Á Húsnæðisþingi á Hilton kynntu stjórnvöld áform um örvæntingu og félagslegar hamfarir

Á miðvikudag hélt Innviðaráðuneytið, í samstarfi við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, viðburð sem þau nefndu Húsnæðisþing. Viðburðurinn fór fram í salarkkynnum hótelsins Hilton Reykjavík Nordica. Þar voru „mörg erindi flutt um stöðu og framtíð húsnæðismála, eingöngu af fulltrúum stjórnvalda og peningaaflanna,“ segja talsmenn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ). Þar kynnti ráðherra drög að „fyrstu heildarstefnu í húsnæðismálum til 15 ára og aðgerðaáætlunar til 5 ára. Drögin, nefnd Hvítbók um húsnæðismál, má nú finna í samráðsgátt stjórnvalda, þar sem hún er opin til athugasemda.

Í kynningu á þessari skýrslu eru lögð fram sjö lykilviðfangsefni. Efst á blaði er „Stöðugleiki á húsnæðismarkaði þar sem fjölbreytt framboð íbúða mæti þörf“. Fimmta viðfangsefnið er „Markviss húsnæðisstuðningur sem er afmarkaður við þau sem standa höllum fæti á húsnæðismarkaði“ og það sjötta: „Aukið húsnæðisöryggi leigjenda og bættar rauntímaupplýsingar um leigumarkaðinn“. Innan um þessi þrjú má finna slagorð á við „skilvirka stjórnsýslu“, „sérhæfðar lausnir“, „sjálfbæra þróun“ og svo framvegis.

Sjötta viðfangsefnið, aukið húsnæðisöryggi leigjenda, er það fyrsta sem hefur fengið viðbragð á vettvangi fjölmiðla. Í Vísi birtust á fimmtudag tvær greinar þar sem áform stjórnvalda á þessu sviði eru gagnrýnd harðlega.

Stjórnvöld auka á örvæntingu og félagslegar hamfarir

„Skriðið heim í lok dags“ er yfirskrift greinar eftir Guðmund Hrafn Arngrímsson, formann Leigjendasamtakanna. Hann vekur athygli á því að Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, hafi á Húsnæðisþinginu sagt það vera „grundvöllur alls í okkar lífi að geta skriðið heim í lok dags í rúmið, í húsnæði sem maður hefur aðgang að“. Með þessum orðum, segir guðmundur, „náði hann umorða og smætta bæði lögfest mannréttindi, réttinn til viðeigandi húsnæðis og lögbundnar skyldur ríkis og sveitarfélaga í húsnæðismálum með nokkuð merkilegum hætti. Heimilið er hornsteinn fjölskyldunnar, en ekki bara rúm í húsnæði sem maður hefur aðgang að … þannig er gistiskýlum lýst“.

Guðmundur tiltekur að Sigurður Ingi hafi lagt áherslu á að stjórnvöld einsettu sér að byggðar verði 35.000 íbúðir á næstu árum „en að ríkið ætlaði sér alls ekki að taka það að sér“. Hver á þá að gera það, spyr Guðmundur og segir: „Það hefur sýnt sig á undanförnum átta árum að fjármálavæddur húsnæðismarkaður er ekki að fara að uppfylla óskhyggju stjórnvalda um stórátak í húsnæðisuppbyggingu. Þrátt fyrir að ríki og sveitarfélög séu skuldbundin til að tryggja framboð á húsnæði, jafnræði og öryggi í húsnæðismálum þá er það ekki leiðarstef þeirra fjármálaafla sem eru allsráðandi á húsnæðismarkaði.“

Svipmynd frá Húsnæðisþingi sem haldið var á Hilton Reykjavík Nordica 30. ágúst 2023.

Guðmundur segir að á Húsnæðisþinginu hafi Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka Iðnaðarins, snuprað innviðaráðherra „með því að sýna fram á með rauntölum að ekki væru nokkrar líkur á að markmið stjórnvalda næðust.“ Framleiðsla á húsnæði hafi dregist hratt saman undanfarin misseri og „eftir tvö ár verða ekki nema tæpar tvö þúsund íbúðir tilbúnar á ári, sem er innan við helmingur af því sem húsnæðisátak stjórnvalda gerir ráð fyrir.“ Eftir sem áður hafi fulltrúar stjórnvalda á Húsnæðisþinginu virst vilja „fremur lifa í blekkingu ráðherrans en að takast á við raunveruleikann sem þó birtist ljóslifandi á breiðu tjaldinu.“

Allt í allt sagði Guðmundur að þær skýru áætlanir sem stjórnvöld segist nú vera með, feli í sér skýra niðurstöðu: „að auka á örvæntingu og félagslegar hamfarir.“

Sjónhverfingar um vilja leigjenda

Í greininni „Sjón­hverfing á ís­lenskum leigu­markaði í boði Sam­taka iðnaðarins“ sem birtist sama dag skrifa formaður og verkefnastjóri Húsnæðishóps ÖBÍ að aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins hafi á Húsnæðisþinginu flutt „feikna góða sjónhverfingu þar sem hann sýndi áhorfendum tölfræðigögn um viðhorf leigjenda á húsnæðismarkaði.“

Hagfræðingurinn hafi borið fram gögn um 21% íbúa landsins séu á leigumarkaði en af þeim vilji aðeins 10% leigja, 72% séu þar af illri nauðsyn. „Niðurstaða SI var því sú að áherslur um aukna innspýtingu í stofnframlög og uppbyggingu félagslegs húsnæðis fari gegn þörfum og vilja fólksins. Draga ætti úr vægi leiguíbúða með aðkomu hins opinbera og setja aukinn kraft í íbúðir á séreignamarkaði.“

Greinarhöfundar benda á að þessi ályktun stangist á við ýmsar staðreyndir málsins. „Íslenskur leigumarkaður er mjög frábrugðinn leigumörkuðum flestra OECD ríkja,“ skrifa þau, „í ljósi þess að meirihluti leigjenda hér á landi leigir af einstaklingum á almennum markaði en ekki af hinu opinbera, almennum leigufélögum eða leigufélögum sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni.“

Stjórnvöld hyggjast veikja leigumarkaðinn enn frekar

Höfundarnir segja að sú staðreynd vegi þungt „þegar horft er til séreinkenna íslenska leigumarkaðarins sem einkennist af fjölda skammtíma leigusamninga, skorti á fyrirsjáanleika um þróun leiguverðs með tilheyrandi regluleysi og óstöðugleika á leigumarkaði.“ Því sé ekki skrítið að um 72% leigjenda kjósi sér ekki slíkt óöryggi. „Það styður hins vegar ekki þá niðurstöðu,“ skrifa þau, „að best sé að setja aukinn kraft í uppbyggingu séreignarhúsnæðis og veikja leigumarkaðinn enn frekar. Rétt niðurstaða er fyrir hið opinbera að beita sér markvisst fyrir því að íslenskur leigumarkaður þróist í átt að aukinni hlutdeild sveitarfélaga og leigufélaga, bæði almennra og óhagnaðardrifinna á íbúðamarkaði.“

Stór hluti fatlaðs fólks er á leigumarkaði, kemur fram í greininni: 44% fatlaðs fólks er ýmist á leigumarkaði eða í „öðrum búsetuúrræðum“. Óöryggi á leigumarkaði veldur þannig sérstaklega miklum vanda í þeim hópi. „Fjölbreytt framboð af aðgengilegu húsnæði á viðráðanlegu verði, bæði á leigumarkaði sem og séreignamarkaði er grundvallarþáttur í búsetuöryggi jaðarsettra hópa. Því er brýnt að skapa fjölbreyttan, heilbrigðan og öruggan leigumarkað sem er raunverulegur valkostur á íslenskum húsnæðismarkaði.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí