Nú í upphafi ágústmánaðar tilkynnti menntamálaráðherra Póllands, Przemysław Czarnek, að hann hygðist „endurskoða frá grunni“ styrkjakerfi til háskólarannsókna. Hann dregur ekki dul yfir þann ásetning að hafa þannig áhrif á hvaða viðfangsefni teljast verðug til rannsókna og hver ekki.
Ráðherrann situr í embætti á vegum þjóðernisflokksins Lög og réttlæti, sem leitt hefur ríkisstjórn landsins frá árinu 2015. Czarnek er sér í lagi þekktur fyrir andstöðu við innflytjendur, andstöðu við réttindi kvenna og hinsegin fólks og fyrir að vera hlynntur líkamsrefsingum barna. Hann er stuðningsmaður ofur-íhaldssamrar kaþólskrar hreyfingar í Póllandi sem nefnist Ordo Iuris.
Í upphafi þessarar viku tilkynnti Czarnek um fyrirhugaða endurskoðun á styrkjakerfi til háskólarannsókna. Áformin kynnir hann fyrir almenningi með skírskotunar til rannsóknar sem hlaut nýverið styrk úr pólska rannsóknarsjóðnum NCN, og ráðherrann virðist treysta á að stuðningsmenn sínir hneykslist yfir. Yfirskrift rannsóknarinnar er „Trans kvenleiki og sadómasókismi: Tengsl og togstreita á sviði kynjaframleiðslu“. Ráðherrann og aðrir meðlimir ríkisstjórnarinnar hafa vaðið á súðum til að hæðast að viðfangsefninu.
Czarnek hefur tekið fram að skoðanir hans hafi ekki áhrif á starfsemi sjóðsins að óbreyttu. Hann ætli hins vegar að sjá til þess að ríkisstjórnin leggi fram frumvarp til að gjörbreyta styrkjakerfinu, og sú vinna muni hefjast í haust.
Fræðimenn óttast stalíníska kúgunartilburði
Rannsóknarverkefnið sem ráðherrann hefur kosið að hæðast að hlaut styrk í samkeppni sem NCN skipulagði fyrir unga fræðimenn sem lokið hafa doktorsprófi á undanliðnum þremur árum. Af 185 umsóknum hlutu 38 verkefni styrk. Anna Korzekwa-Józefowicz, talsmaður NCN, sagði í viðtali að sjóðurinn sjálfur hafi ekki afskipti af viðfangsefnum rannsóknarverkefna né mat þeirra, heldur sé matið á gæðum umsókna annast af pólskum og alþjóðlegum sérfræðingum á hverju sviði, eins og tíðkast.
Rannsóknin verður unnin á vegum stofnunar undir handleiðslu Mirosław Filiciak, prófessors við SWPS háskóla. Prófessorinn segist hafa áhyggjur af gagnrýni frá fólki sem ekki hafi getu til að leggja mat á verkefnið. „Ég vona,“ sagði hann í viðtali við Gazeta Wyborcza, „að við séum ekki að snúa aftur til þess ástands á valdatíma Stalíns, þegar fræðimenn voru í gíslingu popúlísks áróðurs, og gildi rannsóknarverkefna var ákveðið af stjórnmálamönnum í stað sérfræðinga.“
Helfararsérfræðingur kærð fyrir að móðga pólska þjóð
Eftir að Czarnek tók við embætti menntamálaráðherra árið 2019 lýsti hann því yfir að hann ætlaði sér að standa vörð um akademískt frelsi. Um leið gerði hann ljóst að hann liti svo á að það sem ógnaði því frelsi væru frjálslynd viðhorf. Síðan þá hefur hann verið ásakaður af fjölda fræðimanna um að berjast gegn frelsi þeirra sem rannsaka viðfangsefni sem stjórnvöldum eru ekki þóknanleg.
Í apríl á þessu ári hótaði Czarnek til að mynda að fella niður opinbera styrki til fræðimanna sem „móðga Pólverja, stærstu fórnarlömb seinni heimsstyrjaldar“. Tilefnið var að Barbara Engelking, forstöðumaður Miðstöðvar helfararrannsókna í Varsjá og sérfræðingur á sviðinu, hafði þá látið frá sér þau ummæli að fáir Pólverjar hefðu komið gyðingum til aðstoðar í helförinni. Annar stjórnarliði tilkynnti að hann hefði kært fræðimanninn fyrir „að móðga pólsku þjóðina“, glæp sem að pólskum lögum varðar allt að þriggja ára fangelsi. Menntamálaráðherrann tilkynnti hins vegar að hann ætlaði sér að endurskoða ákvarðanir í fjárveitingum, því hann ætlaði sér ekki að fjármagna starfsemi stofnana sem móðgi Pólverja.
Þúsund fræðimenn „teknir til skoðunar“
Í kjölfarið á þessum hótunum skrifuðu yfir þúsund fræðimenn, bæði pólskir og erlendir, undir opið bréf til stuðnings Engelking, þar sem sagði að viðbragð stjórnvalda gengi í berhögg við það frelsi háskólarannsókna sem tryggt sé í pólsku stjórnarskránni. Menntamálaráðherrann brást við bréfinu með því að segjast ætla að taka þá sem skrifuðu undir það til skoðunar, og ítrekaði áform sín um að endurskoða fjármögnun stofnana sem móðgi Pólverja.
Nú í júlímánuði voru opinber viðmið ráðuneytisins um styrkveitingar uppfærð til að auka vægi greina sem birtast í fræðiritum á sviði guðfræði.
Notes from Poland greindi frá.