„Traust grundvallast á því sem menn sýna í verki, en skrum grefur undan trausti. Ef flokksráðsfundurinn á að skila árangri þarf þar að eiga sér stað kraftmikil umræða, ekki orðagjálfur, um sjálfstæðisstefnuna í framkvæmd. Þar verða kjörnir fulltrúar að sannfæra fundarmenn um það að þeir séu í reynd „trúir grunnhugsjónum“ og að hugur fylgi máli þegar vísað er til þeirra í ræðum og greinum,“ skrifar Arnar Þóir Jónsson, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, í Mogga dagsins.
Arnar Þór nefnir tvö mál sem hann vill fá skýra afstöðu frá kjörnum fulltrúum flokksins á fundinum á morgun:
„Ætla þingmenn og ráðherrar að standa vörð um sjálfstæðis- og frelsishugsjón flokksins í umræðum um ný sóttvarnalög? Er frumvarp utanríkisráðherra um bókun 35 í samræmi við þá grundvallarhugsjón Sjálfstæðisflokksins að lögin eigi sér lýðræðislega rót?“ spyr Arnar.
„Hyggjast þingmenn og ráðherrar standa gegn hugmyndum forsætisráðherra um takmörkun á tjáningarfrelsinu, sbr. þingsályktunartillögu um „aðgerðaáætlun gegn hatursorðræðu fyrir árin 2023-2026“?“ spyr hann líka.
Arnar Þór er formaður Félags Sjálfstæðisflokksmanna um fullveldismál, en þrír aðrir félagar í því félagi skrifa sameiginlega í Mogga dagsins, Birgir Örn Steingrímsson, Jón Kári Jónsson og Júlíus Valsson. Í grein þeirra kemur fram að félagið mun leggja fram tillögu til ályktunar á fundinum á morgun, sem hljóðar svo: „Flokksráð Sjálfstæðisflokksins hvetur utanríkisráðherra til að draga til baka frumvarp til laga um breytingar á lögum um Evrópska efnahagssvæðið nr. 2/1993 (bókun 35). Sjálfstæðisflokkurinn mun standa vörð um fullveldi Íslands og frelsi þjóðarinnar til að setja sín eigin lög án ytri þvingunar. Félagsmenn í FSF skora á alla sjálfstæðismenn að standa vörð um grunngildi og stefnuskrá flokksins með frelsi, lýðræði og fullveldi Íslands að leiðarljósi.“
Það er því augljóst að fullveldissinnar ætla að láta sverfa til stáls á fundinum, neyða kjörna fulltrúa til að samþykkja eða hafna því að sem fullveldissinnarnir telja grunnstefnu flokksins.
Það var rætt við Arnar Þór í vikunni við Rauða borðið þar sem hann fór yfir þessa stöðu. Viðtalið má sjá og heyra hér: