„Setja upp endursendingarbúðir, ég hef líka talað fyrir móttökubúðum, það er örugglega margt sem við eigum eftir að gera …“

Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, gerði því skóna í viðtali á sunnudag að nýbreytt útlendingalög séu aðeins fyrstu skrefin í átt að aukinni hörk í garð umsækjenda um alþjóðlega vernd. Hún sagði að þegar réttindi fólks eru felld niður væri „óskastaðan“ sú að það léti sig hverfa úr landinu. Hins vegar, bætti hún við „kann að vera að við þurfum að huga að því annars vegar að setja upp einhvers konar endursendingarbúðir, ég hef líka talað fyrir móttökubúðum, og það er örugglega margt sem við eigum eftir að gera meira í þessum málaflokki.“

Helga Vala: „Við hendum fólki ekki út á götu“

Í Sprengisandi Bylgjunnar ræddi Kristján Kristjánsson á sunnudag við Bryndísi Haraldsdóttur, þingmann Sjálfstæðisflokksins, og Helgu Völu Helgadóttur, þingmann Samfylkingarinnar, um málefni þeirra tæplega fimmtíu manneskja sem stjórnvöld hafa nú úthýst í krafti nýrra útlendingalaga.

Helga Vala benti á sjálfhelduna sem útlendingalög, eftir breytingar síðasta þings, setja ákveðinn hóp umsækjenda í, til dæmis Blessing Newton, frá Nígeríu. Hún er á meðal þeirra sem fá hér ekki dvalarleyfi af mannúðarástæðum vegna þess að hana skortir lögmæt skilríki, en þyrfti þó slík skilríki til að komast af landinu:

„Af hverju eruð þið hætt að veita til dæmis mannúðardvalarleyfi?“ spurði Helga Vala. „Hver er ástæðan fyrir því að konur sem að flýja hingað undan mansali – vitið þið hvað það er? Þú ert ýmist í kynlífsþrælkun eða í annars konar þrælkun, vinnuþrælkun. Þetta fólk hefur liðið slíkar kvalir og slíkar ofsóknir og harðræði og viðbjóð, það er óskiljanlegt að við látum eins og þetta fólk þurfi ekki vernd. Það gengur ekki upp. Og við erum að segja bara nei, okkur finnst að þú eigir ekki rétt á mannúðardvalarleyfi – ekki af því að þú þurfir ekki leyfið, heldur af því að við viðurkennum ekki skilríkin þín. En við teljum hins vegar að þú sért með nógu góð skilríki til þess að við sendum þig aftur til baka. Við getum ekki sent fólk í burtu sem er ekki með skilríki. Það er bara þannig. Og ef að þú getur ekki fengið þau, eins og þarna – ef að þau gætu fengið skilríki, þá hefðu þau getað fengið hér mannúðarleyfi. Augljóslega þá geta þau ekki sótt skilríki. Mér finnst það bara blasa við. Ef að stjórnvöld viðurkenna ekki þá pappíra sem þau eru með, þá er það bara þannig. Þá eru þau bara á götunni, undir náð og miskunn einhvers …“

Bryndís spurði hver væri lausn Helgu Völu á vandanum. Helga Vala svaraði:

„Á því vandamáli að láta fólk ekki vera á götunni? Við hendum fólki ekki út á götu. Við gerum það ekki.“

Bryndís spurði: „Nei, ég meina, ertu með öðrum orðum að segja að fólk sem er í þessari stöðu eigi þá bara að fá dvalarleyfi af mannúðarástæðum?“

Og Helga Vala svaraði aftur:

„Já, það væri til dæmis góð leið, að veita fólki sem er í sárri neyð dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Af því að þegar fólk fær slíkt leyfi, þá getur það unnið fyrir sér og orðið gjaldgengir borgarar. Það er miklu ódýrara líka fyrir ríkið.“

Bryndís: „Rosalega mikilvægt að kerfið sé skýrt“

Bryndís lagði mikla áherslu á mikilvægi þess að því kerfi sem stjórnvöld koma upp væri fylgt og á því skyldu ekki vera neinar glufur. Hún sagði meðal annars:

„Ég er mjög hrædd við það að ef við ætluðum að leysa þessa stöðu með því að þeir sem væru í þeirri stöðu að hafa fengið synjun og vilja ekki fara fengju þá dvalarleyfi af mannúðarástæðum, að þá erum við búin að mölva undan því kerfi sem við erum að byggja hér upp. Þá er bara búið að finna leið fyrir alla sem vilja hér vera, þrátt fyrir það að þeir uppfylli ekki skilyrði laganna, til að fá hér dvalarleyfi. Og það er það sem við fengum ítrekað dæmi um, á hinum Norðurlöndunum, að það er rosalega mikilvægt, að kerfið sé skýrt.“

Um sjálfheldu fólks sem ekki getur sýnt gild skilríki sagði Bryndís: „Staðan semsagt í þessu tilfelli, ef ég er að skilja umfjöllunina rétt, þá snýst þetta um skilríkin. Og fólk hafi ekki verið samvinnufúst, að mati íslenskra yfirvalda, um að afla réttra og raunhæfra skilríkja. Og mér finnst það mjög eðlilegt, að þegar við erum að veita hér fólki vernd, eða dvalarleyfi, að það liggi skýrt fyrir hver viðkomandi er og hver hans bakgrunnur er.“ Helga Vala svaraði því til að sú krafa samræmdist ekki flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna: „Þar er bara viðurkennt að ef einstaklingur kemur með fölsuð skilríki þá má ekki refsa viðkomandi. Af því að það er viðurkennt að þegar þú ert á flótta, þá ertu oftar en ekki, ekki eigandi að lögmætum skilríkjum.“

Ekki einu sinni Danir ganga svona langt

Helga Vala minntist á að ekki einu sinni Danir gangi svo langt að fella niður öll réttindi umsækjenda eftir synjun, með þessum hætti:

„Og af því að Bryndís var að tala um heimsókn okkar í Allsherjar- og menntamálanefnd til Noregs og Danmerkur, þá verð ég nú að minna Bryndísi líka á það, að einmitt þar spurðum við út í þessa niðurfellingu á þjónustu. Og þar var einmitt sagt: Þetta myndi okkur aldrei detta í hug að gera, af því að við viljum einmitt ekki fá fólk sem býr bara undir brúnni. Þetta var tekið svona til orða, meira að segja hjá frændfólki okkar í Danmörku, sem er að reka hörðustu útlendingastefnu núna. Þau segja bara: við myndum aldrei gera þetta. Við viljum ekki hafa bara fólk heimilislaust á götunni. Við vitum alveg hvaða vandamál það skapar. Það skapar vandamál í löggæslu, í félagsþjónustu, sveitarfélögum, heilbrigðiskerfinu og út um allt. Og það verður bara mannúðarkrísa. Og það er það sem við erum að horfa á núna, hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Að það er bara mannúðarkrísa í uppsiglingu, af því að það er búið að henda hérna tæplega 50 manns á götuna.“

Helga Vala spurði Bryndísi ítrekað hvernig hún vildi leysa úr vanda fólksins sem um ræðir. Og Bryndís svaraði því ítrekað til að hún vildi sjá það hverfa af landinu:

„Ástæða þess að við erum að taka fólk úr þjónustu er að við erum að ýta á þá niðurstöðu að fólk fari aftur til heimalands síns.“

Endursendingarbúðir og móttökubúðir inni í myndinni

„En ef það er ekki hægt?“ spurði Helga Vala.

„Það er mat stjórnvalda í þessu tilfelli að það sé hægt,“ svaraði Bryndís. „En fólkið þurfi að sýna til þess samstarfsvilja.“

„Hvernig viltu leysa þetta?“ spurði þá Helga Vala.

Og aftur svaraði Bryndís: „Það liggur þá á því að viðkomandi einstaklingar sýni samstarfsvilja um það að hverfa aftur til síns heimaríkis.“ Loks bætti hún við:

„Það væri óskastaðan. En hitt kann að vera, svo kann að vera að við þurfum að huga að því annars vegar að setja upp einhvers konar endursendingarbúðir, ég hef líka talað fyrir móttökubúðum, og það er örugglega margt sem við eigum eftir að gera meira í þessum málaflokki.“

Endursendingarbúðir hafði þá þegar einu sinni borið á góma í máli Bryndísar sjálfrar í viðtalinu, þegar hún sagði um ferð Allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis til Danmerkur og Noregs: „Þar er komið inn á þetta, endursendingarbúðir. Danir hafa verið gagnrýndir sérstaklega fyrir það, því þær eru nú eiginlega svona ansi lokuð úrræði. Sumir hafa jafnvel líkt því við fangelsi, þó að dönsk stjórnvöld vildu nú ekki viðurkenna það þegar við vorum að spyrja þau út í það.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí