Ótal fréttir hafa borist síðustu daga um ófarir skáta á heimsmótinu í Kóreu, þar sem allt virðist hafa gengið á afturfótunum. Lofthiti yfir 40 gráðum hefur hrjáð mótsvæðið, ásamt Covid-smitum, og nú er fellibylur sagður yfirvofandi. 40 þúsund skátar frá 158 löndum koma saman á mótinu, ásamt fylgdarliði. Íslenski hópurinn telur 120 skáta og 20 mann fylgdarlið, alls 140 manns, sem er líklega með fjölmennari sendinefndum sem fara frá landinu yfirleitt.
Bandarískir og breskir skátar yfirgáfu mótsvæðið á föstudag. Nú á mánudag var tilkynnt að búðirnar verði rýmdar á þriðjudag, vegna yfirvofandi fellibyls. Íslensku skátarnir munu ásamt kollegum sínum frá öðrum Norðurlöndum yfirgefa svæðið degi fyrr, það er í dag, fimm dögum fyrir áætluð mótslok. Blaðamaður ræddi við Hörpu Ósk Valgeirsdóttur, skátahöfðingja.
Herstöðvar meðal úrræða til að hýsa skátana
Nú er íslenski hópurinn að koma heim?
„Þau eru að færa sig um set. Þau halda sínu flugi sem þau eiga upp úr helginni en fara til Seoul og verða þar í dagskrá með fleiri Norðurlandaþjóðum. Bæði Danir og Norðmenn fara á sama stað og við. Og þau ætla bara að setja upp skemmtilega dagskrá fyrir krakkana kringum Seoul næstu daga.“
Harpa segir að íslenski hópurinn muni koma sér fyrir á heimavist í Seoul, en þegar mótið sjálft leysist upp á þriðjudag verða ýmis úrræði nýtt til að hýsa hinn fjölmenna, alþjóðlega hóp. AP fréttastofan segir að heyrst hafi að bandarískar herstöðvar verði meðal annars nýttar til þess.
„Úrræðin sem mótið hefur tengjast bæði yfirvöldum í Suður-Kóreu og bandaríska hernum. Bandaríski herinn var til dæmis búinn að útbúa svæði fyrir bandarísku skátana þegar þeir fóru. En restinni af mótinu verður dreift um Kóreu og alls konar úrræði sem verða nýtt til þess. Það gæti alveg verið að herstöðvar séu þar á meðal, en ég hef ekki heyrt að skátar frá Norðurlöndunum sé að fara þangað. Íslenski hópurinn mun gista á heimavistarsvæði háskóla eða svoleiðis. Það verður örugglega gaman fyrir þau að komast inn úr hitanum og láta elda ofan í sig, því á svona mótum þurfa þau að skiptast á að elda. Þetta verður lúxuslíf fyrir þau.“
„Maður getur undirbúið sig fyrir að það verði heitt. En svo verður bara aðeins of heitt“
Í umfjöllun erlendra miðla er rætt um þessa upplausn mótsins í ljósi hnatthlýnunar, sem liggi að baki ofsahitanum og hugsanlega stormunum. Hver er ykkar sýn á hvað helst hefur hrjáð mótið?
„Það eru nokkrir þættir. Það virðist vera að mótshaldarar hafi farið seint af stað við undirbúning. Svo setur strik í reikninginn að þegar þau eiga að vera að vinna að uppsetningu flæðir yfir svæðið. Það var í síðustu viku, einhver rigning. Svæðið er manngert og tekur illa við vatni. Það var hrísgrjónaakur bara í fyrra. Og rennur lítið af vatni gegnum leirinn. Þannig að það setur strik í reikninginn varðandi uppsetningu mótsins, að það er allt svo blautt þarna frá því í síðustu viku.“
Þar sem frést hefur af Covid-smitum meðal skátanna spurði blaðamaður hvort Harpa vissi til þess að íslenskir þátttakendur hafi veikst.
„Það hefur enginn verið veikur en við vitum að það átti að taka einhver strok hjá okkur. En það er ekkert komið út úr því ennþá.“
Þetta er frekar sjaldgæft, er það ekki, að svona mót fari svona illa úr skorðum hjá hreyfingunni?
„Jú, það er það. Og margir þættir sem koma hér saman. Skipulagning fór hægt af stað, óheppilegar aðstæður á mótstaðnum. Og ofan í það kemur þessi hitabylgja. Maður getur alveg undirbúið sig fyrir að það verði heitt. En svo verður bara aðeins of heitt. Það er óheppni. Og nú aftur er að koma þessi fellibylur, sem er líka óheppni, fyrir tveimur dögum voru spár þannig að hann færi fram hjá. Það breyttist bara í gær, og þessi ákvörðun var tekin í nótt.“
Er þetta fíaskó innan skátahreyfingarinnar?
„Nei, ef maður getur talað um skandal er það meira fyrir mótshaldarana og yfirvöldin þar, sem misstu svolítið boltann. Það þarf rosa uppbyggingu til að taka á móti 50 þúsund manns á einum stað. Hvort þau hafi vanmetið þörfina, við vitum það ekki, sú greining fer af stað núna. Heimssamtökin eru með puttann á púlsinum á því, að greina hvað veldur þessu. En jú, þetta er mjög óvanalegt fyrir þetta mót. Það er haldið á fjögurra ára fresti víðsvegar um heim, síðast í Bandaríkjunum, verður næst í Póllandi.“
Krakkarnir eru bara glaðir
Harpa Ósk segir að íslenski hópurinn hafi staðið sig rosalega vel.
„Og krakkarnir láta þetta ekki mikið á sig fá, þau tóku 1-2 daga í að venjast hitanum, svo er bara búið að vera gaman hjá þeim. Krakkarnir eru bara glaðir. En foringjarnir, leiðbeinendurnir þeirra, hafa þurft að vaka dag og nótt til að passa að allt sé í lagi, allir séu að drekka og hvílast og kælast og allt þetta. Stórt hrós til þeirra sjálfboðaliða okkar sem hafa verið að halda utan um hópinn.“