Formaður Leigjendasamtakanna, Guðmundur Hrafn Arngrímsson, segir tillögur stjórnvalda að breytingum á Húsaleigulögum vera ósvífna aðför að leigjendum og siðlausa árás á velferð þeirra, í grein sem Vísir birti í dag, föstudag. Hann skorar á lesendur að kynna sér tillögurnar og athugasemdir Leigjendasamtakanna við þær. Hann skorar um leið á innviðaráðherra að mæta sér í umræðum um málið í hvaða fjölmiðli sem býðst sem vettvangur.
Fjórða lakasta regluverk á leigumarkaði OECD-ríkja
Í greininni ber Guðmundur fram gagnrýni samhljóða þeirri sem áður hefur verið rakin í umfjöllun Samstöðvarinnar, um leið og hann greinir frá athugasemdum Leigjendasamtakanna við tillögurnar.
Guðmundur segir tillögurnar nánast fullkomna „ítrekuð svik stjórnvalda við leigjendur“. Á meðan húsaleiga hækki „sem aldrei fyrr og fordæmalaus húnsæðisskortur ríkir búa íslenskir leigjendur við fjórða lakasta regluverk á leigumarkaði af öllum aðildarríkjum OECD og á sama tíma eitt lægsta hlutfall af félagslegu húsnæði í Evrópu“. Fordæmalaus umpólun standi yfir í eignarhaldi á húsnæði, vegna uppkaupa fjárfesta og eignafólks, sem eitt og sér hafi „valdið skelfilegum áhrifum fyrir samfélagið allt“. Þannig logi rautt á öllum ljósum.
Ekkert af þessu sé hins vegar reifað að neinu marki í niðurstöðum starfshópsins sem innviðaráðherra leggi til grundvallar tillögunum. Þar sé hvorki að finna hugmyndir um kostnaðartengingu húsaleigu, takmarkanir á samningsupphæðir, leigubremsu eða aðrar þess hátta skorður við hækkunum leiguverðs, „úrræði sem hafa verið við lýði í okkar heimshluta um áratugaskeið og eru hryggjarstykkin í leigjendavernd margra landa sem þó búa við margfalt betri markaðsaðstæður en við íslendingar.“
Miða „sanngjarna húsaleigu“ við hámarks-markaðsverð
Tillögur stjórnvalda séu þvert á móti „ósvífin aðför að leigjendum og siðlaus árás á velferð þeirra“. Ekkert í þeim bæti stöðu leigjenda heldur geri þær stöðu þeirra verri en áður. Ákvæði húsaleigulaga sem þó hafa veitt leigjendum ákveðna réttarvernd til þessa séu þar að engu gerð, og snúið upp í verkfæri fyrir leigusala, enda reifi starfshópurinn „eingöngu forsendur leigusala á leigumarkaði og hvernig þeir geti athafnað sig eftir að breytingarnar taka gildi.“
Guðmundur segir að það verk hafi í reynd hafist í fyrra þegar 37. grein Húsaleigulaga um sanngjarna húsaleigu var breytt til að binda þetta hugtak, sanngjarna húsaleigu, við reiknaða markaðsleigu. Tillögurnar sem nú liggja fyrir takmarka reiknaða markaðsleigu loks við hámarks-markaðsverð, þar verði ódýrari leiga ekki reiknuð með. „Ljóstýra leigjenda er því slökkt og haldreipið orðið svipa í höndum stjórnvalda.“
Það þekkist ekki, skrifar Guðmundur, „í okkar heimsálfu að réttarstaða og kjör leigjenda séu skilyrt við jafn óheftar og skaðlegar markaðsaðstæður eins og ríkja á íslenskum leigumarkaði og markmiðið virðist vera að gera enn verri.“