Sveitarfélög og ríki kasta réttindasviptum útlendingum á milli sín með hjálp lögfræðinga

Eins og Samstöðin greindi frá í gær, fimmtudag, birti Samband íslenskra sveitarfélaga þann dag lögfræðiálit um skyldur sveitarfélaganna við þá umsækjendur um alþjóðlega vernd sem svipt hafa verið réttindum sínum án þess að ljóst sé hvort, hvenær eða hvernig þau skulu flutt frá landinu. Undanliðna viku hefur þessi réttindasvipti hópur verið í fréttum, eftir að ljóst varð að hann telur þegar tugi manns sem eru, frá og með sviptingu réttinda, á götunni. Niðurstaða lögfræðiálitsins var að sveitarfélögunum beri hvorki skylda til né sé þeim heimilt, samkvæmt lögum, að veita þessum hópi nokkra aðstoð.

Borgin vísar réttindasviptum úr neyðarskýlum

Síðar um daginn tók borgarráð Reykjavíkur til afgreiðslu erindi frá velferðarsviði borgarinnar um sama efni. Erindinu fylgdu nokkur fylgigögn, þar á meðal fyrrnefnt lögfræðiálit, yfirlýsing Samtaka sveitarfélaga á grundvelli þess og yfirlýsing Sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, þess efnis að málaflokkurinn sé ekki á ábyrgð sveitarfélaganna heldur ríkisins. Í erindi sínu til borgarráðs segist velferðarsvið taka undir það allt: ábyrgðin á velferð þessa hóps liggi hjá ríkinu en ekki borginni.

Eftir fund borgarráðs sagði formaður ráðsins, í viðtali við fréttastofu RÚV, að „á grundvelli lögfræðiálits og þeirrar stöðu sem er nú uppi“ þá hafi „þessum hópi verið vísað frá skýlunum“ og vísaði þar til neyðarskýla Reykjavíkurborgar, úrræða sem annars tryggir nauðstöddu fólki í borginni þak yfir höfuðið. Borgarstjóri tók í sama streng: „Það eru einhver brögð að því að fólk í þessari erfiðu stöðu hafi leitað til neyðarskýlanna,“ sagði hann, „en þessi hópur er alveg skýrt á vegum ríkisins“.

Það var því með fullri meðvitund um þær afleiðingar, að hópnum yrði úthýst úr neyðarskýlum borgarinnar, sem borgarráð tók þetta erindi velferðarnefndar til afgreiðslu og ályktaði á sömu leið og allir ofannefndir aðilar, að „málaflokkurinn sé á ábyrgð ríkisins“. Ekki, það er að segja, á ábyrgð borgarinnar.

Aðeins borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokksins, Sanna Magdalena Mörtudóttir, lagði fram aðra bókun: „Það er svívirðilegt,“ sagði í bókun hennar, „að við séum komin á þann stað að á meðan þolendur mansals og önnur sem hafa sótt um alþjóðlega vernd er hent á götuna vegna ómannúðlegrar stefnu ríkisstjórnar, séu ríki og sveitarfélög að rökræða um hver bergi ábyrgð á þeim manneskjum sem neyðast til að sofa úti, í tjöldum, án matar og leita að næringu í ruslagámum.“

Lögfræðiálit Forsætisráðuneytisins

Síðar þennan sama fimmtudag skilaði loks Lagastofnun HÍ lögfræðiáliti um sama efni til Forsætisráðuneytisins, og komst að einmitt öndverðri niðurstöðu: að sveitarfélögum sé „ekki rétt að synja einstaklingi um fjárhagsaðstoð af þeirri einu ástæðu að réttindi hans sem umsækjanda um alþjóðlega vernd hafi fallið niður“.

Á engu stigi ofannefndra álitsgerða og yfirlýsinga virðist nokkur ráðamaður eða ráðgjafi, hvorki á vegum ríkis né sveitarfélaga, hafa viðrað það álit að veita skuli eitthvert úrræði þegar í stað til að tryggja umræddum hópi þak yfir höfuðið þar til varanlegri lausn er fundin eða lögum breytt.

Klukkan tíu fyrir hádegi í dag, föstudag, hefur verið boðað til fundar um málið, sem nefnt hefur verið mannúðarkrísa, milli fulltrúa sveitarfélaga og fulltrúa ríkisstjórnarinnar. Gert er ráð fyrir að bæði dómsmálaráðherra og félags- og vinnumarkaðsráðherra sæki fundinn fyrir hönd ríkisins. Aðilar fundarins virðast hér um bil jafnvígir til að benda hvor á annan, vopnaðir hvor sínu lögfræðiálitinu.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí