Laun verkafólks hækkað um 168% umfram verðlag frá 1969, ellilífeyrir um 487%

Um það er deilt i samfélaginu hvort ríkið hafi rétt til skerða ellilífeyri almannatrygginga vegna greiðslna sem fólk fær frá lífeyrissjóðum. Við skulum skoða forsendur þeirrar umræðu

Ellilífeyrir við 67 ára aldur var 3.587 gamlar krónur árið 1969 eða 53.784 krónur á verðlagi dagsins, sé miðað við neysluvísitölu. Þetta ár voru mánaðarlaun verkamanna með tólf mánaða starfsreynslu 10.216 gamlar krónur samkvæmt 6. taxta Dagsbrúnar eða 153.180,52 kr. á núvirði. Ellilífeyrir var því rétt rúmlega 35% af verkamannalaunum 1969, áður en núverandi lífeyrissjóðakerfi var gangsett.

Í dag er 6. taxti Eflingar eftir árs starf 410.984 kr. Laun verkamanna hafa því hækkað um 168% umfram verðlag. Grunn-ellilífeyrir frá Tryggingarstofnun eru í dag 315.525 kr. og hefur því hækkað um 487% umfram verðlag. Grunn-ellilífeyririnn er í dag tæplega 77% af launum verkafólks.

Ef eftirlaunafólk býr eitt fær það heimilisuppbót upp á 79.732 kr. Ellilífeyrir þeirra sem búa ein er þá rúmlega 96% af launum verkafólks.

Fæstir fá svona háan lífeyri frá Tryggingastofnun þar sem þessar greiðslur skerðast ef fólk fær meira en 25 þús. kr. frá lífeyrissjóði og ef fólk hefur meira en 200 þús. kr. í atvinnutekjur. Ellilífeyrir fellur niður þegar greiðslur frá lífeyrissjóði og/eða atvinnutekjur fara yfir 726.167 kr. á mánuði. Skerðingin nemur 45% af öðrum tekjum umfram viðmiðunarmörk.

Staðan er þá sú að fólk sem er með aðrar tekjur upp á um 381 þús. kr. í aðrar tekjur á mánuði er á sama stað og eftirlaunafólk 1969, fær 35% af verkamannalaunum frá Tryggingastofnun. Það er með hærri tekjur samanlagt, um 6% umfram laun verkafólks. Þau sem eru með hærri aðrar tekjur fá svo minna frá TR og þau sem eru með lægri tekjur meira.

Grunn-ellilífeyrir í Danmörku, folkepension, er um 130 þús. íslenskra króna á sama tíma og verkamannalaun eru um 440 þús. kr. Grunn-lífeyririnn er því 30% af verkamannalaununum. Ofan á þetta bætist heimilisuppbót, húsnæðisstyrkur og ýmislegt, en þær bætur eru tekjutengdar. Eftirlaunafólk sem fær greiðslur úr lífeyrissjóðum eða vegna atvinnu fær ekki þær bætur. Og grunn-lífeyririnn er líka tekjutengdur í Danmörku, byrjar að skerðast við 148 þús. kr. á mánuði og fellur niður við 635 þús. kr. á mánuði.

Danska kerfið er ekki svo ólíkt því íslenska, eins og það er í dag. Opinberi ellilífeyririnn er lágur í Danmörku og skerðist hratt. Ríkið bætir kjör þeirra sem hafa litlar tekjur aðrar, en ekki þeirra sem hafa umtalsverðar tekjur, hvort sem það er lífeyrisgreiðslur eða atvinnutekjur.

Í Noregi er grunnlífeyrir 236 þús. kr. á mánuði og tæplega 108 þús. kr. í Svíþjóð. Á móti framlögum úr almannatryggingum fær fólk síðan eftirlaun úr lífeyrissjóðum. Þau sem ekki hafa slíkar tekjur fá framfærsluuppbót, bæði úr almannatryggingakerfinu og úr almennum stuðningi við efnalítið fólk.

Í ársbyrjun í fyrra voru 48.721 manns á Íslandi á 67 aldursári og eldri. Samkvæmt ársskýrslu Tryggingastofnunar fengu það ár 42.734 mann greiddan ellilífeyri. Mismunurinn er rétt tæplega sex þúsund manns. Þar á meðal má vera fólk sem frestaði upptöku ellilífeyris, en líklega eru þar fleiri sem fá ekki ellilífeyri þar sem tekjur þeirra voru yfir efri mörkum.

Allur ellilífeyrir í fyrra frá Tryggingastofnun var 95,6 milljarðar króna. Þar er ekki aðeins grunnlífeyririnn heldur einnig heimilisuppbót, umönnunarbætur og annar stuðningur sem þau fá sem búa ein eða eru með mikla framfærslubyrði. Miðað við upplýsingar frá TR má ætla að heimilisuppbótin sé að meðaltali um 20% af útgreiddum ellilífeyri. Ætla má að greiðslur grunnlífeyris hafi því verið um 76,3 milljarðar króna í fyrra.

Ef við ímyndum okkur að allt fólk 67 ára og eldri hafi fengið óskertan grunnlífeyri, sem var að meðaltali 283.141 kr. á mánuði í fyrra, hefði það verið rúmlega 165,5 milljarðar króna eða um 89,2 milljörðum krónum hærri upphæð en raun var.

Réttindabarátta félaga eldri borgara hefur fyrst og fremst snúist um að hætta skerðingum, ekki að hækka eftirlaunin sjálf. Áætlað hefur verið að um 1/3 hluti eftirlaunafólks sé með lægri tekjur á mánuði en lægstu laun verkafólks. Sem fáir andmæla að dugi ekki fyrir framfærslu. Krafan er ekki um að bæta kjör þessa fólks heldur þeirra sem eru með það miklar tekjur aðrar að ellilífeyrir frá Tryggingastofnun skerðist.

Eins og sjá má af þessum tölum, fjölda eftirlaunafólks, hversu mikið lægri ellilífeyririnn er en lágmarkslaun, hversu mikið þyrfti að hækka útgreiðslur Tryggingastofnunar til að greiða út óskertan ellilífeyri og hversu mikið hærri grunnlífeyririnn er hér í samanburði við Norðurlöndin, þá er ljóst að ræða þarf málefni eftirlaunafólks af meiri alvöru í samfélaginu en gert hefur verið.

Sterkasta umræðan er um skerðingar og byggir á eignarrétti, að fólk eigi rétt á óskertum bótum frá Tryggingastofnun og að ríkið brjóti gegn fólki með þvi að skerða bæturnar. Minna fer fyrir umræðu um félagslegan rétt, að fólk eigi rétt á tekjum sem duga fyrir framfærslu.

Almannatryggingakerfið var í grunninn kerfi sem byggir á tekjujöfnunarkerfi skattsins. Fólk borgar þá skatta miðað við tekjur, þau mest sem hafa mestar tekjur en þau lítið sem litlar tekjur hafa. Allir fá hins vegar það sama út. Hin fátæku fá sama lífeyri og hin ríku.

Lífeyrissjóðakerfið er byggt á allt öðrum forsendum. Þar greiða allir inn sama hlutfall tekna sinna og fá síðan út lífeyri í takt við það sem þau greiddu inn. Hin tekjuháu fá meira og í mörgum tilfellum miklu meira en þau sem voru með lágar tekjur. Segja má að lífeyrissjóðakerfið framlengi með þessum hætti stéttaskiptingu vinnumarkaðarins yfir á eftirlaunaárin.

Helsta einkenni nýfrjálshyggjuáranna var að draga úr og fella tekjujöfnun út úr skattkerfinu, að draga úr stigvaxandi skattheimtu. Á móti innleiddi nýfrjálshyggjan inn skerðingar á bótum og öðrum félagslegum stuðningi. Skattar á láglauna- og millitekjufólk hækkaðu mikið en skatthlutfall á fólk með hærri laun hækkuðu minna, lækkuðu meira að segja hjá þeim allra tekjuhæstu. Þar með brustu í reynd forsendur hugsjóna almannatrygginga, að samtryggingarkerfið tryggði öllum sama rétt. Og brestirnir birtust líka í skerðingunum, millitekjufólk og fólk með hærri tekjur þurfti að borga fyrir þjónustu og fékk skertar bætur.

Og við erum þar. Kerfin ganga ekki upp miðað við hugsjónir sínar. Lausnirnar eru hins vegar óræddar að mestu.

Á næstu dögum og vikum verður rætt um þessi mál við Rauða borðið á Samstöðinni.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí