Þrýstingur fer vaxandi á Olaf Scholz, kanslara Þýskalands, að veita Úkraínuher stýriflaugar, í von um að með þeim geti Úkraínu orðið betur ágengt í yfirstandandi gagnsókn gegn innrásarliði Rússa, kemur fram í frétt Financial Times í dag, mánudag. Sænsk-þýsku stýriflaugarnar sem um ræðir, framleiddar í samstarfi þýska fyrirtækisins MBDA og dótturfyrirtækis SAAB í Svíþjóð, eru langdrægari en þær sem Úkraína hefur þegar yfir að ráða. Þýsk stjórnvöld eru vör um sig vegna þeirrar stigmögnunar átakanna sem vopnin gætu valdið, þar sem þeim mætti tæknilega beita til árása innan landamæra Rússlands.
Stýriflaugar á við Taurus „eina ráðið“
Tveir þingmenn úr flokki sósíaldemókrata, SPD, sem Scholz veitir forystu, hafa nýverið bæst í hop þeirra sem kalla eftir því að sænsk-þýskar stýriflaugar af gerðinni Taurus verði sendar til Úkraínu. FT hefur eftir öðrum þingmannanna, Andreas Schwarz, að gagnsókn Úkraínu sé á á fallandi fæti, og því sé einkum um að kenna að landið hafi ekki nógu sterkan flugher til að styðja við hana. „Þá eru stýriflaugar á við Taurus eina ráðið, með stuðningi þeirra gæti Úkraínuher komist yfir jarðsprengjusvæði Rússa og endurheimt landsvæði.“
Nils Schmid, talsmaður flokksins á sviði utanríkismála innan sambandsþingsins, sagði að hann „útilokaði ekki“ að Taurus flaugum yrði komið til Úkraínu, í samstarfi við Bandaríkin. Hann aðvaraði um leið að brýnt væri að úkraínskir hermenn gætu og myndu annast forritun skotmarka, því annars væri Þýskaland komið „hættulega nærri beinni þátttöku í stríðinu“.
Hin hæga sókn gegnum varnir innrásarliðsins
Gagnsókn Úkraínu hófst í júní. Úkraínuher styðst við Leonard-skriðdreka frá Þýskalandi og önnur NATO-vopn sem vestræn ríki hafa veitt til hernaðarins. Hernum hefur þó reynst erfitt að brjótast í gegnum varnir Rússa, ekki síst jarðsprengjusvæði sem Rússar hafa lagt eftir 1.000 kílómetra langri víglínunni. Úkraínumenn hafa beitt langdrægum flaugum frá Bretlandi, af gerðinni British Storm Shadow, í árásir á vopnabúr, eldsneytisforða, höfuðstöðvar og samgönguinnviði sem rússneski herinn styðst við. Drægni flauganna er um 250 kílómetrar.
Þá tilkynntu Frakkar í nýliðnum júlímánuði að þeir myndu veita Úkraínu flugskeyti af gerðinni Scalp, sem hafa áþekka drægni og bresku skeytin.
Þýskaland hefur aftur á móti verið meira hikandi, af ótta stjórnvalda og ráðgjafa þeirra við þá stigmögnun átakanna sem gæti leitt af því að veita Úkraínuher flaugar með drægni allt að 500 km, en slíkar flaugar mætti hæglega nota til árása innan landamæra Rússlands.
Ásakanir um ábyrgð á mannfalli og töfum
Í umfjöllun New York Times nú á mánudag dag er rætt við Oleksandr, 28 ára gamlan liðsforingja í Úkraínuher. „Margir héltu að þetta myndi ganga hratt fyrir sig við yrðum komin til Krímskaga með haustinu,“ segir hann. „En hver einasti metri er afar torsóttur. Þetta er ekki spretthlaup heldur maraþon.“ Þar kemur fram að Úkraínuher birtir ekki tölur yfir látna og særða, en Oleksandr játast því að herfylki hans hafi orðið fyrir miklu mannfalli á fyrstu dögum gagnsóknarinnar í júní, þegar hermenn hans urðu fyrir jarðsprengjum ásamt árásum rússnesks stórskotaliðs og flugsveita.
Hið mikla mannfall í upphafi gagnsóknarinnar leiddi, að sögn blaðsins, til háværra ásakana innan Úkraínu, ekki síst af hálfu vinsæls hermanns og bloggara að nafni Valerii Markus. Á Facebook sakaði hann yfirmenn sína um vanhæfni og kærulausa umgengni við andlegan þrótt hermanna. Yfirmaður úkraínska heraflans tjáði sig einnig og gagnrýndi bandamenn landsins innan NATO fyrir að gera ráð fyrir að hermenn Úkraínu gætu náð árangri án yfirráða yfir loftrými, sem hefði aldrei hvarflað að þeim sjálfum.
Á víglínunni sökuðu hermenn yfirboðara sína um að ýta óreyndum nýjum liðsmönnum til orrustu og að beita reynslulausum hersveitum á fremstu víglínu. Aðrir sgöðu að nokkurra vikna þjálfun á vegum ýmissa NATO ríkja væri ekki nægur undirbúningur fyrir átökin. Þá heyrðust kvartanir um að farartæki sem Vesturlönd hefðu fært Úkraínu hæfðu ekki verkefninu, brynvarðir bandarískir bílar af gerðinni MaxxPros veittu litla vörn gegn skotfærum rússneska hersins.
Og liðsforinginn Oleksandr segir þá Bandaríkjamenn sem önnuðust þjálfun úkraínskra hermanna aðeins hafa barist í Afganistan og Írak, þar sem óvinurinn væri af öðrum toga en Rússlandsher.
Þýskar rökræðuhefðir gera bandamenn óþolinmóða
Vonir standa til að aukin geta til árása úr lofti gæti haft veruleg áhrif á vígstöðu Úkraínumanna. Þýskaland leggur þegar næst mest til vopnaforða Úkraínu, á eftir Bandaríkjunum, að sögn Boris Pistoriusar varnarmálaaráðherra Þýskalands. Í liðinni viku sagði hann að sending Taurus-stýriflauga væri þó ekki meðal forgangsatriða Þýskalands um þessar mundir.
Samkvæmt Financial Times hafa deilurnar um hvort Þýskaland skuli senda stýriflaugarnar til Úkraínu eða ekki verið bornar saman við fyrri deilur innan landsins, um hvort Úkraínu skyldu færðir þýskir skriðdrekar af gerðinni Leopard 2. Þær margra mánaða löngu umræður sem þar fóru fram vöktu óþolinmæði meðal ýmissa bandalagsríkja Þjóðverja. Svo fór á endanum að skriðdrekarnir voru veittir.