„Mér hafa lengi blöskrað skrif Morgunblaðsins um bandarísk stjórnmál; ég hef undrast lofgjörðarpistla þess um Donald J. Trump og furðað mig á stöðugum árásum þess á Joe Biden, sem gætu allt eins sótt efni sitt í lygaveitur bandarískra nýfasista. Er ekki mál að linni?“ skrifar Reynir Axelsson stærðfræðingur í Moggann um aðdáun Davíðs Oddssonar á Donald Trump.
Tilefni skrifanna er forsíðufrétt og leiðari í Mogganum 2. ágúst.
Forsíðufréttin 2. ágúst og leiðarinn í sama blaði.
Í forsíðufréttinni sagði: „Joe Biden [Bandaríkjaforseti] var þátttakandi á viðskiptafundum Hunters Bidens, sonar síns, bæði í eigin persónu og á símafundum.“ Þetta segir blaðið hafa komið fram „í lokuðum þingnefndaryfirheyrslum yfir Devon Archer í gær“. Blaðið vitnar í James Comer, formann eftirlitsnefndar neðri deildar Bandaríkjaþings, um „að framburður Archers staðfesti að Biden Bandaríkjaforseti hefði sagt þjóðinni ósatt um það að hann hefði enga vitneskju um viðskipti sonar síns og ekki verið tengdur þeim á neinn hátt“.
„Morgunblaðið og James Comer fara hér með staðlausa stafi,“ skrifar Reynir. „Það er enginn fótur fyrir fréttinni og þá ekki leiðaranum. Frásögn Morgunblaðsins er svo ólík umfjöllun virtra fjölmiðla (t.d. The New York Times) um málið, að ég náði í uppskrift viðtalsins við Devon Archer á heimasíðu eftirlitsnefndarinnar (United States House Committee on Oversight and Accountability) og las allar 140 blaðsíðurnar. Þar er ekkert sem staðfestir frétt blaðsins; þvert á móti kemur fram að Devon Archer varð aldrei var við að Joe Biden, sem var varaforseti Bandaríkjanna á þeim tíma sem um ræðir, hafi haft nokkra vitneskju um viðskipti sonar síns Hunters, né að hann hafi haft nokkur afskipti af þeim, né að hann hafi nokkurn tíma beitt sér fyrir nokkrum aðgerðum af hálfu Bandaríkjastjórnar sem gætu hafa liðkað fyrir þessum viðskiptum sonarins.“
Reynir heldur áfram: „Viðtalið við Devon Archer var haldið á vegum nefndarinnar 31. júlí 2023. Viðtalið var lokað og ekki haldið frammi fyrir allri nefndinni. Auk Archers voru viðstaddir þrír nefndarmenn, tveir repúblikanar og einn demókrati, ásamt lögmönnum og starfsfólki nefndarinnar, og lögmanni Archers og starfsbróður hans. Nefndarformaðurinn James Comer var ekki viðstaddur.
Aðspurður hvort Archer hafi orðið vitni að símtölum Hunters við föður sinn þegar „hugsanlegir viðskiptafjárfestar eða aðrir af erlendu þjóðerni“ hafi verið viðstaddir svarar Archer: „Aftur er það, – hvað varðar einstök atriði, þá getum við talað um það. En, þið vitið, Hunter talaði við pabba sinn á hverjum degi, ekki satt? Og þannig undir ákveðnum kringumstæðum sem maður er í – þið vitið, ef pabbi hans hringir í hann í kvöldmatnum og hann tekur upp símann, þá er samtal. Og það, þið vitið, samtalið er venjulega um veðrið og, þið vitið, hvernig það er í Noregi eða París eða hvar sem hann kann að vera staddur. En það var – já svona var það.“ [Skýrsla um viðtalið, bls. 39.]
Hann er spurður hvort síminn hafi einhvern tíma verið stilltur á hátalara (svo að viðstaddir geti heyrt báðar hliðar samtalsins). Hann rifjar upp kvöldverð í París (þar sem samtalið var um að Hunter væri að fá sér kvöldverð í París) og kvöldverð í Beijing, sem hann er spurður nánar um. Hann svarar:
„Ég meina, um eitthvað af sérstökum atriðum, svona, frá almennu sjónarmiði, það var alltaf, þið vitið, hvað það – þið vitið, ekki endilega veðrið, en, þið vitið, það er ekkert – það var ekkert – og ég held þið verðið að skilja að það var ekkert um eignarhlutatöflu (cap table) eða þóknun eða neitt svoleiðis, bara almennt kurteisistal og, þið vitið, almennar samræður, þið vitið, um landafræðina, um veðrið, eða hvaðeina. En sérstaklega um – svo langt sem, svona, sem almennt fyrir þau öll, skulum við bara taka sem dæmi – það var aldrei nein sérstök stund þegar ég varð vitni að, þið vitið, ákveðnum viðskiptum eða viðskiptasamningum eða, þið vitið, nokkurri tegund af viðskiptadóti.“ [Skýrslan bls. 41.]
Archer giskar á að hann hafi orðið vitni að slíkum samtölum, þar sem fleiri voru viðstaddir, kannski svona 20 sinnum.
Þetta er það sem er orðið hjá Morgunblaðinu að símafundum Joes Bidens um viðskipti sonarins. Viðskiptafundirnir sem hann á samkvæmt blaðinu að hafa tekið þátt í persónulega reynast vera tveir kvöldverðir á veitingastaðnum Café Milano (væntanlega í Washington, D.C.), þar sem Hunter Biden og Devon Archer voru ásamt erlendum gestum. Sá fyrri var afmælisfagnaður. Joe Biden kom seint, en þó áður en máltíðin hófst. Hann heilsaði öllum með handabandi. „Og, þið vitið, samræðurnar – þið vitið, aftur, ég vil ekki vera – það er mikilvægt að ég sé nákvæmur. Ég man í alvörunni ekki eftir þeim. Þið vitið, ég man ekki – ekki í alvöru. Ég man ekki eftir samræðunum. Ég man bara að hann var – hann kom í kvöldverðinn, og við átum og töluðum saman um víða veröld, held ég, og veðrið, og svo allir – fóru allir.“ [Skýrslan, bls. 47.] Á seinni kvöldverðinum var fulltrúi frá matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna, og „eitthvað var rætt um hana“. [Skýrslan, bls. 66.]
Þetta er allt og sumt sem kemur fram um „fundi með Joe Biden“ í skýrslunni.“