Núverandi og fyrrverandi starfsmenn Google komu saman fyrir utan ráðstefnu sem fyrirtækið hélt í San Francisco á þriðjudag, til að mótmæla verkefninu Nimbus, sem þau segja kynda undir aðskilnaðarstefnu Ísraelsríkis.
Verkefnið Nimbus er samningur að andvirði 1,2 milljarða dala, eða um 160 milljarða króna, milli Google og Amazon Web Services, annars vegar, og Ísraelsríkis og -hers hins vegar. Hópur starfsfólks innan Google hefur mótmælt Nimbus verkefninu frá því það hófst árið 2021, og lýst yfir áhyggjum af því að tækni Google sé beitt til að auðvelda Ísraelsher að viðhalda eftirliti með Palestínumönnum.
Þau segja að verkefnið sé á meðal þeirra ábatasömu samninga sem fyrirtækið hafi gert sem virði að vettugi siðferðileg viðmið sem fyrirtækið þurfi að setja sér.
Google hefur lítið látið uppi um innihald samkomulagsins við ísraelsk yfirvöld en árið 2022 greindi vefmiðillinn Intercept frá því að skjöl sem þeim hefðu borist frá starfsfólki stjórnvalda í Ísrael gæfu til kynna að Google veitti stjórnvöldum hugbúnað sem væri ætlað að bera kennsl á fólk, nema tilfinningalegt ástand þess út frá svipbrigðum og fylgja hlutum á ferð eftir í myndskeiðum.
Starfsfólk Google hefur áður mótmælt samstarfi við heri, við landamæraggæslu Bandaríkjanna og þátttöku fyrirtækisins í gerð gervigreindarbúnaðar til að stýra árásum með drónum.
Los Angeles Times greindi frá mótmælunum.