Allt frá vorinu 2020 hafa hugsanlega birst fleiri vísindarannsóknir tengdar heimsfaraldrinum sem þá hófst en nokkru öðru viðfangsefni. Að greina frá fínni þráðum þeirra rannsókna, á við langtímaafleiðingar endursýkinga á ólíka hópa, krefst verulegrar yfirlegu. Það háir aftur á móti ekki hollenskri rannsókn sem birtist í liðinni viku og komst að sérdeilis einfaldri niðurstöðu: Heilbrigðisstarfsfólk sem borar í nefið hefur reynst líklegra til að smitast en þau sem gera það ekki.
Rannsóknin birtist í vísindaritinu Plos One á miðvikudag. Athugað var hvort nokkrir þættir í atferli heilbrigðisstarfsfólks hefðu áhrif á smithættu þess: að ganga með gleraugu, að naga neglur, safna skeggi, og sá ávani að bora í nefið.
Þrefalt meiri hætta
Rannsóknin hófst í fyrstu bylgju faraldursins. 219 heilbrigðisstarfsmenn voru teknir til athugunar. Af þeim smituðust 34 á tímabilinu frá mars til október 2020. Mikill meirihluti þeirra tilgreindi að hafa borað í nefið á tímabilinu, ýmist mánaðarlega, vikulega eða daglega. Meðal þeirra sem það gerðu reyndust 17,3% hafa smitast, en úr hópi þeirra sem ekki boruðu smituðust aðeins 5,9%, eða þrefalt færri.
Í viðtali við The Guardian segir Dr. Jonne Sikkens, einn höfunda rannsóknarinnar, að þetta séu umtalsvert meiri áhrif en búist var við. Þó að fylgnin væri skýr hafði Sikkens þó um leið orð á því að rannsóknin gæti ekki sagt afdráttarlaust til um orsakasamhengið: „Við getum til dæmis ekki útilokað að heilbrigðisstarfsfólk sem borar ekki í nefið á sér sé þrifalegra yfirleitt, og að fleiri þættir hafi þannig haft áhrif á niðurstöðuna,“ sagði hann.
Tilmæli til heilbrigðisstofnana
Gleraugnanotkun reyndist engin marktæk áhrif hafa á smithættu. Skeggvöxtur hafði engin mælanleg áhrif heldur, né sá vani að naga á sér neglurnar. Í lokaorðum rannsóknarinnar er þeim tilmælum beint til heilbrigðisstofnana að auka meðvitund starfsfólks um þá smithættu sem getur fylgt því að stinga fingrum í nefið á sér. Ætla má að sama ábending gæti, undir hliðstæðum kringumstæðum, einnig gagnast þeim sem ekki starfa innan heilbrigðiskerfisins.