Rekstrarhagnaður hótelkeðjunnar Íslandshótel, fyrir afskriftir, var 1.290 milljónir króna á fyrstu sex mánuðum þessa árs. Þetta kemur fram í nýbirtum árshlutareikning fyrirtækisins. Rekstrarhagnaður var á sama tímabili í fyrra um 900 milljónir. Viðskiptablaðið greinir frá þessu og ræðir við Davíð Torfa Ólafsson, forstjóra fyrirtækisins, en hann notar tækifærið til að kvarta undan verkalýðsbaráttu starfsmanna keðjunnar.
„Íslandshótel halda sókn sinni áfram eftir erfiðleika síðustu ára og við erum á áætlun með að ná vopnum okkar aftur. Þó kom ákveðið bakslag í þá vinnu þegar verkfallsaðgerðir Eflingar komu til sögunnar og höfðu þær áhrif á reksturinn á tímabilinu. […] Fjölgun ferðamanna er hins vegar áþreifanleg og við horfum bjartsýn til framtíðar,“ hefur Viðskiptablaðið eftir Davíð Torfa.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, svarar Davíð Torfa fullum hálsi á Facebook og segir Davíð Torfa einn af þeim sem neitar að borga mannsæmandi laun. „Þetta er fólkið sem neitar að borga vinnuaflinu mannsæmandi laun. Þetta er fólkið sem knúði á um verkbann Samtaka atvinnulífsins á 20.000 Eflingar-félaga. Þetta er fólkið sem ríkissáttasemjari fórnaði sér fyrir, fólkið sem ríkissáttasemjari taldi svo merkilegt að hann væri tilbúinn til að brjóta lög og svipta Eflingar-fólk sínum grundvallarmannréttindum,“ skrifar Sólveig Anna og heldur áfram:
„Þetta er fólkið sem stjórnvöld stóðu með í baráttu síðasta vetrar. Fólkið sem stjórnvöld mátu svo mikilvægt að ráðherra vinnumarkaðsmála niðurlægði sig með því að leggja bókstaflega á flótta til útlanda frekar en að hitta forystu Eflingar. Fólkið sem hefur svo mikil völd, auðvöld, í samfélagi okkar að það þurfti mótmælastöðu Eflingar-fólks við ráðherrabústaðinn til að fá 30 mínútna áheyrn með forsætisráðherra.“
Meðan Davíð Torfi horfir framtíðina björtum augum, þá má varla segja það sama um starfsmenn hans. „Þetta er fólkið sem horfir bjartsýnt til framtíðar á meðan að félagsfólk Eflingar berst í bökkum. Það er þess fullvisst að græðgin ráði ávallt för í skipan efnahagsmála þjóðfélags okkar. Og það er ekki skrítið; allt bendir jú til þess að þetta sé fólkið sem pólitísk valdaelíta hafi valið til að stjórna efnahagslífinu,“ segir Sólveig Anna.