Á þriðjudag tóku gildi lög í Arkansas-fylki Bandaríkjanna sem heimila börnum undir 16 ára aldri að vinna launavinnu án þess að sækja til þess um atvinnuleyfi, eins og áður var krafist.
Löggjöfin er aðeins ein af mörgum sem tekið hafa gildi víðsvegar um Bandaríkin á undanliðnum mánuðum, til að liðka fyrir atvinnuþátttöku barna. Þann 1. júlí tóku gildi lög í Iowa sem veita unglingum undir vissum aldri undanþágu til að starfa við hættulegar aðstæður, til dæmis við framleiðslustörf og kjötkæla. Þá er þeim nú heimilt, að fengnu leyfi frá foreldri, til að framreiða áfengi, sem þar til á þessu ári var bannað allt að 21 árs aldri. Með sömu lagabreytingu var börnum undir 16 ára aldri leyft að vinna allt að sex klukkustunda langa vinnudaga á skóladögum, en áður takmarkaðist leyfileg vinna barnanna við fjórar stundir á dag. Wisconsin liðkaði fyrir atvinnuþátttöku barna með lögum sem tóku gildi í maí, og heimila meðal annars börnum að framreiða áfenga drykki frá 14 ára aldri, í stað 18 ára áður. Þetta kemur fram í umfjöllun Al Jazeera.
Svar við lágu atvinnuleysi
Í nýlegri umfjöllun CNN um atvinnuþátttöku barna í Bandaríkjunum er nefnt til skýringar að atvinnuleysi í Bandaríkjunum sé nú í sögulegu lágmarki, eða um 3,6 prósent. Svo lágt hlutfall atvinnulausra þýði skort á vinnuafli, einkum í láglaunastörf. Í viðtali við fréttamiðilinn segir David Weil, prófessor við Brandeis háskóla, að oft hafi vinnumarkaðurinn seilst eftir börnum til að svara skorti á vinnuafli, en það séu þó nýmæli um þessar mundir að fyrirtæki séu staðin að því að ráða börn til hættulegra verksmiðjustarfa, eins og nú séu fjölmörg dæmi um. Þannig fundust á síðasta ári börn að störfum við verksmiðjur í Alabama, sem framleiða meðal annars fyrir bílaframleiðendurna Hyundai og Kia. „Þetta eru störf sem engum undir 18 ára aldri hefur leyfst að vinna við síðan 1938“, sagði Weil.
Aukið frelsi í fjórtán fylkjum
Missouri, Ohio, Suður-Dakóta, Nebraska – alls hafa á undanliðnu ári verið lögð fram frumvörp til að minnka skorður við atvinnuþátttöku barna eða slík frumvörp þegar hlotið afgreiðslu og orðið að lögum í fjórtán fylkjum Bandaríkjanna. Á sama tíma virðist Biden-stjórnin vilja sporna gegn þessari þróun innan fylkjanna með auknu sameiginlegu eftirliti og hertum viðurlögum þegar alríkislög um vinnuvernd barna eru brotin. Dauðsföll barna við störf í Bandaríkjunum á þessu ári hafa kallað á viðbrögð Vinnumálaráðuneytisins (Department of Labor), en alls hafa þrjú börn látist svo vitað sé: Duvan Tomas Perez lést við störf í sláturhúsi í Mississippi í nýliðnum júlí-mánuði, Michael Schuls lést við störf við sögunarmyllu í Wisconsin í júní og Will Hampton við störf við landfyllingu í Missouri, einnig í júní. Þeir voru allir 16 ára gamlir.
Nýju lögin í Arkansas eru ein af 890 lögum og lagabreytingum sem tóku gildi í fylkinu þann dag, en allar samþykktir löggjafarþings fylkisins taka að jafnaði gildi á sama degi, 91 dögum eftir þinglok. Sama dag og börnum undir 16 ára aldri var veitt aukið frelsi til atvinnuþátttöku án sérstaks leyfis tóku því einnig gildi lög sem krefja börn allt að 18 ára aldri um leyfi frá foreldrum til að opna eigin reikninga á samfélagsmiðlum.