„Ég hef aldrei fengið jafn sterk viðbrögð við nokkru eins og þessum orðum. Margir prestar sögðu við mig að enginn hefði tekið eftir þessum orðum ef prestur hefði sagt þau. Þetta er tilfinningin sem þeir hafa,“ segir Kristrún Heimisdóttir, lögfræðingur og fyrsti varaforseti kirkjuþings, í samtali við Kolbrúnu Bergþórsdóttur blaðakonu í Sunnudags-Mogganum. Ummælin eru þau sem Kristrún mælti í framboðsræðu sinni á kirkjuþingi á síðasta ári þegar hún sagði að Jesús væri besti áhrifavaldurinn en búið væri að banna börnum aðgang að honum en öll mættu þau horfa á TikTok.
Í viðtalinu segir Kristrún að dómarar hafi skrifuðu sér og sagst fá alla daga til sín í dómsal unglinga sem þeir væru að reyna að hvetja til betrunar en næðu engu sambandi við um gildi betrunar. Kennarar sendu Kristrúnu svipuð skilaboð um að það væri eins og börnin hefðu engin viðmið lengur, eins og þau fengu hér áður fyrr úr sunnudagaskólanum.
„Þetta hangir saman við þá þróun sem varð eftir að borgarmeirihlutinn í Reykjavík ákvað að setja strangar reglur um kirkjusókn grunnskólabarna og prestarnir upplifðu það eins og væri búið að loka á þá. Þessi afstaða í Reykjavík skapaði þá hugmynd víða um land að kirkjuheimsóknir væru bannaðar með landslögum,“ segir Kristrún.
„Það var sagt að ekki mætti innræta börnum neitt,“ heldur hún áfram. „Ef við horfum í kringum okkur þá er fjöldinn allur af aðilum sem hafa frítt spil til að innræta börnum allt mögulegt. Spurningin sem stendur eftir er: Af hverju í ósköpunum mega börn ekki vita eitthvað um Jesúm Krist? Af hverju er það svona hættulegt? Menn þurfa að svara þeirri spurningu. Við búum í samfélagi þar sem fólk notar nafn hans stanslaust. Hvaða skynsemi er í því að það sé numið brott úr kennslu í skólum eða samfélaginu?
Prestar hafa sagt mér að þegar börn koma í kristilega fermingu og eru spurð hvort þau hafi heyrt talað um Miskunnsama Samverjann þá eru kannski fjórir í fimmtíu manna hópi sem vita um hvað er verið að tala. Ef þú hefur aldrei heyrt talað um Miskunnsama Samverjann í samfélagi eins og okkar þá vantar eitthvað í samhygðina.
Merkingin í orðunum: „Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum“ er djúpstæð og sterk. Og ef þú hefur aldrei heyrt þau, hversu fátækur ertu ekki og hversu fátækt er þá ekki samfélagið sem heild? Ef börn heyra ekki þessi orð þá halda þau þegar þau heyra þau í fyrsta sinn að þau merki að sá yðar sem er í sundi kasti fyrstur steini í laugina.
Við horfum upp á ofbeldi og skipulagða glæpastarfsemi með þeim hætti að við hefðum aldrei trúað því að það gæti gerst. Ef við ætlum um leið að kasta kristinni trú og því sem þjóðkirkjan stendur fyrir, hvað á þá að koma í staðinn? Það er spurning sem við ættum að velta fyrir okkur. Það ætti að vera þjóðfundur um ofbeldi og siðferði frekar en ýmislegt annað. Siðfræðistofnun Háskóla Íslands var stofnuð í samstarfi skólans og þjóðkirkjunnar og er svo enn.
Ég hef lagt mig eftir því að kenna og lesa heimspeki. Það er svo margt sem fylgir því að lesa dæmisögur Jesú Krists. Þar er grundvallarboðskapur sem er hvergi annars staðar að finna. Erum við kynslóðin sem ætlar að skilja við þetta allt saman? Hvers konar eftirmæli munum við þá fá?“