Í fréttum á sunnudag mátti heyra fjármálaráðherra fullyrða að forsendur fyrir samgöngusáttmála milli ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu væru brostnar: „Mínar ábendingar eru bara þær að fjármálalegu forsendurnar fyrir því að fara í þessi verkefni á þessum tíma, þær eru ekki lengur til staðar, miðað við þær upplýsingar sem við höfum í dag,“ sagði Bjarni Benediktsson í viðtali við fréttastofu RÚV.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri lýsti sig ósammála því mati fjármálaráðherra, enda hafi þegar verið ákveðið síðastliðið vor að uppfæra samgöngusáttmálann eftir því sem verkefninu vindur fram. Ríki og sveitarfélög hafi verið sammála um það, og til standi að uppfærsla sáttmálans verði klár í haust.
Sama dag birtist önnur frétt, einnig frá fréttastofu RÚV, um að fyrsta framkvæmdin vegna borgarlínu muni hefjast fyrir lok þessa árs, „þegar jarðvegsframkvæmdir hefjast fyrir brú yfir Fossvog“.
Framkvæmd Borgarlínu í þann mund að hefjast
Samgöngusáttmálinn er pólitískur grundvöllur fyrirhugaðrar Borgarlínu á höfuðborgarsvæðinu, nýrra innviða fyrir almenningssamgöngur, sem er áreiðanlega eitt stærsta, ef ekki allra stærsta, verkefni borgarráðsmeirihlutans sem Dagur B. Eggertsson hefur veitt forystu frá árinu 2014.
Fyrrnefnd fyrsta framkvæmd vegna Borgarlínu, jarðvegsframkvæmdir fyrir brú yfir Fossvog, hefur enn ekki verið boðin út. Segir í frétt RÚV að stefnt sé að útboði í haust.
Í Facebook-hópnum Borgarlína, þar sem þessi áform eru til umræðu spyr Elías Bjarni Elíasson af þessu tilefni: „Hvor vinnur?“ og birtir tilvitnanir í fréttir dagsins með myndum af borgarstjóra og fjármálaráðherra.
„Það er ekki til fyrir þessu verkefni“
Andrés Magnússon, blaðamaður á Morgunblaðinu, leggur þar orð í belg og segir engu skipta hvaða skoðanir fólk hafi á samgöngum og borgarskipulagi, „hvort það er lattelepjandi úrbanistar eða kóksvelgjandi súbúrbanistar. Það er ekki til fyrir þessu verkefni, sem menn hafa algerlega misst frá sér, og borgin ekki búið í haginn fyrir, hvorki hvað fjárhag eða skipulag varðar. Því það er verið að byggja eitt og annað með borgarlínuna að forsendu og meira á leiðinni.“
Ýmsar efasemdir hafa áður heyrst um hversu líklegt það er að Borgarlínuverkefnið nái fram að ganga eftir að Dagur B. Eggertsson hverfur úr sæti borgarstjóra nú í árslok, hversu sennilegt er að arftaki hans í embætti reynist jafn ástríðufullur fyrir verkefninu. Hvorki Sjálfstæðisflokkurinn né Framsókn hafa hingað til verið áfram um uppbyggingu á almenningssamgöngum. Næsti borgarstjóri hefur sterk tengsl við báða flokkana, þó að hann hafi aðeins boðið sig fram fyrir annan þeirra. Nú virðast Sjálfstæðismenn munda dýnamítið, svo að segja, og láta að minnsta kosti í veðri vaka að þeir gætu sprengt þessa brú áður en hún rís, eða ekki seinna en stólaskiptin eiga sér stað.