Með vaxandi umræðu um fjölgun innflytjenda og flóttafólks verða margar fullyrðingar æði stórkarlalega og á skjön við raunveruleikann. Til dæmis um að fjölmenning á Íslandi sé á pari við það sem er í nágrannalöndunum. Því fer fjarri. Á meðan að stór hluti innflytjenda í öðrum löndum er fólk frá átaksvæðum utan Evrópu er sá hópur hlutfallslega smár á Íslandi. Innflytjendur á Íslandi eru fyrst og fremst verkafólk sem hingað hefur komið til að sinna ferðaþjónustu og öðrum verkalýðsstörfum. Þetta fólk kemur fyrst og fremst frá löndum Austur-Evrópu, er hvítt og alið upp við kristni.
Ein leið til að draga fram hversu ólíkur hópur innflytjenda á Íslandi er í samanburði við næstu lönd er að skoða fjölda Múslima. Hér eru 1.120 manns skráði í tvö trúfélög múslima, Félag múslima á Íslandi og Stofnun múslima á Íslandi. Þetta tæplega 0,3% landsmanna. Fjöldi ríkisborgara frá löndum Islam eru um 2.600 manns, sem er um 0,7% landsmanna. Virkir múslimar eru líklega þarna mitt á milli, um 0,5% landsmanna.
Til samanburðar eru múslimar 2,3% landsmanna í Finnlandi, 3,4% landsmanna í Noregi, 5,4% í Danmörku og 6,0% í Svíþjóð. Ef fjöldinn væri viðlíka og í Finnlandi væru hér 8.800 múslimar en ekki tæplega tvö þúsund. 23.500 ef fjöldinn væri viðlíka og í Svíþjóð, tólf sinnum fleiri en raun er á.
Það er því í raun algjörlega marklaust þegar fólk heldur því fram að ástandið á Íslandi sé að verða svipað og í innflytjendahverfum Svíþjóðar eða hinna Norðurlandanna. Þar hefur safnast saman fólk sem finnur á eigin skinni að það er ekki velkomið inn í sænskt samfélag, það nýtur ekki sömu tækifæra og innfæddir. Og þegar hópurinn er nógu stór getur myndast innan hans kjarnar sem hafna því að ganga inn í samfélagið á þeim kjörum að fá aldrei að setja við sama borð og aðrir. Þeir kjarnar mynda þá sérstök samfélög utan jaðars hins formlega samfélags. Þetta gerðist meðal Ítala í New York upp úr þar síðustu aldamótum, hefur gerst meðal fólks frá Norður-Afríku í Frakklandi og dæmin eru auðvitað miklu fleiri.
Til að þetta ástand skapist þarf að koma til höfnun innfæddra og útilokun á innflytjendahópnum. En líka þarf innflytjendahópurinn að vera nógu stór til að geta staðið undir eigin samfélagi. Sú er ekki raunin á Íslandi, nema þá meðal fólks frá Austur-Evrópu sem hingað hafa komið til að sinna verkamannavinnu.
Ótti Vesturlandabúa gagnvart múslimum er rótgróinn. Hann er bæði sögulegur, enda voru átök á milli kristinna og múslima á öldum áður. Fordómar fólks á Vesturlöndum hafa spunnist út frá bænum múslima þar sem þeir mæta í moskuna án prjáls og tákna um samfélagslega stöðu og biðja allir í hóp og takt. Af þessu hafa Vesturlandabúar spunnið hugmyndir um að múslimar móti sér síður einstaklingsbundna afstöðu, beygi sig frekar undir aga stofnana og séu líklegri til að fórna sér fyrir málstaðinn. Og þótt allskyns hópar beiti hryðjuverkum hafa Vesturlandabúar tengt þau sérstaklega við Islam á liðnum áratugum. Útlendingaandúð á Vesturlöndum beinist því mun fremur að múslimum en öðru fólki.
Hér er listi yfir hlutfallslegan fjölda múslima í löndum okkar heimshluta. Múslimar eru hér notaðir sem mælikvarði á fjölmenningu. Þarna sést hlutfallslegur fjöldi múslima en líka hversu margir múslimar væru á Íslandi ef hlutfallið væri það sama hér. Og í síðasta dálknum sést hversu mörgum sinnum fleiri múslimar eru í viðkomandi landi en hér:
Land | Hlutfall múslima | Hversu margir ef álíka hátt hlutfall á Ísland | Hversu mörgum sinnum fleiri en á Íslandi |
---|---|---|---|
Austurríki | 7,9% | 30.810 | 15,8 |
Belgía | 7,0% | 27.300 | 14,0 |
Svíþjóð | 6,0% | 23.400 | 12,0 |
Liechtenstein | 6,0% | 23.400 | 12,0 |
Frakkland | 5,6% | 21.840 | 11,2 |
Danmörk | 5,4% | 21.060 | 10,8 |
Sviss | 5,2% | 20.205 | 10,4 |
Holland | 4,9% | 19.110 | 9,8 |
Spánn | 4,4% | 17.160 | 8,8 |
Bretland | 4,0% | 15.600 | 8,0 |
Malta | 3,9% | 15.210 | 7,8 |
Þýskaland | 3,6% | 14.040 | 7,2 |
Noregur | 3,4% | 13.260 | 6,8 |
Ítalía | 3,2% | 12.480 | 6,4 |
Finnland | 2,3% | 8.804 | 4,5 |
Grikkland | 2,1% | 8.162 | 4,2 |
Lúxembourg | 1,9% | 7.313 | 3,8 |
Írland | 1,6% | 6.318 | 3,2 |
Andorra | 1,2% | 4.550 | 2,3 |
Mónakó | 0,9% | 3.554 | 1,8 |
Ísland | 0,5% | 1.950 | 1,0 |
San Marínó | 0,2% | 877 | 0,4 |
Færeyjar | 0,1% | 229 | 0,1 |
Grænland | 0,0% | 68 | 0,0 |
Vatíkanið | 0,0% | 0 | 0,0 |