Afleiðingar nýrra útlendingalaga eru farnar að birtast, líkt og Samstöðin greindi frá í gær. Útlendingalög Jóns Gunnarssonar virðast einna helst felast í því að börn fara að sofa svöng á Íslandi. Samtökin Börn á flótta fara yfir nokkur dæmi um afleiðingar nýrra laga í yfirlýsingu sem þau birta á Facebook.
Samtökin segja að yfirlýsing yfirvalda um að barnafjölskyldur yrðu undanþegnar frá lögunum vera þvælu. „Yfirvöld hafa nýlega sagt barnafjölskyldur vera undanþegnar reglugerðinni í nýju útlendingalögunum þar sem fram kemur að umsækjendur um vernd verði sviptir allri þjónustu, húsnæði og mataraðstoð eftir synjun. Réttur barna á flótta staðfestir hér með að þessu er ekki framfylgt,“ segir í yfirlýsingu.
Enn fremur þá hafa fjölskyldur verið sviptar matarkortum. „Nokkrar barnafjölskyldur sem við styðjum við hafa lent í því að matarkortinu þeirra hafi verið lokað. Ennfremur hafa nokkrar fjölskyldur fengið tölvupóst frá sveitarfélögum þess efnis að þær séu ekki lengur í þjónustu þeirra, þá var nokkrum hótað húsnæðismissi. Að minnsta kosti ein fjölskylda hefur nú þegar misst húsnæðið, en þá var skipt um lás á íbúðinni þeirra og sveitarfélag lokaði á alla þjónustu,“ segja samtökin og halda áfram:
„Við teljum það grafalvarlegt að loka á þjónustu fyrir börn sem enn eru hér á landi og mörg hver enn með mál í vinnslu. Á sama tíma er foreldrum meinað að vinna fyrir sér. Hvernig stendur á því að mataraðstoð sé tekin af fólki og börnum sem hefur ekki í nein hús að venda og mega ekki vinna fyrir sér?
Við höfum því ákveðið að styðja enn frekar við þær fjölskyldur sem lenda í því að missa fæði og húsnæði og aðstoða þau við málsókn gegn þeim yfirvöldum sem þetta gera.“