Ólíklegt að uppþot fúlu-karlanna hafi nokkur áhrif á stjórnarsamstarfið

Bræðurnir Sigurjón Magnús og Gunnar Smári Egilssynir fóru yfir stjórnmálaástandið við Rauða borðið og töluðu sig niður á að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, myndi mæta eftir helgi og sussa á allar hugmyndir um stjórnarslit. Bæði þyki honum völdin góð og ástæðulaust að hætta þeim nema bráð nauðsyn krefji, og andstaðan innan flokksins, sem kalla mætti villiketti eða fúlu-karladeildina, sé of áhrifalítil. Það hefur einkennt formannstíð Bjarna að hann reynir ekki að halda frið við ólíkar deildir flokksins. Hann sættir sig frekar við að það kvarnist úr flokknum.
Þeir bræður rifjuðu upp örlög villikatta og fúlla karla í flokknum. Sigríður Andersen, sem er villiköttur fremur en fúll karl, var felld í prófkjöri. Haraldur Benediktsson missti forystu í Norðvesturkjördæmi, hætti á þingi kjölfarið og er nú bæjarstjóri á Akranesi. Brynjar Níelsson tapaði í prófkjöri og féll af þingi. Páll Magnússon fékk ekki ráðherrastól og sá sæng sína útbreidda eftir átök við forystuna og bauð sig ekki fram aftur, stóð þess í stað fyrir uppreisn gegn forystu flokksins í Vestmannaeyjum og hafði nokkurn sigur.

Það hefur því ekki farið vel fyrir þeim sem setja sig upp á móti forystu Sjálfstæðisflokksins í formannstíð Bjarna. Eina undantekningin er Guðlaugur Þór Þórðarson sem er einfaldlega of sterkur fyrir Bjarna. En ekki nógu öflugur til að draga til sín allar þær deildir flokksins sem eru ósáttar við stefnu og taktík Bjarna og fella hann. Þess vegna hefur Bjarni tök á flokknum. Og af þeirri ástæðu getur flokkurinn ekki annað en minnkað.

Í vikunni hefur ýmist Sjálfstæðisflokksfólk stigið fram að talað niður væntingar um stjórnarslit. Þetta er nokkurs konar upptaktur að innkomu Bjarna, sem boðuð hefur verið eftir verslunarmannahelgi. Miðað við stemminguna er ljóst að hann mun tala heilmikið um hversu miklum árangri ríkisstjórnin hafi náð, hversu mikilvægt verkefni eru fram undan og hvílíkt glapræði það væri ef aðrir flokkar væru fengnir til að leysa þau. Ríkisstjórnin sé því skásti kosturinn, jafnvel sá illskásti.

Lilja Alfreðsdóttir ræddi á þessum nótum í vikunni, stal svolítið línunum frá Bjarna. Framsóknarflokkurinn hefur lítinn áhuga á kosningum og sama má segja um Vg. Og þótt þær raddir séu sterkar innan Sjálfstæðisflokksins að hann hefði gott af kosningum, jafnvel stjórnarandstöðu um einhvern tíma, þá er það alls ekki afstaða Bjarna Benediktssonar. Hann er með erindi í pólitík, að færa eignir, völd og auðlindir almennings til hinna ríku. Og hann upplifir að verkefnið sé varla hálfnað. Hann á eftir að taka Landsvirkjun, Keflavíkurflugvöll, einkavæða meira í heilbrigðiskerfinu og margt annað.

Þótt Bjarni hafi misst niður fylgi flokksins, klofið hann og veikt, þá ætlar hann að nota Sjálfstæðisflokkinn til að ná fram þessum markmiðum sínum. Hann hefur því engan áhuga á að hætta völdunum fyrir eilítið skárri stöðu í nýrri ríkisstjórn. Og enda svo kannski valdalaus í stjórnarandstöðu.

Þeir bræður ræddu um margt fleira og samtalið má sjá og heyra í spilarnum hér að neðan:

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí