Andúð í garð flóttafólks tekur fordæmalaust stökk milli ára

Samkvæmt nýrri skoðanakönnun Maskínu líta um sextíu prósent landsmanna nú svo á að of margir flóttamenn séu á landinu eða tvöfalt fleiri en á undanliðnum árum. Þetta kom fram í frétt Vísis og Stöðvar 2 á þriðjudag. Um þúsund manns tóku þátt í könnuninni.

Tvöföldun andúðar frá 2022

Spurt var: „Telur þú að fjöldi flóttafólks sem fær hæli á Íslandi sé of mikill, hæfilegur eða of lítill, eins og staðan er í dag?“

Í fréttinni kemur fram að tvöfalt fleiri líti nú svo á að þessi fjöldi sé of mikill en í könnunum sem gerðar hafa verið á viðhorfum til flóttafólks frá árinu 2017. Allt fram á síðasta ár litu aðeins um 27% spurðra svo á að fjöldinn væri of mikill, og hafði þá legið milli 24% og 32% frá því kannanir hófust. Samkvæmt því hefur þeim með skyndingu fjölgað meira en tvöfalt á milli ára sem telja of margt flóttafólk fá vernd á Íslandi. Að sama skapi hefur þeim fækkað um næstum helming milli ára sem líta svo á að of fáir hljóti hér vernd, úr 31% 2022 í 17% nú. Sama á við um þau sem líta á fjöldann sem hæfilegan, hann skrapp saman um nær því helming milli ára, úr 43% í 23%.

Súlurit úr frétt Stöðvar 2 sýnir skyndilega fjölgun þeirra sem telja of margt flóttafólk fá vernd á Íslandi.

Einhver hluti þessarar andúðar er ef til vill í takt við vaxandi andúð innfæddra á aðkomufólki yfirleitt. Í ágúst birti Maskína könnun þar sem kom í ljós að fleiri Íslendingar hafa nú neikvæð viðhorf til ferðamanna en fyrr. Aukning neikvæðra viðhorfa er líka veruleg á því sviði milli ára. Þó er þar um allt aðrar stærðir að ræða: rúm 14% aðspurðra segjast neikvæð í garð ferðafólks í ár, á móti 6,4% árið 2022.

Fjölgun vegna Úkraínu, segir forsætisráðherra

Þó að fréttastofa Vísis/Stöðvar 2 hafi valið að sýna aðeins myndskeið af þremur konum af afrískum uppruna í því myndefni sem fylgdi sjónvarpsfréttinni, á þeirri stundu er þeim var gert að yfirgefa húsnæðisúrræði yfirvalda eftir synjun umsókna þeirra um vernd, þá er raunin sú að yfirgnæfandi meirihluti flóttafólks á landinu kemur frá tveimur ríkjum utan Afríku, Úkraínu og Venesúela. Umsækjendur frá þessum tveimur ríkjum hafa verið aðnjótandi sjálfkrafa jákvæðrar niðurstöðu umsókna sinna, samkvæmt ákvörðunum ríkisstjórnarinnar.

Fréttastofa Vísis og Stöðvar 2 ræddi við forsætisráðherra um niðurstöður könnunarinnar.

Í frétt Vísis/Stöðvar 2 voru forsætiráðherra og fjármálaráðherra innt eftir viðbrögðum við niðurstöðum könnunarinnar. Það fyrsta sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra nefndi var að „þessi mál“ hafi verið „mikið í umræðunni“ sem hafi „að sjálfsögðu áhrif“. Ekki er ljóst hvort hún átti við að ætla megi að umfjöllun fjölmiðla um málefni flóttafólks veki andúð á því. „Að sjálfsögðu hafa fleiri verið að koma til landsins vegna stríðsins í Úkraínu,“ bætti hún við, „og vegna ýmissa aðstæðna í heiminum sem hefur gert það að verkum að fleira fólk er á flótta. Þá getur spilað inn í að hér eru fleiri sem koma til að vinna en áður. Við erum að sjá meiri fjölda fólks af erlendum uppruna í samfélaginu en nokkurn tíma áður. Það auðvitað skapar ný viðfangsefni gagnvart því hvernig við tryggjum hér gott samfélag fyrir okkur öll.“

Ástæðan er popúlismi Sjálfstæðisflokks

Illugi Jökulsson, blaðamaður og rithöfundur, vekur máls á viðbragði ráðherrans á Facebook og spyr: „Af hverju getur Katrín ekki sagt satt? Hafi orðið viðsnúningur á afstöðu Íslendinga til flóttamanna, þá er það EKKI vegna vandamála sem auknum fjölda flóttamanna hefur fylgt. Það er einfaldlega vegna þess að Sjáfstæðismenn — hinir óaðskiljanlegu vinir Katrínar — eru að BÚA TIL vandamál til að reyna að æsa upp meira fylgi við sig.“

Illugi Jökulsson segir ljóst að forsætisráðherra viti hver er rót vaxandi andúðar í garð flóttafólks en hafi hljótt um það í þágu stjórnarsamstarfsins.

Illugi fullyrðir ennfremur að forsætisráðherra sjálfri sé ljóst að samstarfsflokkur hennar kyndi undir andúð í garð flóttafólks en hafi ekki orð á því sökum hagsmuna hennar af áframhaldandi samstarfi: „Þetta veit Katrín og þetta ætti hún að segja heiðarlega, og helst segja Sjálfstæðismönnum til syndanna fyrir að daðra svona við pópúlismann. En það mun hún ekki gera. Hún verður að hafa Bjarna góðan. Annars gæti hún misst vinnuna og það vill hún ekki. Þetta er þægileg innivinna, kaupið gott og ýmis hlunnindi. Til að mynda fullt af aðstoðarmönnum sem segja henni hvað hún sé æðisleg. Svoleiðis viðmóti er gott að mæta í vinnunni.“

Vinstri græn skera sig úr vinstrinu

Illugi er fjarri því að vera einn um að líta svo á að það séu stjórnvöld sjálf sem kyndi undir þessa andúð. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, er meðal þeirra sem hafa varað við því á þessu ári að stjórnvöld ýti með orðfæri sínu og ákvörðunum undir „andúð almennings í garð fólks í gríðarlega viðkvæmri stöðu.“

Skjáskot úr frétt Stöðvar 2: kjósendur Vinstri grænna eru miklu ólíklegri til að líta svo á að fjöldi flóttafólks sem fær vernd á Íslandi sé of lítill en kjósendur annarra flokka sem teljast til vinstri.

Ekki kemur á óvart að samkvæmt könnuninni er afstaða kjósenda vinstri- og andófsflokka til málsins að verulegu leyti ólík afstöðu hægri- og miðflokka: 52% kjósenda Pírata líta svo á að hér sé tekið á móti of fáu flóttafólki, og 42% kjósenda Sósíalistaflokksins. Þá eru 30% kjósenda Samfylkingarinnar sama sinnis. Hitt er ef til vill nýstárlegra að kjósendur Vinstri grænna skera sig verulega úr þessu mengi og virðast frekar ganga í takt við hægriflokkana í málaflokknum: aðeins 21% kjósenda VG telja landið veita of fáu flóttafólki vernd.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí