Bandaríkin munu veita Úkraínu fallbyssuskot með skertu úrani. Þetta tilkynntu hernaðaryfirvöld í Pentagon á miðvikudag, á meðan Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, heimsótti Kænugarð. Áður hafði Bretland sent sams konar vopn til Úkraínu. Sprengjur með skertu eða sneyddu úrani nýtast til að brjótast í gegnum brynvarnir, til dæmis skriðdreka.
Um er að ræða 120 mm víð skot í fallbyssur sem beitt verður í Abrams skriðdrekum sem Bandaríkin ráðgera að afhenda Úkraínu á næstu mánuðum. Vopnin voru þróuð af Bandaríkjunum í kalda stríðinu til að sigrast á sovéskum skriðdrekum, meðal annars af þeirri gerð sem rússneski herinn beitir nú í Úkraínu.
Skert úran er hliðarafurð sem verður til við framleiðslu á auðguðu úrani, sem nýtt er í kjarnorkuverum og við gerð kjarnorkuvopna. Skert úran er langtum aflminna en auðgað úran og felur ekki í sér hættu á að hrinda af stað keðjuverkandi kjarnaklofningi. Efnið er hins vegar afar þétt, með nær 70% hærri eðlismassa en blý. Það er þessi þéttleiki efnisins sem gerir það gagnlegt sem skotfæri. The Guardian vitnar í Edward Geist, sérfræðing á sviðinu við bandarísku rannsóknarstofnunina Rand, sem segir efnið vera svo þétt og hafa svo mikinn skriðþunga að það „haldi bara áfram“ á leið í gegnum efnismassa og hitni svo mikið að það kviknar í því.
Vopn með „kjarnorkuinnihald“
Þegar Bretland tilkynnti um afhendingu hliðstæðra vopna til Úkraínu í mars, varaði Vladimír Pútín við því að Rússland myndi svara í sömu mynt, þegar ljóst væri að Vesturlönd væru að hefja notkun vopna með því sem hann nefndi í því samhengi „kjarnorkuinnihald“.
Þessi vopn teljast ekki til kjarnorkuvopna. Kjarnorkueftirlitsstofnun Sameinuðu þjóðanna hefur aftur á móti krafist varúðar við notkun þess vegna þeirrar geislunar sem af þeim stafar. Talið er að beiting vopna með skertu úrani hafi valdið mikilli aukningu á hvítblæði í löndum fyrrum Júgóslavíu og meðal þeirra hermanna sem tóku þátt í stríðinu þar árið 1999. Fyrir tæpu ári síðan greiddu 147 ríki heims atkvæði með ályktun um þessi vopn á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Ályktunin var varfærnislega orðuð, krafðist ekki banns við beitingu vopnanna heldur varkárni og rannsókna. Meðal þeirra ríkja sem höfnuðu ályktuninni voru Bandaríkin og Bretland.
Sendiráð Rússlands í Washington svaraði tilkynningu Pentagon um sendingu þessara vopna með því að fordæma ákvörðunina. Í yfirlýsingu sendiráðsins segir að notkun vopnanna sé „ómannúðleg“ og að „Bandaríkin blekki sjálf sig með því að neita að gangast við því að svokölluð gagnárás úkraínska hersins mistókst.“ Þetta kemur fram í umfjöllun The Guardian.