Segir Davíð og Moggann líkjast lyga­veit­um banda­rískra ný­fas­ista

Fjölmiðlar 15. ágú 2023

„Mér hafa lengi blöskrað skrif Morg­un­blaðsins um banda­rísk stjórn­mál; ég hef undr­ast lof­gjörðarp­istla þess um Don­ald J. Trump og furðað mig á stöðugum árás­um þess á Joe Biden, sem gætu allt eins sótt efni sitt í lyga­veit­ur banda­rískra ný­fas­ista. Er ekki mál að linni?“ skrifar Reynir Axelsson stærðfræðingur í Moggann um aðdáun Davíðs Oddssonar á Donald Trump.

Tilefni skrifanna er forsíðufrétt og leiðari í Mogganum 2. ágúst.

Forsíðufréttin 2. ágúst og leiðarinn í sama blaði.

Í forsíðufrétt­inni sagði: „Joe Biden [Banda­ríkja­for­seti] var þátt­tak­andi á viðskipta­fund­um Hun­ters Bidens, son­ar síns, bæði í eig­in per­sónu og á síma­fund­um.“ Þetta seg­ir blaðið hafa komið fram „í lokuðum þing­nefnd­ar­yf­ir­heyrsl­um yfir Devon Archer í gær“. Blaðið vitn­ar í James Comer, formann eft­ir­lits­nefnd­ar neðri deild­ar Banda­ríkjaþings, um „að framb­urður Archers staðfesti að Biden Banda­ríkja­for­seti hefði sagt þjóðinni ósatt um það að hann hefði enga vitn­eskju um viðskipti son­ar síns og ekki verið tengd­ur þeim á neinn hátt“.

„Morg­un­blaðið og James Comer fara hér með staðlausa stafi,“ skrifar Reynir. „Það er eng­inn fót­ur fyr­ir frétt­inni og þá ekki leiðar­an­um. Frá­sögn Morg­un­blaðsins er svo ólík um­fjöll­un virtra fjöl­miðla (t.d. The New York Times) um málið, að ég náði í upp­skrift viðtals­ins við Devon Archer á heimasíðu eft­ir­lits­nefnd­ar­inn­ar (United States Hou­se Comm­ittee on Oversig­ht and Accounta­bility) og las all­ar 140 blaðsíðurn­ar. Þar er ekk­ert sem staðfest­ir frétt blaðsins; þvert á móti kem­ur fram að Devon Archer varð aldrei var við að Joe Biden, sem var vara­for­seti Banda­ríkj­anna á þeim tíma sem um ræðir, hafi haft nokkra vitn­eskju um viðskipti son­ar síns Hun­ters, né að hann hafi haft nokk­ur af­skipti af þeim, né að hann hafi nokk­urn tíma beitt sér fyr­ir nokkr­um aðgerðum af hálfu Banda­ríkja­stjórn­ar sem gætu hafa liðkað fyr­ir þess­um viðskipt­um son­ar­ins.“

Reynir heldur áfram: „Viðtalið við Devon Archer var haldið á veg­um nefnd­ar­inn­ar 31. júlí 2023. Viðtalið var lokað og ekki haldið frammi fyr­ir allri nefnd­inni. Auk Archers voru viðstadd­ir þrír nefnd­ar­menn, tveir re­públi­kan­ar og einn demó­krati, ásamt lög­mönn­um og starfs­fólki nefnd­ar­inn­ar, og lög­manni Archers og starfs­bróður hans. Nefnd­ar­formaður­inn James Comer var ekki viðstadd­ur.

Aðspurður hvort Archer hafi orðið vitni að sím­töl­um Hun­ters við föður sinn þegar „hugs­an­leg­ir viðskipta­fjár­fest­ar eða aðrir af er­lendu þjóðerni“ hafi verið viðstadd­ir svar­ar Archer: „Aft­ur er það, – hvað varðar ein­stök atriði, þá get­um við talað um það. En, þið vitið, Hun­ter talaði við pabba sinn á hverj­um degi, ekki satt? Og þannig und­ir ákveðnum kring­um­stæðum sem maður er í – þið vitið, ef pabbi hans hring­ir í hann í kvöld­matn­um og hann tek­ur upp sím­ann, þá er sam­tal. Og það, þið vitið, sam­talið er venju­lega um veðrið og, þið vitið, hvernig það er í Nor­egi eða Par­ís eða hvar sem hann kann að vera stadd­ur. En það var – já svona var það.“ [Skýrsla um viðtalið, bls. 39.]

Hann er spurður hvort sím­inn hafi ein­hvern tíma verið stillt­ur á hátal­ara (svo að viðstadd­ir geti heyrt báðar hliðar sam­tals­ins). Hann rifjar upp kvöld­verð í Par­ís (þar sem sam­talið var um að Hun­ter væri að fá sér kvöld­verð í Par­ís) og kvöld­verð í Beij­ing, sem hann er spurður nán­ar um. Hann svar­ar:

„Ég meina, um eitt­hvað af sér­stök­um atriðum, svona, frá al­mennu sjón­ar­miði, það var alltaf, þið vitið, hvað það – þið vitið, ekki endi­lega veðrið, en, þið vitið, það er ekk­ert – það var ekk­ert – og ég held þið verðið að skilja að það var ekk­ert um eign­ar­hluta­töflu (cap table) eða þókn­un eða neitt svo­leiðis, bara al­mennt kurt­eis­istal og, þið vitið, al­menn­ar sam­ræður, þið vitið, um landa­fræðina, um veðrið, eða hvaðeina. En sér­stak­lega um – svo langt sem, svona, sem al­mennt fyr­ir þau öll, skul­um við bara taka sem dæmi – það var aldrei nein sér­stök stund þegar ég varð vitni að, þið vitið, ákveðnum viðskipt­um eða viðskipta­samn­ing­um eða, þið vitið, nokk­urri teg­und af viðskipta­dóti.“ [Skýrsl­an bls. 41.]

Archer gisk­ar á að hann hafi orðið vitni að slík­um sam­töl­um, þar sem fleiri voru viðstadd­ir, kannski svona 20 sinn­um.

Þetta er það sem er orðið hjá Morg­un­blaðinu að síma­fund­um Joes Bidens um viðskipti son­ar­ins. Viðskipta­fund­irn­ir sem hann á sam­kvæmt blaðinu að hafa tekið þátt í per­sónu­lega reyn­ast vera tveir kvöld­verðir á veit­ingastaðnum Café Milano (vænt­an­lega í Washingt­on, D.C.), þar sem Hun­ter Biden og Devon Archer voru ásamt er­lend­um gest­um. Sá fyrri var af­mæl­is­fagnaður. Joe Biden kom seint, en þó áður en máltíðin hófst. Hann heilsaði öll­um með handa­bandi. „Og, þið vitið, sam­ræðurn­ar – þið vitið, aft­ur, ég vil ekki vera – það er mik­il­vægt að ég sé ná­kvæm­ur. Ég man í al­vör­unni ekki eft­ir þeim. Þið vitið, ég man ekki – ekki í al­vöru. Ég man ekki eft­ir sam­ræðunum. Ég man bara að hann var – hann kom í kvöld­verðinn, og við átum og töluðum sam­an um víða ver­öld, held ég, og veðrið, og svo all­ir – fóru all­ir.“ [Skýrsl­an, bls. 47.] Á seinni kvöld­verðinum var full­trúi frá mat­væla­áætl­un Sam­einuðu þjóðanna, og „eitt­hvað var rætt um hana“. [Skýrsl­an, bls. 66.]

Þetta er allt og sumt sem kem­ur fram um „fundi með Joe Biden“ í skýrsl­unni.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí