„Við hjá Samtökum skattgreiðenda höfum um árabil litið á sjálftöku stjórnmálaflokka á fé úr ríkissjóði sem einhverja mestu spillinguna í íslenskum stjórnmálum og enn frekar þegar í ljós kemur að þeir hafa ekki haft lagalegar forsendur til að fá þetta fé úthlutað,“ segir Skafti Harðarson, formaður Samtaka skattgreiðenda, í samtali við Morgunblaðið.
Í Mogga segir að Skapti hafi fyrir hönd samtakanna sinna sent erindi til héraðssaksóknara, þar sem þess er krafist að meint brot þeirra stjórnmálasamtaka sem fengið hafa ofgreidda fjárstyrki úr ríkissjóði verði rannsökuð. Þess er krafist að saksóknari beiti þeim úrræðum sem lög um meðferð sakamála kveða á um, komi í ljós að refsilög hafi verið brotin.
Skatpi segir að alvarlegast sé að viðkomandi samtök hafi ekki ráðstafað fjármununum til þeirra útgjalda sem lög taki til og jafnvel séu uppi grunsemdir um að fénu hafi verið ráðstafað til einstaklinga sem í forsvari hafi verið og er þar vísað til Flokks fólksins.
„Samtryggingin á nú að virka með þeim hætti að ekki eigi að endurkrefja stjórnmálafokkana um það fé sem þeir hafa fengið með ólögmætum hætti. Fjármálaráðherra er ekki að sinna skyldum sínum með því að ganga ekki eftir endurgreiðslu fjárins.“
Spurningu um aðild samtakanna að málinu segir Skafti að hér sé um að ræða sakamál í eðli sínu sem nú sé komið til héraðssaksóknara. Samtökin þurfi ekki að eiga beina aðild að málinu sem slíku. Það staðfesti þeir lögmenn sem leitað hafi verið til.