Í Viðskiptamogganum, sem kemur út á miðvikudögum, birtist í dag viðtal við Guðmund Magnason, framkvæmdastjóra Inkasso-Momentum, félags sem varð til, eins og nafnið gefur til kynna, við sameiningu innheimtufyrirtækjanna Inkasso og Momentum. Þar kemur fram að vanskil hafi minnkað og ágóði af innheimtu því dregist saman á meðan sóttvarnir og önnur viðbrögð stóðu hæst í heimsfaraldrinum, en geirinn sé nú að rétta úr kútnum: félögin hafi sitt í hvoru lagi velt samtals 421 milljón í fyrra, en geri ráð fyrir hálfs milljarðs veltu í ár.
„Það má segja að það hafi orðið ákveðnar hamfarir í innheimtubransanum í faraldrinum,“ hefur blaðið eftir Guðmundi. „Tekjur þessara fyrirtækja hrundu en fólk greiddi niður skuldir og vanskil voru í sögulegu lágmarki.“
Þá kemur fram að þessi samdráttur í vanskilum hafi leikið stóran þátt í ákvörðun um sameiningu fyrirtækjanna: „Samdráttur í tekjum vegna farsóttarinnar átti óneitanlega mjög stóran þátt í að ákveðið var að kýla á sameiningu Inkasso go Momentum. Eitthvað þurfti að gera,“ segir Guðmundur.
En það eru ekki aðeins aukin umsvif og neysla, eftir niðurfellingu sóttvarna, sem auka vanskil, heldur hefur hækkandi vaxtastig um þessar mundir einnig jákvæð áhrif á innheimtugeirann: „Greiðsluráðgjafar okkar eru farnir að sjá nýtt fólk detta inn sem hefur ekki verið í vanskilum áður sem gefur til kynna að hækkandi vextir séu farnir að hafa áhrif.“
Samkvæmt Guðmundi er innheimtustarfsemi um þessar mundir að taka nokkrum breytingum, með sjálfvirknivæðingu og útvistun til annarra landa: „Við sáum tækifæri til að auka skilvirkni með nýrri tækni. Reksturinn er að þróast út í fjártækni. Við höfum verið að styrkja þá innviði og settum í því skyni upp teymi forritara í borginni Natal í Brasilíu. Til lengri tíma litið skapar það verðmæti fyrir alla.“