Útvarpssendingar Samstöðvarinnar verða á fm 89,1

Fjölmiðlar 13. ágú 2023

Samstöðin er að safna fyrir útvarpssendingum og mun hefja útsendingu þegar 150 nýir áskrifendur hafa bæst við. Söfnunin hófst fyrir viku og á þeim tíma hafa 56 nýir áskrifendur bæst við. Það stefnir því í að útsendingar hefjist fyrir lok mánaðar.

„Samstöðin er fyrst og fremst rekin fyrir áskriftir og styrki frá fólki og félögum,“ segir Gunnar Smári Egilsson ritstjóri. „Við höfum haft þá reglu að leggja ekki út í neinn kostnað án þess að eiga fyrir honum fyrirfram. Það fylgir því kostnaður að útvarpa efni Samstöðvarinnar sem nemur 150 áskriftum. Við þurfum því að safna þeim áskriftum áður en við hefjum útsendingar. Þegar þær eru komnar þá byrjar útvarp Samstöðvarinnar á fm 89,1“

Að sögn Gunnars Smára hafa 56 nýjar áskriftir bæst við eftir að söfnunin hófst fyrir viku, eða ígildi þeirra. Áskrifendur velja hvort þeir borga 2.000 kr., 4.000 kr. eða 8.000 kr. á mánuði. Til samanburðar er full áskrift að Morgunblaðinu 9.490 kr. á mánuði og 3.890 kr. að Heimildinni.

„Áskrifendur Samstöðvarinnar fá þó ekkert meira en aðrir,“ segir Gunnar Smári. „Þeir fá allt efni Samstöðvarinnar, bæði það sem birtist á fréttavefnum samstodin.is og þættina sem sendir eru út á Facebook og youtube og bráðum líka í útvarpi. En þetta geta aðrir líka lesið og séð. Þetta hljómar kannski undarlega, en er það ekki þegar betur er skoðað. Fjölmiðilinn sem þú notar er betri því fleiri sem lesa hann. Áskrifendur eru því betur settir ef þeir styðja líka annað fólk til að lesa, horfa og hlusta líka.“

Hægt er að velja áskrift hér: Áskrift. Þau sem vilja styrkja Samstöðina til að hefja útvarpssendingar geta líka lagt beint inn á reikning Alþýðufélagsins: Bankanúmer: 1161-26-001669 Kennitala: 550891-1669. Alþýðufélagið er félag áskrifenda Samstöðvarinnar, sem er eigandi Samstöðvarinnar.

„Það er því kannski ekki rétt að áskrifendur fái ekkert umfram aðra,“ leiðréttir Gunnar Smári sjálfan sig. „Áskrifendur eignast vaxandi fjölmiðil, líklega þann mest vaxandi þessar vikur og mánuði.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí