Stéttarfélagið Efling hóf í vikunni birtingar á auglýsingum undir yfirskriftinni „Hvernig getum við réttlætt þetta?“ Auglýsingaherferðin byggir á könnun sem gerð var meðal félagsfólks ASÍ og BSRB á vegum Vörðu, Rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins, fyrr á þessu ári.
Í könnuninni kemur fram að félagsmenn Eflingar eru í erfiðari stöðu en meðlimir annarra stéttarfélaga í samhengi við afkomu, húsnæðiskostnað, fjárhagsþrengingar, álag og heilsufar og réttindabrot á vinnumarkaði, segir í fréttatilkynningu Eflingar.
Húsnæðiskostnaður Eflingarfólks tekur meira en helming af öllum ráðstöfunartekjum þeirra, segir þar, og festist sívaxaandi hópur félagsmanna á leigumarkaði. Rúmur þriðjungur félagsfólks Eflingar býr samkvæmt könnuninni í eigin húsnæði, en 46,5% á almennum leigaumarkaði. 9,4% félagsfólks Eflingar býr hjá foreldrum eða ættingjum.
Um leið og aðeins þriðjungur Eflingarfólks myndar eign með mánaðarlegum greiðslum fyrir húsnæði en meirihluti greiðir leigu, þá er húsnæðiskostnaður þyngri byrði hjá þessum hópi en hjá öðrum á leigumarkaði. Þannig segja rúm 30% félagsmanna allra stéttarfélaga að húsnæðiskostnaður sé þung byrði, en yfir 50% félagsfólks Eflingar.
60% Eflingarfólks á erfitt með að ná endum saman, ýmist nokkuð, erfitt eða mjög, en það hlutfall er um 40% meðal félagsfólks annarra stéttarfélaga. Staðan er enn erfiðari meðal kvenna í stéttarfélaginu en karla, en 63% Eflingarkvenna á samkvæmt könnuninni erfitt með að ná endum saman. Meira en helmingur þeirra „er að sligast“ undan húsnæðiskostnaði. Og meirihluti Eflingarkvenna, eða 55%, getur ekki mætt óvæntum 80.000 króna útgjöldum.