Viðskiptablaðið heldur áfram að gagnrýna Bjarna frá hægri

„Rauði þráðurinn í þessu ríkisstjórnarsamstarfi hefur verið gegndarlaus útgjaldaaukning,“ skrifar leiðarahöfundur Viðskiptablaðsins, en blaðið hefur reglulega og af vaxandi þunga gagnrýnd fjármálastjórn Bjarna Benediktssonar frá hægri.

„Vissulega var hægt að rökstyðja að ríkið dreifði silfrinu meðan á heimsfaraldrinum stóð og allt var á huldu um efnahagslegar afleiðingar hans. Vandinn er bara sá að ríkisstjórn Katrínar hélt áfram á sömu braut eftir að faraldrinum lauk. Þetta hefur verið gert með fullum stuðningi þingflokks Sjálfstæðisflokksins,“ stendur í leiðaranum. „Þrátt fyrir mikla þenslu í hagkerfinu og þráláta verðbólgu hafa stjórnvöld ekki gert neitt annað en að stíga á bensíngjöfina þegar kemur að útgjöldum ríkissjóðs. Þannig má nefna að á tveimur árum frá útgáfu fjármálaáætlunar árið 2021 til útgáfu fjármálaáætlunar árið 2023, hafa væntingar ríkissjóðs um heildarútgjöld á árinu 2025 aukist um 24 prósent.“

Blaðið bendir á að mikill halli sé á rekstri ríkissjóðs og verði áfram á næstu árum samkvæmt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Allar líkur séu á því að hallinn verði mun meiri en núverandi ríkisfjármálaáætlun gerir ráð fyrir. Skatttekjur ríkisins hafi aukist verulega í þeirri miklu þenslu sem ríkt hefur og viðbúið sé að þær lækki þegar dregur úr umsvifum í hagkerfinu. Þess sjást nú þegar merki að vaxtahækkanir Seðlabankans eru farnar bíta á og þegar fram í sækir mun það hafa áhrif á skatttekjur ríkisins.

„Þessi hallarekstur er meðal annars tilkominn vegna framgöngu ráðherra og þingmanna ríkisstjórnarflokkanna sem einkennist af því hugarfari að lausn alls vanda felist í auknum ríkisútgjöldum. Sumir ráðherrar virðast ekki geta farið gegnum einn vinnudag án þess að lofa meiri útgjöldum. Aldrei er spurt hvort útgjaldaaukningin skili betri þjónustu eða hvort hún auki skilvirkni,“ skrifar Viðskiptablaðið.

Og í lokin eru þingmenn og forysta Sjálfstæðisflokksins ávörpuð frá hægri: „Það er fyrir löngu tímabært að þingmenn flokksins staldri við og íhugi fyrir hvað sjálfstæðisstefnan stendur í efnahagsmálum.“

Halli ríkissjóðs í miklu góðæri atvinnufyrirtækja, ofþenslu í ferðaþjónustu og verðbólgu er á allan mælikvarða einstaklega heimskuleg efnahagsstjórn. Og það er ekki gert af kröfu vinstrisins eins og Viðskiptablaðið lætur í veðri vaka. Það er hins vegar munur á afstöðu hægri og vinstri til hvernig hallinn verði unninn upp. Bæði vinstrið og hægrið vill stöðva bruðl og stjórnlausa eyðslu ráðherra og ráðafólks í sjálft sig. Hægrið vill hins vegar skera niður framlög til velferðarmála og grunninnviða, nýta verðbólguna og hallann til að hætta þjónustu eða einkavæða hana. Vinstrið vill hins vegar sækja fé til fjármagns- og fyrirtækjaeigenda til að fjármagna óbreytta þjónusta og þróa hana svo hún veiti betri þjónustu.

Auðvitað eru línurnar ekki svona skýrar á þingi. Þar er fólk og flokkar sem taka ekki afstöðu út frá hugmyndafræði eða skýrri greiningu á átökunum í samfélaginu, heldur reyna að slá keilur í hverju máli með við því að segja eitthvað sem fellur í kramið hjá almenningi. Fólk segist þá vilja auka útgjöld en lækka líka skatta, almennt og yfirleitt. Bjarni Benediktsson er í þessum hópi, stærir sig af því að hafa lækkað skatta á sama tíma og hann eykur útgjöldin. Það má t.d. sjá í frétt sem dreift er á vegum Sjálfstæðisflokksins, sjá hér: Margt verið gert til að lækka skatta. Þarna er hann að gera það sama og Liz Trust var gagnrýnd fyrir, að lækka skatta út á aukna skuldsetningu.

Niðurstaðan verður sú sem Viðskiptablaðið bendir á, hallinn vex, fjármagnskostnaður ríkissjóðs stefnir í að verða helsti útgjaldaliðurinn og hendur næstu kynslóða eru bundnar, þær verða dæmdar til að borga eyðslu Bjarna og félaga dýru verði, annað hvort með hærri sköttum eða lakari þjónustu. Hallinn í dag er ávísun upp á verra samfélag í framtíðinni, nánast glæpur gagnvart komandi kynslóðum.

Og hér verður að benda á að halli Bjarna er umframeyðsla, ekki fjárfesting. Það er allt í lagi og getur verið hið besta mál að auka skuldir ríkissjóðs ef féð fyrir í fjárfestingar sem munu gera samfélag framtíðarinnar sterkara svo það geti vel staðið undir endurgreiðslu lána og gott betur. Skuldsetning vegna uppbyggingu innviða og grunnkerfa samfélagsins er þannig góð ráðstöfun sem styrkir framtíðarsamfélagið. Eyðsla Bjarna er bara alls ekki þar.

Bjarni er ekki einn um að halda því að almenningi að hægt sé að læka skatta og auka eyðslu á sama tíma, heldur á þetta við um stærsta hluta stjórnarandstöðunnar. Hún bendir á þörf á auknum útgjöldum og gerir það stundum ágætlega, þörfin er brýn og það er nóg að benda á hana til að fólk sjái hversu heimskulegt það er að fjársvelta nauðsynlega þjónustu. En þegar talið berst að skattahækkunum þá vefst þessu fólki tunga um tönn og orðavalið breytist. Vísað er til einhverjar hækkunar veiðigjalda, hóflegrar álagningu auðlegðarskatts o.s.frv.

Það er rétt hjá Viðskiptablaðinu að halli á ríkissjóði í verðbólgu og þenslu er alvarleg hagstjórnarmistök. Umræðan um þennan vanda á þingi nær hins vegar ekki að draga umræðuna að meginatriðum málsins, hvort fari eigi leið Viðskiptablaðsins og taka upp sveltistefnu gagnvart opinberri þjónustu og innviðum og nota veikinguna til að skapa stemmingu fyrir víðtækri einkavæðingu, annars vegar að selja Landsvirkjun og verðmæt fyrirtæki upp í skuld eða einkavæða stærri hluta heilbrigðiskerfisins. Eða að hækka aftur skatta á fjármagn og fyrirtæki, fyrst svo þeir séu sambærilegir og á Norðurlöndunum og svo í átt að því sem áður var í okkar heimshluta, á þeim tíma þegar velferð og innviðir voru byggðir upp á skattkerfi þar sem þau efnameiri borguðu mest og fyrirtæki og fjármagn greiddu til samfélagsins fyrir þá aðstöðu og tækifæri sem samfélagið færði þeim.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí