Yfirborðshiti Norður-Atlantshafs hefur verið heitari í allt sumar en nokkru sinni fyrr, samkvæmt gervihnattamælingum. Hnatthlýnun skýrir hækkunina að nokkru leyti en þó ekki öllu. Spjótin beinast að öðrum sökudólgi til viðbótar: mengunarvörnum sem tóku gildi árið 2020.
Hafið er með hita
Það var í mars á þessu ári sem vísindamenn vöktu athygli á því að eitthvað væri bogið við yfirborðshita Atlantshafs, sem væri umtalsvert hærri, ekki aðeins hærri en á öllum fyrri árum frá því að mælingar með gervihnöttum hófust um 1980, heldur hærri en allar spár gerðu ráð fyrir, að meðtöldum líkönum um hnatthlýnun. Síðan hélt hitafrávikið áfram að hækka.
Hitafrávik, því það er ekki endilega svo að hver dagur hafi verið heitari en sá síðasti, heldur reis hver á fætur öðrum dagur hærra yfir meðalhita sama dags á öðrum árum. Svo mjög reyndar að hver einasti dagur sumarsins hefur verið langtum heitari í hafinu en fyrri ár.
Í júlí leit út fyrir að hitafrávikið færi lækkandi – það gerði það um hríð án þess að fara nokkuð nálægt viðmiði undanliðinna ára. En síðustu daga hefur frávikið aukist á ný.
Í dag, 23. ágúst 2023, hefur yfirborðshiti Norður-Atlantshafs slegið hitamet fyrri ára í 165 daga samfleytt. Og hvað sem líður hnatthlýnun er ekki fyllilega ljóst hvað veldur þessari öru hitun.
Óvænt hliðarafleiðing mengunarvarna
Ein óvænt tilgáta hefur þó komið fram. Henni voru meðal annars gerð skil í tímaritinu Science í byrjun þessa ágústmánaðar. Árið 2020 tóku gildi nýjar reglur Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO) um hámark brennisteinsmengunar frá skipum. Með reglunum dróst slíkur útblástur saman um 80%, með jákvæðum áhrifum á loftgæði um allan heim, að sögn vísindamanna. Nú getur aftur á móti hugsast að þessar mengunarvarnir hafi haft þá hliðarverkan að hraða á hitnun hafsins: brennisteinsagnir í lofti endurspegla sólargeislum, hrinda þeim með öðrum orðum aftur frá jörðu út í geim. Sjóflutningar um Atlantshaf mynda nógu þéttriðið net siglingaleiða og þarmeð mengunarskýja frá skipunum til að hugsast getur, að sögn Science, að þetta endurvarp hafi hjálpað til við að kæla jörðina frá því sem annars væri.
Í grein Science er haft eftir Duncan Watson-Parris, eðlisfræðingi við hafrannsóknarstofnun Scripps, að reglugerð IMO sé „umfangsmikil tilraun í náttúrunni“: mannkyn sé að breyta skýjunum.
Nægar rannsóknir hafa raunar þegar birst til að ekki er aðeins um getgátur að ræða: sú aukning á birtu sem varð með mengunarvörnunum jók þau hlýnunaráhrif sem Atlantshaf verður fyrir vegna koltvísýringsútblásturs um 50%, segir þar. Loftslagsvísindamaður við Florida State háskólann segir að það jafnist á við að heimurinn færi á mis við kælandi áhrif nokkuð stórs eldgoss á hverju ári. Ekki kemur þó fram í grein Science hverso stórt eldgos telst nokkuð stórt.
Óljóst um áhrif og þýðingu
Óháð því hvað veldur hitnuninni blasir við önnur spurning, jafnvel brýnni: hvaða áhrif mun hún hafa, annars vegar á lífríki sjávar, hins vegar fyrir þróun loftslags ofansjávar. Staðan er nógu nýtilkomin til að engin svör virðast vera haldbær enn sem komið er. Samstöðin hefur leitað til vísindamanna innanlands og mun birta svör þeirra ef og þegar þau berast.