Vinna við að tryggja öryggi þeirra þúsunda sem búa í atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki skilað lagafrumvarpi og því síður tilteknum aðgerðum heldur, enn sem komið, aðeins skjali er nefnist „áform um lagasetningu“. Skjalið birtist í samráðsgátt hins opinbera þann 13. júlí sl., þegar ætla má að sumarfrí hafi staðið sem hæst. Lokað var fyrir umsagnir þann 7. ágúst og hafði þá borist ein umsögn, frá Samtökum fjármálafyrirtækja. Samtökin sögðust í stuttu máli ekki hafa athugasemdir við áformin en vonast eftir breytingum á lögum um brunatryggingar að auki.
Starfshópurinn sem skilaði greinargerðinni sem liggur að baki áformunum leggur til að fólki verði heimilað að skrá aðsetur sitt tímabundið í atvinnuhúsnæði, og hvatt til slíkrar skráningar með því að rýmka heimildir til húsnæðisbóta, sem í dag standa íbúum slíks húsnæðis ekki til boða.
Eftirlit krefst mannafla
„Hópurinn lagði til tillögur um breytingar,“ sagði Aldís Hilmarsdóttir framkvæmdastjóri brunavarnasviðs Mannvirkjastofnunar í samtali við blaðamann. „Og þá þarf að fara í samráð um þær tillögur, það er ekkert gert fyrr en það er orðið að lögum, eins og þú þekkir. Þannig að skýrslan sem kom út í vor er nýjasta gagnið sem er til um þetta. Við erum að fara að funda með ráðuneytinu um stöðuna, en þetta var komið á fullt hjá þeim í vor.“
– Slökkviliðsstjóri segist telja heldur hafa fjölgað í hópnum frá því vinnan hófst en hitt, enda hafi fjölgað íbúum á höfuðborgarsvæðinu. Er hraði ferlanna nægur miðað við þá hættu sem er til staðar?
„Ég var ekki í þessum hópi, en í grófum dráttum er þetta eitt af því sem við höfum verið að lýsa, og slökkviliðið, að þau eru ekki nógu mönnuð fyrir þessa aukningu sem hefur átt sér stað. Þeir eru undirmannaðir. Brunavarnaráætlun slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, framlenging hennar var samþykkt með þeim fyrirvara að það þyrfti að fara í aðgerðir til að bæta þjónustuna, það er auka mönnun. Það er alltaf fleira og fleira atvinnuhúsnæði og fleiri og fleiri sem búa þar. Og ef við ætlum að láta ganga í gegn þær tillögur sem er verið að leggja til þá krefjast þær mikils eftirlits.“
Slökkvilið getur ekki bara hent fólki á götuna
Aldís bætti við því að krafa um eftirlit væri ekki nóg ein og sér, „það þarf líka að vera einhver til að framkvæma það. Þannig að þetta er áskorun sem við stöndum frammi fyrir núna, með fleiri og fleiri íbúum og fleira og fleira húsnæði.“
Þannig að tillögurnar snúa fyrst og fremst að auknu eftirliti?
„Að þú getir skráð þig til heimilis tímabundið í atvinnuhúsnæði, þannig að maður geti þá allavega vitað að fólk búi þarna. Það er þá heimilað tímabundið, að því gefnu að fari þá fram ákveðið eftirlit. Að brunavarnir séu fínar. Og ef við ætlum að láta það ganga eftir þá þarf að fylgja því einhver fjármögnunum, þannig að hægt sé að fara í eftirlit í öllu þessu húsnæði sem fólk mun óska eftir. Það eru allir af vilja gerðir að ná þessum breytingum fram og skilja nauðsyn þess. En spurning hvort fólk áttar sig á kostnaðinum. Og slökkviliðið getur ekki heldur bara hent fólki á götuna.“