Nýja þjóðlagastjarnan Oliver Anthony sver af sér tengsl við Repúblikana en virðist þó ekki tala vinstri

Menning 26. ágú 2023 Haukur Már Helgason

Það hafa geisað stormar um ungt bandarískt söngvaskáld að nafni Oliver Anthony eftir að hann lét frá sér lag með titilinn Rich Men North of Richmond. Lagið sver sig í hina pólitísku sönglaga- og þjóðlagahefð Bandaríkjanna, virðist við fyrstu sýn vera af rótum hinnar sósíalísku lagahefðar söngvaskálda á við Woody Guthrie, sem beitti tónlist sinni óhikað til að hvetja verkafólk til að stofna verkalýðsfélög og taka þannig höndum saman í baráttu sinni. Rich Men North of Richmond slær hins vegar að nokkru leyti annan tón.

Lagið kom út fyrr í þessum mánuði, á YouTube. Að lagið hafi slegið í gegn er ekki ofsögum sagt. Innan örfárra daga var það komið í fyrsta sæti Billboard vinsældalistans og Oliver Anthony varð þar með fyrsti tónlistarmaður sögunnar sem stekkur beint í fyrsta sæti listans, án þess að hafa nokkurn tíma komið þar við sögu áður.

Um leið varð hins vegar lagið sjálft afar umdeilt. Bandaríska hægrið var fljótt að taka það upp á arma sína um leið og fjöldi vinstrimanna gagnrýndi það fyrir að sá misklíð meðal verkalýðsins frekar en að hvetja til samstöðu.

Hinn umdeildi texti lagsins um ríka fólkið í Washington

„Well, I’ve been selling my soul / Working all day / Overtime hours / For bullshit pay“ hljóðar fyrsta erindið, og slær þannig á kunnuglega strengi. Lagið heldur áfram á þann veg, skáldið setur sig í fótspor verkamanns sem ver ævinni í að sá í akur óvinar síns, eins og það var eitt sinn nefnt.

En svo koma línur á við þessar: „Lord, we got folks in the street / Ain’t got nothin’ to eat / And the obese milkin’ welfare“, – sem vísa til þekktra goðsagna hægrisins um að velferðarkerfi séu misnotuð af fólki sem á stuðning þeirra ekki skilið, í tilfelli þessarar línu sökum offitu.

Skáldið heldur áfram þann veg: „But God if you’re five foot three / And you’re three hundred pounds / Taxes ought not to pay / For your bags of fudge rounds“ – að fólk í yfirþyngd ætti ekki að njóta atvinnubóta eða félagslegs stuðnings. Sem gagnrýnendur segja að megi ætla að snúist ekki um fólk í yfirþyngd eitt og sér, heldur birtist sá hópur hér sem hluti af þeirri heild sem skáldið beinir spjótum sínum að. Gagnrýni Anthonys beinist þannig ekki aðeins að „ríka fólkinu norðan við Richmond“ – það er í Washington – heldur um leið að hvaða hugmynd sem áheyrandinn gerir sér um fátækt fólk sem á ekki annað skilið, ólíkt þeim dugnaðarforkum sem söngvaskáldið tekur upp hanskann fyrir.

Þá er eitt og annað í texta lagsins sem kunnugir segja að leiki á þekkta strengi QAnon samsæriskenninga-klasans. Að því leyti öllu saman er ekki endilega óvænt að bandaríska hægrið, eða MAGA-hægrið, hafi tekið lagið upp á arma sína um leið og vinsældir þess lágu fyrir. Sú samsömun náði nýjum hápunkti í liðinni viku, þegar lagið var leikið á kappræðuviðburði þátttakenda í prófkjöri Repúblikanaflokksins fyrir forsetakosningarnar á næsta ári.

Oliver Anthony ávarpar aðdáendur sína til að hafna þeim tengslum sem Repúblikanar hafa viljað mynda við hann.

„Truflar mig að sjá fólk blanda pólitík í málið“

Á föstudag lét tónlistarmaðurinn sjálfur frá sér yfirlýsingu á YouTube. Hann segir að það hafi verið gaman að fá alla þá hlustun sem lagið hefur notið, og eiga í samtölum við ótal manneskjur í kjölfar þess um mannsandann, um tónlistariðnaðinn, hvað allt er „dirty“: Það er verra en þið haldið, segir hann. Og hann vill gæta að sjálfum sér: „Ég vil ekki fara í rússíbanareið og koma úr henni sem annar maður.“ En síðan víkur hann talinu að pólitísku átökunum um lagið:

„Það sem hefur truflað mig er að sjá fólk blanda pólitík í málið. Það reitir mig til reiði að sjá fólk í fréttaþáttum íhaldsmanna samsama sig mér, eins og ég sé einn af þeim. Það reitir mig til reiði að sjá ákveðna tónlistarmenn og stjórnmálamenn láta eins og við séum kunningjar og heyjum sömu baráttuna. Eins og við séum að reyna að flytja sömu skilaboðin.“ Svo víkur hann talinu að prófkjörskappræðunum: „Það var fyndið að sjá lagið notað við kappræðurnar. Því ég skrifaði þetta lag um þetta fólk, þið vitið. Að þau hafi þurft að sitja þarna og hlusta á það, finnst mér fyndið. Og að sjá viðbragðið við því: þetta lag hefur ekkert að gera með Joe Biden. Það er miklu stærra en Joe Biden. Lagið fjallar um fólkið á sviðinu. Og margt fleira, ekki bara um þau, en sannarlega um þau.“

Anthony segir erfitt að koma skilaboðum áleiðis um pólitíska sýn manns og hugmyndafræði á rúmum þremur mínútum. „En ég þoli ekki að sjá lagið tekið upp í vopnaburði. Ég sé hægrið reyna að gera mig að einum þeirra. Ég sé vinstrið reyna að gera lítið úr mér. Líklega í hefndarskyni. Þeim andskota verður að linna.“

„Hinsti sigur hinna ríku í stéttastríðinu“

Þó er ekki víst að þeim andskota linni. Stór orð falla um þennan óvænta slagara. Síðastliðinn mánudag birti New Statesman grein eftir slóvenska heimspekinginn Slavoj Zizek undir titlinum „Oliver Anthony does not have the answers“: söngvaskáldið hefur ekki svörin. Niðurlag greinarinnar er svohljóðandi:

„Látið ykkur ekki bregða ef lag Anthonys hlýtur lof frá milljarðamæringum á við Elon Musk og Donald Trump – ríka manninum frá Mar-a-Lago, sem með flóknum lagabrögðum hefur forðast að greiða skatta um langt árabil. Warren Buffett sjálfur, einn ríkasti maður heims, var hissa þegar hann uppgötvaði að hann greiddi lægri skatta en ritarinn hans. Engin furða að þegar Obama forseti vara sakaður um það ábyrgðarleysi að draga „stéttastríð“ inn í stjórnmálin, svaraði Buffett um hæl: „Já, það er stéttastríð í gangi en það er mín stétt, þau ríku, sem eru að heyja það. Og við erum að sigra.“ Það sem við heyrum í lagi Anthonys er hinsti sigur hinna ríku í stéttastríðinu: jafnvel niðurlægður verkamaður sem berst fyrir félagslegu réttlæti er með þeim í liði.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí