunnar, að í kostnaðarmati sem HÍ gerði að beiðni íslenskra stjórnvalda sjálfra árið 2022, hafi komið fram að af þeim leiðum sem Ísland gæti farið til að draga úr eða vinna á móti kolefnisfótspori sínu hafi stuðningur við kaup á rafbílum verið metinn á meðal þeirra allra óhagkvæmustu. Á þær aðgerðir hafa íslensk stjórnvöld þó lagt nokkra áherslu á undanliðnum árum.