Öfgahægrimenn eru helsta hryðjuverkaógnin á Íslandi. Þeir hafa m.a. notað tölvuleikjaspjall til að ræða öfgahugmyndir sín á milli. Ekki eru merki um íslamska öfgamenn hér á landi. Þetta segir Runólfur Þórhallsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í greiningardeild ríkislögreglustjóra, í samtali við Morgunblaðið í morgun.
Í viðtalinu kemur fram að norska lögreglan segir alþjóðlega hryðjuverkaógn helst stafa af öfga hægri- og vinstrihópum sem og öfgamúslimum. Að sögn Runólfs eru öfgavinstrimenn helst ógn í S-Evrópu, á Spáni og á Ítalíu. Hér sé helsta ógnin hægri öfgahópar. „Að okkar mati er hún að einhverju leyti til staðar hér. Við verðum að fylgjast mjög vel með þeirri þróun, en hún er úti um allan heim,“ segir hann.
Runólfur segir að eins og staðan er núna er engin opin rannsókn á öfgahægrihópum hérlendis en lögreglan fá fleiri ábendingar en áður vegna öfgahægrimanna, meðal annars frá erlendum samstarfsaðilum. Fyrir stuttu voru tveir ungir menn, sem aðhylltust öfgahægrið, ákærðir fyrir að skipuleggja hryðjuverð en þeirri ákæru var vísað frá dómi. En ný ákæra hefur verið birt.
„Það hafa komið ábendingar frá erlendum samstarfsaðilum um að hér séu mögulega einhverjar íslenskar tengingar inni á einhverjum spjallborðum sem þeir verða varir við. Þá miðla þeir þeim upplýsingum til okkar og við skoðum það frekar. Í flestum tilvikum lýkur því án þess að við opnum formlega rannsókn,“ segir Runólfur. Hann segir að síðasta vetur hafi lögregla fengið eitt slíkt mál sem leiddi til handtöku og húsleitar. en fór ekki lengra.
Runólfur segir engin merki um ógn frá öfgafullum múslimum. „Við erum hér með múslimasamfélög en þau eru í minni kantinum og við sjáum engin merki um það að verið sé að innprenta einhverja öfgahyggju hér á landi.“