„Það er víðar en á Ísafirði sem menn hafa áhyggjur af flugsamgöngum. Húsavíkurflugvöllur hefur stórt upptökusvæði notenda, allt frá Mývatnssveit til Raufarhafnar, sem er í um 140 km fjarlægð frá Húsavíkurflugvelli og tekur þar af leiðandi ríflega einn og hálfan tíma í akstri,“ sagði Þórmundur Sigmundsson Miðflokki á Alþingi fyrir skömmu.
„Ef áætlunarflug fellur niður eins og fyrirséð er verður erfiðara að halda úti sjúkraflugi þar sem ekki er hægt að fljúga sjúkraflug að vetrarlagi nema flugbraut sé haldið opinni. Það getur orðið kostnaðarsamt fyrir ríkissjóð ef fara þarf með allt sjúkraflug í gegnum Akureyrarflugvöll yfir vetrartímann svo ekki sé talað um umtalsverða lengingu viðbragða viðbragðsaðila og áhættu fyrir sjúkling í krítísku ástandi.
Norðurþing, Landsvirkjun og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hafa unnið saman að uppbyggingu græns iðngarðs á Bakka. Nú hafa tvö stórfyrirtæki sýnt mikinn áhuga á að byggja upp sína starfsemi á Bakka og þá er fyrirhugað að hefja stækkun Þeistareykjavirkjunar í haust og eru í farvatninu fleiri atvinnuverkefni því tengd. Allt þetta kallar á mikil umsvif á svæðinu og aukna þörf fyrir ferðir til og frá höfuðborgarsvæðinu að Húsavík, Þeistareykjum og Bakka. Það er því mjög slæmt fyrir þessi áform ef áætlunarflug um Húsavíkurflugvöll verður ekki í boði. Innanlandsflugið er okkar mikilvægustu almenningssamgöngur og sérstaklega á meðan mestöll, ef ekki nánast öll stjórnsýsla og þjónusta er fyrst og fremst staðsett á höfuðborgarsvæðinu. Það skiptir byggðir landsins öllu máli að hafa stöðugt aðgengi að innanlandsflugi og þar með talið um Húsavíkurflugvöll.
Ég skora hér með á hæstvirtan samgönguráðherra að um leið og hann bregst við stöðunni á Ísafirði geri hann slíkt hið sama fyrir Húsavíkurflugvöll.“