Donald Trump myndi hafa betur í forsetakosningum gegn Joe Biden, ef miða má við nýja bandaríska skoðanakönnun. Samkvæmt henni myndu 51 prósent skráðra kjósenda greiða Trump atkvæði sitt en 49 prósent myndu kjósa Biden. Forsetakosningar fara fram 5. nóvember vestanhafs.
Könnunin var gerð dagana 5. til 15. febrúar af Marquette lögfræðiskólanum. Þegar tekið var tillit til hugsanlegra kjósenda, sem ekki eru skráðir nú þegar, jukust sigurlíkur Trumps, 52 prósent kjósenda myndu þá greiða honum atkvæði sitt.
Hins vegar kom einnig í ljós að ef Nikki Haley hefur betur gegn Trump í forvali Repúblikanaflokksins myndi hún bera enn öruggari sigur úr býtum. Alls myndu 58 prósent greiða henni atkvæði sitt en 42 prósent Biden. Hins vegar hefur Trump töluvert forskot á Haley í forvalinu. Í könnuninni voru þannig óákveðnir kjósendur spurðir um hvaða frambjóðenda þeir myndu vilji sjá fara fram fyrir Repúblikanaflokkinn og svöruðu 73 prósent því til að þeir vildu að það yrði Trump en aðeins 15 prósent nefndu Haley.
Þátttakendur sögðu, þegar þeir voru spurðir um afstöðu sína í ýmsum málum, að þeir treystu Trump betur í innflytjendamálum, varðandi landamæraeftirlit og efnahagsmál, á meðan Biden væri betur treystandi í málum er vörðuðu þungunarrof, heilbrigðismál og félagsleg réttindi.