Tugþúsundir rita drepast við strendur Íslands og Noregs – ríkin gera ekki nóg til verndar

Tugþúsundir rita drápust á suðvesturhorni landsins í byrjun sumars, án þess að fundist hafi á því skýringar. Í norðurhluta Noregs hafa ritur einnig drepist í þúsundatali í ár, vegna fuglaflensu. Sölvi R. Vignisson, vistfræðingur við þekkingarsetur Suðurnesja, segist telja líklegt að sama orsök liggi að baki hér. Hann tekur undir með samtökunum Birdlife International, sem segja stjórnvöld í Noregi bregðast villtum stofnum með því að einbeita sér fyrst og fremst að því að hindra útbreiðslu meðal alifugla á við kjúklinga.

15 þúsund dauðar ritur í Noregi

Bráðsmitandi fuglaflensa dreifir nú í sér meðal villtra fugla í Finnmörku, í norðurhluta Noregs, segir í tilkynningu sem samtökin Birdlife International sendu frá sér á miðvikudag. Tilkynnt hefur verið um 15 þúsund dauðar ritur í sveitarfélaginu Vadsø á undanliðnum þremur vikum. Áfallið fyrir stofninn er nógu verulegt til að hann gæti færst úr flokki þeirra tegunda sem teljast í hættu í Noregi til þeirra sem eru í bráðri hættu. Samtökin segja að umhverfisyfirvöld hafi þó enn ekki gripið inn í.

Í umfjöllun á vefsíðu samtakanna segir að stórir faraldrar fuglaflensu meðal villtra evrópskra stofna séu því miður orðnir tíðir. Nefnd eru dæmi frá síðasta ári, bæði frá Bretlandi og ströndum Noregs.

Dauðar og deyjandi ritur á húsþaki í Finnmörku, Noregi.

Í Noregi, segir í umfjöllun samtakanna, snúa áhyggjur stjórnvalda þó fyrst og fremst að því að sjúkdómurinn berist ekki í alifugla, það er kjúklinga, endur og gæsir, sem gæti þá leitt til verulegs fjárhagstjóns eigendanna. Af þeim sökum hefur ígildi Matvælaeftirlitsins þar í landi, ásamt Landbúnaðar- og matvælaráðuneyti, verið falið að hafa eftirlit með flensufaraldrinum. Samtökin benda á að fuglarnir sem séu þegar í reynd að þjást séu sjófuglar á við riturnar. Þau segja að besta leiðin til að forðast útbreiðslu meðal alifugla sé að koma í veg fyrir faraldurinn meðal villtra fugla, næstbesta leiðin sé að stöðva hann þar sem hann er til staðar.

Fulltrúar Birdlife í Noregi hafa skorað á stjórnvöld að gera Umhverfisráðuneyti og Umhverfisstofnun landsins ábyrg fyrir harmleiknum sem nú vindi fram. Norsk stjórnvöld verði að vernda náttúruna, ekki aðeins ágóða.

Tugþúsundir dauðra rita á Íslandi

Sölvi Rúnar Vignisson segir að umfjöllun Birdlife International um stöðuna í Noregi mætti heimfæra, nánast orð fyrir orð, upp á Ísland. Í fyrsta lagi ástand ritunnar:

„Ég hef verið að skoða þetta á litlum skala, taka sýni og átta mig á því hvað er í gangi,“ segir hann, en Sölvi starfar sem fyrr segir við þekkingarsetur Suðurnesja. „Hér er mjög mikið fuglalíf og við höfum verið að tína upp þúsundir rita. Lundinn hefur ratað meira í fjölmiðla, enda túristavænn fugl, en ritan virðist hafa fengið þyngsta höggið.“

Fuglaflensa hefur ekki greinst í þessum dýrum?

„Nei. Matvælastofnun tók sýni, meira að segja fleiri en þau eiga að gera, til að átta sig á því hvort það er fuglaflensa í ákveðinni tegund á ákveðnu svæði. Svo ef það drepast tíu þúsund súlur á Faxaflóa og þau finna fuglaflensu í einum fugli á suðvesturhorni, þá hætta þau að taka sýni. En það gefur okkur enga upplausn um hvaða sjúkdómar þetta eru, hvaða flensa, hvaða stofnar, hvort þetta er fleiri en einn stofn. Og hvort þetta er bráðsmitandi flensa eða ekki. Og það er ekki búið að greinast. Ég veit ekki hvernig þeir skima fyrir akkúrat þessari flensu. En mér finnst rosalega skrítið, ef það eru gríðarlega margar ritur sérstaklega að drepast í Finnmörku, úr bráðsmitandi flensu, og við erum að sjá gríðarlegan fugladauða í öllum aldursflokkum hérlendis, að það sé ekki inflúensa finnst mér bara mjög ólíklegt.“

Ritur úr Faxaflóa.

Hver er þá staðan á íslenska stofninum? Í Noregi virðist að hann verði færður úr hættu í bráða hættu?

„Já, það er nefnilega málið, ritan er ein af þeim fuglum þar sem hefur verið vaktaður þokkalega vel. Það er talið í björgum, eftir sniðum sem voru sett upp fyrir næstum 40-50 árum síðan. Þannig að við erum með samanburði milli ára. Þetta eru varpfuglar, þetta gefur mynd af því hvernig varpið stendur sig, en heilt yfir þá kom það mjög illa út í ár. Sem er mjög eðlilegt, því magnið af fuglum sem voru að drepast bara hér á Reykjanesskaga eða í Suðurnesjabæ skipti þúsundum. Og við erum að finna dauða fugla alveg upp að Mýrum, svo það má uppreikna í tugþúsundir rita, sem er gríðarlega mikið.“

Stofnanir skortir tól og dýralækna villtra dýra

„Ég ætla alls ekki að lasta íslenskar stofnanir,“ segir hann. „Það sem að mér finnst vera vandinn er, eins og í grein Birdlife International, sem hittir naglann á höfuðið, þá eru íslenskar stofnanir með lög og reglur um hvað þær eiga að gera. Fyrst fór í taugarnar á mér að Matvælastofnun væri ekki að gera meira í þessum málum. Svo áttaði ég mig á að þetta er bara ekki á þeirra sviði. Ástæða þess að þeir eru að skoða þessa fuglaflensu er bara að minnka líkurnar á að þetta fari í kjúklinga. Þar liggur þeirra hugsun. Það sem vantar bara í íslenskt samfélag og stjórnsýslu er í fyrsta lagi að það séu dýralæknar með sérsvið í villtum dýrum, og að hvaða stofnum þeir eiga að einbeita sér. Það eru allir af vilja gerðir, bæði Matvælastofnun og Náttúrufræðistofnun, en þau hafa engin tól í sínu vopnabúri til að takast á við þessa hluti. Þeim er allt naumt skammtað nú þegar.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí