Líklega eru fáir menn á Íslandi sem eru jafn óvinsælir meðal kjósenda Sjálfstæðisflokksins og sjónvarpsmaðurinn Gísli Marteinn Baldursson. Þar breytir engu þó hann hafi eitt sinn verið borgarfulltrúi flokksins, eftir að hann fór að berjast fyrir bíllausum lífstíl þá hefur hann verið hataður meðal sumra. Sumra sem kjósa yfirleitt Sjálfstæðisflokkinn.
Það má því með sanni segja að þegar hann hrósar Þórdísi Kolbrúnu Gylfadóttur, utanríkisráðherra og varaformanns Sjálfstæðisflokksins, þá sé það koss dauðans fyrir hana. Á Twitter hrósar Gísli henni í hástert fyrir að hafa engan áhuga á að berjast fyrir undanþágum vegna mengunarkvóta í sjóflutningum. Ákvörðun sem hefur einmitt bakað Þórdísi Kolbrúnu óvinsældir innan flokksins.
„Mér finnst Þórdís Kolbrún skipta miklu máli í íslenskri pólitík. Leiðtogi hægrafólks sem vill frjálslynt samfélag, trúir á loftslagsbreytingar af mannavöldum og mér virðist hún ekki hrifin af íhaldsstefnu öfgahægriflokka ólíkt ansi mörgum á hægri vængnum,“ skrifar Gísli Martein.
Margir hafa litið svo á að Þórdís verði nánast sjálfkjörin sem formaður Sjálfstæðisflokksins eftir að Bjarni Benediktsson stígur úr stól. Það hlýtur að teljast talsvert ólíklegra eftir óvinsælar ákvarðanir hennar, meðal grasrótar flokksins, sem utanríkisráðherra.